Gloria Steinem er mætt á samfélagsmiðilinn
Hún er kannski ekki komin með eins marga fylgjendur og litli Íslandsvinurinn Justin Bieber, eða krúttið hún Taylor Swift, en Gloria Steinem er að minnsta kosti komin á Instagram.
Þessi femíníska ofurhetja hefur barist ötullega fyrir jafnrétti kynjanna síðustu áratugina, en hún var ein upphafskvenna hinnar femínísku bylgju sem reið yfir Bandaríkin í lok sjöunda áratugarins.
Í dag er Gloria 82 ára gömul og ferðast um heiminn sem talskona jafnréttis. Á þeim tveimur vikum sem liðnar eru síðan hún birti fyrstu myndina á Instagram hefur hún safnað 7.355 fylgjendum. Sjálf fylgir Gloria 60 notendum, en þar á meðal eru Barack Obama, Hillary Clinton, Beyoncé, Amy Schumer og Lena Dunham.
Það verður spennandi að sjá hvernig þessi merka baráttukona á eftir að nýta samfélagsmiðilinn til að koma boðskap um kvenfrelsi og réttlæti á framfæri.