Heillandi veislusalir í Rúgbrauðsgerðinni
Veislumiðstöðin hefur verið í rekstri frá árinu 1976 og þar hafa starfað þrjár kynslóðir veitingamanna í beinan karllegg. Því býr fyrirtækið samanlagt yfir 100 ára starfsreynslu í veisluhaldi, meðal annars við brúðkaupsveislur. Í Veislumiðstöðinni sameinast annars veg rík hefð og reynsla og hins vegar nútímaleg, persónuleg þjónusta.
Veislumiðstöðin er staðsett í gömlu Rúgbrauðsgerðinni við Borgartún:
„Þetta er eitt af þessum fáu sjarmerandi iðnaðarhúsum sem eru eftir miðsvæðis í borginni enda er þetta fyrrverandi iðnaðarhverfi. Það eru ekki eftir margir góðir veislusalir fyrir brúðkaup hérna miðsvæðis og það ef eflaust ein af ástæðunum fyrir vinsældum okkar,“ segir Ámundi Johansen, rekstrarstjóri Veislumiðstöðvarinnar, en faðir hans, Carl Jónas Johansen, og afi, Sveinn Valtýsson, reka fyrirtækið með honum.
Í húsinu eru þrír glæsilegir veislusalir sem henta fyrir brúðkaup. Á efstu hæðinni, fjórðu hæð, eru Sólarsalur, sem tekur um 250 manns í sæti, og Mánasalur, sem tekur um 80 manns. Úr báðum sölum er frábært útsýni yfir Faxaflóa og Esjuna. Gluggarnir í Sólarsalnum þykja mjög heillandi en þeir eru í laginu eins og kýrauga. Á jarðhæð er síðan Stjörnusalur sem tekur um 150 manns. Þar heillar mjög gesti glæsileg og tignarleg kristalsljósakróna í loftinu.
Að sögn Ámunda kappkostar Veislumiðstöðin að veita persónulega þjónustu og uppfylla óskir viðskiptavina:
„Matarvenjur fólks hafa breyst, áhugi fólks á matreiðslu hefur aukist og það reynir oft sjálft að stýra og koma með hugmyndir að mat. Þá gerum við okkur alltaf far um að uppfylla óskir þess. Hér áður fyrr var það bara seðill eitt, tvö og þrjú og fólk borðaði það sem var fyrir framan það. Veitingamenn réðu því meira áður hvað fólk fékk að borða en nú hefur fólk miklu ákveðnari hugmyndir um hvað það vill hafa í matinn í sinni veislu.“
Að sjálfsögðu teflir Veitingamiðstöðin líka fram sínum hugmyndum við þau brúðhjón sem eftir því sækjast:
„Við mælum gjarnan með því í léttari brúðkaupum, þar sem til dæmis ungt fólk er að gifta sig, að bera forréttinn yfir og hafa síðan flott steikarborð í aðalrétt. Það gerir veisluna léttari þegar fólk stendur upp, blandar geði við gesti við önnur borð, fær sér aftur á diskinn og þess háttar. Það verður miklu léttari stemning en við sitjandi borðhald yfir fjóra tíma. Brúðkaup eru til að tengja saman tvær fjölskyldur og tvo vinahópa og því er þessi samgangur í veislunni mikilvægur. Ef fólk nær sér í matinn sjálft eykur það samgang, kynni og samræður,“ segir Ámundi.
Að sögn Ámunda er steikarhlaðborðið líklega vinsælasti kosturinn í brúðkaupsveislum:
„Við erum líka með sjávarréttahlaðborð og ýmislegt annað í boði. En á steikarhlaðborði hittir fólk matreiðslumanninn sem er að skera, hann spjallar og veitir gagnlegar upplýsingar. Það getur líka komið sér vel ef fólk með sérþarfir er í veislunni, sumir eru til dæmis með glútenóþol eða mjólkuróþol, ofnæmi fyrir möndlum og hinu og þessu. Þessi tenging við eldhúsið og manninn sem er að gefa þér að borða er bæði heppileg og ánægjuleg. Allt uppi á borðinu, eins og maður segir.“
Veislumiðstöðin
Borgartúni 6, 105 Reykjavík
Sími: 512 0102
Netfang: panta@veislumidstodin.is