Það er ekki hægt að kalla það fylgishrun en fylgisminnkun Píratanna virðist vera hafin, tvær Gallupkannanir í röð sýna dvínandi fylgi, sú síðari birtist á RÚV í kvöld.
Nú er ár síðan fylgi Píratanna fór að rjúka upp á við í skoðanakönnunum. Það var í apríl 2015 að þeir fóru yfir þrjátíu prósentin og þar hafa þeir verið síðan – fyrr en nú. Þeir duttu niður í 32 prósent í könnun í síðustu viku, og nú í 29 prósent.
Það sem gerist í Gallupkönnunninni er einfaldlega að nokkurt fylgi fer frá Pírötum yfir á Vinstri græna, altént virðist það passa nokkurn veginn.
Og sömuleiðis fer fylgi frá Framsóknarflokknum yfir á Sjálfstæðisflokk. Því má ekki gleyma að Framsókn tók mikið fylgi frá Sjálfstæðisflokknum fyrir síðustu kosningar.
Annars eru hlutföllin milli stjórnar og stjórnarandstöðu nokkurn vegin eins og þau hafa verið.
Minnkandi gengi Píratanna kemur nokkuð á óvart, en hugsanlega leita frá óvissunni í kringum Píratana til hins gamalkunnuga VG. Í sjálfu sér hefur ekki gerst neitt innan stjórnarandstöðuflokkanna sem skýrir þetta, aðalbreytan er í rauninni að nú eru kosningar yfirvofandi.
Eins og staðan er sýnist manni reyndar að Píratar og VG séu býsna nálægt því að geta myndað saman ríkisstjórn – meirihlutinn væri þó varla mjög traustur. Miðað við síðustu reynslu VG í ríkisstjórn þyrfti hann helst að vera ríflegur.