Fannst látinn í gær, 57 ára að aldri
Tónlistarmaðurinn Prince hlaut meðhöndlun á sjúkrahúsi aðeins sex dögum áður en hann lést eftir að hafa tekið of stóran skammt af fíkniefnum. Frá þessu greinir TMZ.
TMZ greindi frá því í gær að einkaþota tónlistarmannsins, sem fannst látinn í gær, hefði þurft að lenda skyndilega vegna veikinda hans. Fulltrúar Prince sögðu að hann hefði fengið meðhöndlun vegna „flensueinkenna“ en samkvæmt heimildum TMZ hlaut hann meðhöndlun eftir að hafa tekið of stóran skammt af ópíumlyfjum. Fékk hann sprautu á sjúkrahúsi í Illinois sem notuð er til að vinna gegn eitrunaráhrifum fíkniefna.
Þá segir TMZ frá því að Prince hafi verið ráðlagt að vera á sjúkrahúsinu í að minnsta kosti sólarhring. Fulltrúar hans hafi krafist þess að hann fengið einkaherbergi á umræddu sjúkrahúsi, en þegar læknar tjáðu þeim að þeir gætu ekki orðið við þeirri beiðni yfirgaf Prince sjúkrahúsið.
Ekkert hefur verið gefið upp um dánarorsök, en Prince fannst látinn á heimili sínu í gær. Hann var 57 ára.