Fannst látinn á heimili sínu í Minnesota – Var 57 ára gamall
Tónlistarmaðurinn Prince er látinn, 57 ára að aldri, að því er AP-fréttastofan greinir frá. Prince fannst látinn í dag á heimili sínu í Minnesota í Bandaríkjunum. Tónlistarmaðurinn, sem hét Prince Roger Nelson, hafði glímt við veikindi.
Hann var fluttur á sjúkrahús síðastliðinn föstudag í Illinois vegna skyndilegra veikinda. Hann kom þó fram á tónleikum daginn eftir og virtist vera heill heilsu. Að því er TMZ greinir frá, og hefur eftir heimildum, voru einkennin líkt og um flensu væri að ræða. Hann fullvissaði aðdáendur sína í kjölfarið að hann væri heill heilsu og engin ástæða væri til að hafa áhyggjur. Dánarorsök er ókunn á þessari stundu.
Prince var í hópi vinsælustu tónlistarmanna heims á sínum tíma og eftir hann liggja fjölmargar plötur og lög sem slógu í gegn, þar á meðal Cream og Purple Rain. Hann seldi yfir hundrað milljónir platna á ferli sínum sem spannaði um 40 ár. Prince fæddist í Minneapolis í Minnesota árið 1958 og var farinn að semja tónlist sjö ára gamall. Hann kom fjórum plötum í efsta sæti bandaríska vinsældalistans; Purple Rain árið 1984 og Around the World In A Day, Batman og 3121.
Hann gaf í það heila út 39 breiðskífur, þar af fjórar á síðustu átján mánuðum. Í síðasta mánuði tilkynnti bókaútgáfufyrirtækið Spiegel & Grau um að fyrirtækið hefði tryggt sér réttinn að ævisögu tónlistarmannsins, sem ráðgert er að gefa út haustið 2017.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=1Lmq6RDn5O8&w=420&h=315]