Andri Már lét lífið í fallhlífarstökki í Flórída árið 2013 – Kvaddi móður sína með orðunum: „Þetta er allt í lagi mamma, varafallhlífin bjargar mér alltaf“
„Ég vildi ekki að hann færi. Ég ímyndaði mér allt sem hugsanlega gæti farið úrskeiðis. Hvað ef þetta eða hitt myndi gerast? Hvað ef fallhlífin myndi ekki opnast? Eins og svo oft áður þá sagði hann við mig að varafallhlífin myndi alltaf bjarga honum. Varafallhlífin myndi aldrei klikka. Það var það síðasta sem hann sagði við mig.“ Þannig rifjar Alda Kolbrún Haraldsdóttir upp stundina þegar hún kvaddi Andra Má son sinn, daginn áður en hann hélt út til Flórída á fallhlífastökksnámskeið. Þremur vikum síðar sá Alda hann aftur – í kistu í Fossvogskapellu.
Vorið 2013 bárust fregnir af hörmulegu banaslysi tveggja íslenskra fallhlífarstökkvara í Bandaríkjunum. Þetta voru þeir Andri Már Þórðarson, 25 ára gamall nemandi í fallhlífarstökki og Örvar Arnarson, 41 árs, einn reyndasti fallhlífarstökkskennari landsins. Fregnirnar vöktu mikinn óhug og þá ekki síst innan alþjóðlega fallhlífarstökksheimsins, enda einsdæmi að tveir einstaklingar látist báðir í sama stökki.
Hraðspólum að 23. mars 2013, daginn fyrir pálmasunnudag. Klukkan er rúmlega tíu að staðartíma í borginni Zephyrhills í Flórída. 21 manns hópur á vegum fallhlífarstökksfélagsins Frjálst fall stígur um borð í flugvél, þar á meðal Andri og Örvar Arnarson fallhlífarstökkskennari. Í rúmlega 13.500 feta hæð stekkur Andri út úr flugvélinni. Þetta er hans sjöunda stökk frá því hann hóf að æfa íþróttina.
Rúmlega hálftíma áður skrifar Andri kveðju á Facebook til vinar síns sem á von á barni 11. apríl en drengurinn hefur ákveðið að koma í heiminn þennan sama dag. Andri ritar að hann bíði eftir að koma heim og knúsa litla strákinn, sem síðar meir fær nafnið Tristan Andri.
Í um 900 metra hæð ætlar Andri að opna aðalfallhlífina en það tekst ekki. Myndbandsupptaka úr hjálmi Örvars sýnir hann stökkva út úr flugvélinni á eftir Andra og reyna í örvæntingu að opna fallhlíf hans. Þeir falla niður á hraða sem nemur rúmlega 200 kílómetrum á sekúndu. Björgunartilraunir Örvars standa svo lengi yfir að hann sinnir því aldrei að reyna að opna sína eigin fallhlíf.
Tvímenningarnir halda áfram að hrapa á ógnarhraða. Sérstök tölva sér um að ræsa varafallhlíf í ákveðinni hæð frá jörðu. Varafallhlífarnar opnast hjá bæði Andra og Örvari. Það er of seint.
Um svipað leyti er klukkan í kringum tvö eftir hádegi á Íslandi og Alda er að gæta lítils drengs sem heitir Andri Már. Hún fer með hann í afmæli í Skautahöllinni og kveður hann. „Þegar ég kem út þyrmir skyndilega yfir mig og ég fer að hágráta. Ég sest upp í bíl og keyri beint heim, fer upp í rúm og ligg þar fram eftir degi. Ég fæ síðan einhverja óstjórnlega þörf fyrir að slökkva öll ljós og kveikja á kertum. Á mínútunni hálfníu kveiki ég á kerti,“ segir hún.
Tuttugu mínútur yfir tíu um kvöldið birtast lögreglumenn í fullum skrúða á útidyratröppunum. Ekkert hefur spurst til Andra né Örvars kennara hans síðustu áttu klukkutímana.
„Þarna veit ég um leið að hann er dáinn. „Nei nei, það er verið að leita honum,“ segja þeir. En ég veit að hann var farinn,“ rifjar Alda upp – með miklum erfiðleikum.
Alda hringir örvingluð í systkini Andra sem mæta heim til hennar eitt af öðru og lítið annað er hægt að gera en að bíða eftir fréttum. Birgir, eldri bróðir Andra, sest við tölvuna og byrjar að „gúgla“ fréttir af atvikinu á bandarískum miðlum. Þau hugsa með sér að kannski sé Andri fastur uppi í tré eða hafi ekki lent á áætluðum stað.
Skyndilega blasir við fyrirsögn á ensku sem fær blóðið til að frjósa: Tveir fallhlífarstökkvarar hafi fundist látnir í skóglendi á svæðinu, skammt frá flugvellinum. Á dánarvottorði Andra, sem Alda fær í hendurnar nokkrum vikum síðar, er skráður dánartími 20.30 um kvöldið.
Skömmu eftir miðnætti birtist lögreglan aftur á útidyratröppunum en í þetta sinn er prestur með í för.