fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024
Fókus

„Ísland hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu“

Vestur-Íslendingurinn Lindy Vopnfjörð steig á svið Hörpu um síðustu helgi og sló í gegn

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 3. október 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um nýliðna helgi fóru fram tímamótatónleikar hljómsveitarinnar Nýdanskrar í Hörpu. Tónleikarnir voru haldnir í tilefni 30 ára afmælis sveitarinnar og var ekkert til sparað í útsetningum laganna. Þá spilaði sveitin lög af nýrri plötu „Af plánetunni Jörð“ sem var tekin upp í Toronto í Kanada. Þar ytra kynnti söngvari sveitarinnar, Daníel Ágúst Haraldsson, aðra meðlimi fyrir Vestur-Íslendingnum Lindy Vopnfjörð en leiðir þeirra höfðu legið saman nokkrum árum fyrr. Óhætt er að fullyrða að Lindy hafi slegið í gegn því áhorfendur risu úr sætum af hrifningu þegar hann flutti lag sitt „Lover Sister“. Blaðamaður DV heyrði í kappanum þegar hann var nýlentur aftur í heimaborg sinni, Toronto, eftir velheppnaða ferð.

Frá Vopnafirði, Snæfellsnesi og Vestmannaeyjum

„Ísland hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu og skiptir mig miklu máli. Þess vegna var það stór stund fyrir mig að fá að stíga á svið í Hörpu, spila með Nýdanskri og fá svona viðtökur,“ segir Lindy. Hann er af alíslenskum ættum enda héldu Íslendingar vel saman í Vesturheimi. Langamma hans, Dagbjört Kjærnested frá Borg á Snæfellsnesi, fluttist þriggja ára gömul ásamt fjölskyldu sinni til Manitoba árið 1881. Tuttugu árum síðar, árið 1901, gekk hún að eiga afa Lindys, Jakob Jónsson Vopnfjörð, sem augljóslega var ættaður frá Vopnafirði. Sonur þeirra, Axel, afi Lindys, kvæntist síðan ungri konu sem ættuð var frá Vestmannaeyjum. „Ég á því ættir að rekja víða á Íslandi,“ segir Lindy kátur.

Tróðu upp í íslenskum lopapeysum

Tónlist hefur alla tíð leikið stórt hlutverk í lífi Lindys. „Ég hef unnið við ýmislegt en í dag lifi ég alfarið af tónlist. Ég kem fram og spila mína eigin tónlist en síðan hef ég líka verið að semja fyrir auglýsingar og það gengur vel. Foreldrar mínir voru báðir tónlistarmenn og stofnuðu þjóðlagahljómsveit sem ég og bróðir minn vorum í. Við kölluðum okkur Hekla Singers og spiluðum íslensk lög og eins og Á Sprengisandi og Stóð ég úti í tunglsljósi. Við klæddumst lopapeysum og öðrum fatnaði sem minnti á íslenskan fatnað. Við komum meira að segja fram í peysunum á sumrin í miklum hita og þá gat manni orðið ansi heitt,“ segir Lindy. Hann segir síðan blaðamanni skemmtilega sögu um að tónlistargoðsögnin Gunnar Þórðarson hafi verið sá fyrsti sem var viss um að hann yrði tónlistarmaður.

Lindy (fyrir miðju) og fjölskylda hans troða upp.
Hekla Singers Lindy (fyrir miðju) og fjölskylda hans troða upp.

Sannspár Gunnar Þórðarson

„Á áttunda áratugnum var Ríó Tríó á tónleikaferð um Bandaríkin. Þá spiluðu þeir undir nafninu Allt í gamni enda hefðu allir annars haldið að þeir væru frá Brasilíu. Þeir voru að spila í Minneapolis og ákváðu síðan að keyra á slóðir Vestur-Íslendinga í Manitoba. Þegar þeir voru komnir á vettvang þá fundu þeir símaskrá fyrir svæðið og leituðu að íslenskum nöfnum þar,“ segir Lindy. Með krókaleiðum fengu Ríó Tríó-menn loks símanúmerið hjá foreldrum Lindys og skömmu síðar voru þeir komnir í kaffi. Svo fór að þeir gistu hjá fjölskyldunni í nokkra daga og settu upp tónleika á svæðinu. „Foreldrar mínir sögðu mér frá því að hafa setið með Gunnari Þórðarsyni inni í stofu hjá okkur. Hann var að spila á gítarinn sinn og ég sýndi því mikinn áhuga. Þegar mamma kom síðan inn í stofu hrópaði Gunni Þórðar að ég yrði örugglega tónlistarmaður,“ segir Lindy. Þar hitti Gunnar naglann á höfuðið.

Ríó Tríó-menn komu í óvænta heimsókn til Manitoba á áttunda áratugnum. Þá gistu þeir hjá fjölskyldu Lindys.
Gunnar Þórðarson og Lindy Ríó Tríó-menn komu í óvænta heimsókn til Manitoba á áttunda áratugnum. Þá gistu þeir hjá fjölskyldu Lindys.

Síðar höguðu örlögin því þannig að Lindy komst í kynni við Snorra Helgason, son Helga Péturssonar, en þeim er vel til vina í dag. „Snorri var að koma út sem fulltrúi Íslands á tónlistarhátíðina Nuna Now sem vinur minn skipuleggur. Faðir hans, Helgi Pétursson, hafði þá samband við foreldra mína og þannig kynntumst við Snorri hérna úti,“ segir Lindy. Þau kynni urðu til þess að Lindy hefur komið áður til Íslands að spila, meðal annars á Airwaves auk þess sem hann hefur troðið upp með Snorra í tónleikum í kringum landið.

Fjölskylda Lindys og íslenska hljómsveitin. Lindy er í fangi föður síns, Lens.
Ríó Tríó í heimsókn Fjölskylda Lindys og íslenska hljómsveitin. Lindy er í fangi föður síns, Lens.

Að sögn Lindys er hann afskaplega hrifinn af Íslandi og er þegar farinn að íhuga endurkomu. „Ég er að skoða möguleikann á að halda tónleika á Rosenberg í nóvember. Ég læt þig vita,“ segir Íslendingurinn Lindy Vopnfjörð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

In Flames til Íslands í sumar

In Flames til Íslands í sumar
Fókus
Í gær

Háklassa vændiskona útskýrir af hverju hún myndi aldrei fara í vinnuferð til Dúbaí

Háklassa vændiskona útskýrir af hverju hún myndi aldrei fara í vinnuferð til Dúbaí
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara
Fókus
Fyrir 3 dögum

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman