fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Fókus

Hefur aldrei reiðst banamanni systur sinnar

Hafsteinn missti fjóra nána fjölskyldumeðlimi með stuttu millibilli -Glataði öllum eigum í bruna korteri eftir hrun – Starfar við að koma á sáttum milli fólks

Auður Ösp
Þriðjudaginn 19. apríl 2016 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson var 18 ára gamall þegar eldri systur hans var ráðinn bani á hrottalegan hátt og þá missti hann föður sinn óvænt einum og hálfum mánuði síðar. Móðir hans og systir létust með stuttu millibili og í millitíðinni missti hann heimili sitt og allar eigur eftir íkveikju. Þrátt fyrir síendurtekin áföll má hvergi greina hjá honum angur af hatri eða biturleika. Hann er einn af þeim fáu hér á landi sem bera starfsheitið sáttamiðlari en í starfi sínu hefur hann meða annars leitt saman ósátt pör og komið að vinnustaðadeilum og sáttum í forræðismálum. Stundum gengur það út á að að fyrirgefa og halda áfram en fáir geta sett sig jafn vel í þau spor og Hafsteinn sjálfur.


„Hafdís var sex árum eldri en ég og það var svolítið sérstakt að á einum tímapunkti var hún eldri systir mín, svo vorum við jafningar að vissu leyti og síðan tók ég fram úr henni í þroska og þá varð hún þannig séð yngri systir mín. En við vorum mjög náin, alla vega eins náin og hægt er miðað við aðstæður af þessu tagi. Mér þótti gríðarlega vænt um Hafdísi,“ segir Hafsteinn um systur sína sem lést við voveiflegar aðstæður árið 1991.

Hafsteinn er fæddur árið 1972 og ólst upp hjá foreldrum sínum, Hafsteini og Ritu, í Kópavoginum. Skólagangan var Kárnesskóli, svo Þinghólsskóli, MK og FG. Eldri systur hans eru þrjár: Sonja, Linda og svo Hafdís. Samband Hafsteins og Hafdísar var óvenjulegra en gengur og gerist en hún glímdi við þroskaskerðingu. Þegar hún komst á fullorðinsár hafði hún þroska á við 12 ára barn.

Hafsteinn og faðir hans voru ætíð nánir og góðir vinir.
Nokkurra ára gamall með pabba Hafsteinn og faðir hans voru ætíð nánir og góðir vinir.

Óttaðist vin systur sinnar

Eins og hjá mörgum unglingum leitaði hugur Hafsteins út fyrir landsteinana og hann hélt því til Bandaríkjanna sem skiptinemi, 17 ára gamall. Hann heimsótti þá meðal annars Lindu, systur sína, sem á þeim tíma var búsett í San Fransisco og ákváðu þau að fara í skíðaferðalag. Þetta var í febrúar 1991, fyrir tíma farsímanna, og þegar systkinin sneru til baka úr ferðalaginu biðu þeirra skilaboð á símsvaranum. Þá hafði móðir þeirra reynt að ná í þau í marga daga.

„Við heyrðum röddina hennar mömmu þar sem hún sagði að Hafdís hefði fundist látin. Hún hafði þá verið týnd í dágóðan tíma og enginn vissi hvar hún héldi sig. Meira sagði hún ekki,“ rifjar hann upp. „Við vorum algjörlega dofin. Þetta var allt saman svo súrrealískt.“

Þegar Hafsteinn komst á unglingsaldur tók hann fram úr systur sinni í þroska.
„Mér þótti gríðarlega vænt um Hafdísi“ Þegar Hafsteinn komst á unglingsaldur tók hann fram úr systur sinni í þroska.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Á unglingsárunum hafði Hafdís eignast vin sem var nokkrum árum eldri en hún. Þau voru á tímabili saman í skóla en Hafsteinn var 11 ára þegar þau kynntust. Vinur Hafdísar átti við geðræn vandamál að stríða og var vistaður á hinum ýmsu stöðum þar sem að fá úrræði voru í boði. Hann var reglulegur gestur á heimili fjölskyldunnar í Kópavogi og Hafsteinn minnist þess að hafa snemma upplifað ógn af honum þó svo að vinurinn léti aldrei bera á geðfötlun sinni á áberandi hátt við fjölskylduna.

„Ég man að ég var hræddur við hann. Mér leið ekki vel í kringum þennan mann“

„Ég á sterka minningu af honum að koma gangandi niður stigann heima og ég man að ég var hræddur við hann. Mér leið ekki vel í kringum þennan mann. Þetta var vond tilfinning sem ég hef aldrei getað útskýrt.“

Dag einn, í febrúar 1991, hafði Hafdís farið að heimsækja vin sinn sem þá var vistaður á sambýli fyrir þroskahamlaða í Reykjavík. Einum og hálfum sólarhring síðar fannst lík hennar undir rúmi hans. Hún hafði verið stungin, ótal sinnum.
Seinna meir við yfirheyrslur sagði vinur Hafdísar að hann hefði reiðst henni fyrir að heimsækja hann á þriðjudegi en ekki fimmtudegi. Það kemur örlítið hik á Hafstein áður en hann rifjar atburðinn upp. „Hún var stungin 29 sinnum og samkvæmt skýrslum þá skilst mér að hann hafi stungið hana fyrst nokkrum sinnum og hún misst meðvitund og svo hafi hún vaknað og beðið hann um hjálp og þá hafi hann stungið hana meira. Hann átti að vera undir fullri gæslu fylgdarmanns en því var ekki framfylgt, af einhverjum ástæðum. Það voru víst einhverjar framkvæmdir í gangi þegar hún kom að heimsækja hann og því var enginn sem sá hana koma og enginn starfsmaður sem vissi að hún væri þarna.“

Fann fyrir ótta

Fjölskylda Hafsteins var ósátt við hvernig tekið var á málinu af hálfu heilbrigðisráðherra á sínum tíma. Banamaður Hafdísar var dæmdur ósakhæfur og gripið var til þess ráðs að vista hann í leiguíbúð í bænum undir eftirliti fjölskyldu sinnar þar sem engin önnur úrræði virtust vera til og réttargeðdeild var ekki tekin til starfa. Það þótti umdeilt að setja svo óstöðugan mann undir gæslu fjölskyldu sinnar en ekki fagaðila og fjölskylda Hafsteins gagnrýndi einnig harkalega hversu lítið eftirlit hafði verið með manninum þegar hann framdi ódæðið enda augljóst að hann væri hættulegur umhverfi sínu.

„Það var ekki lengur hægt að treysta því að lífið væri réttlátt og sanngjarnt“

Linda, systir Hafsteins, sagði í viðtali við Þjóðviljann árið 1991 að fjölskyldan virtist vera algjörlega réttlaus á meðan samúðin væri öll hjá morðingjanum. „Ráðherra talaði um í blöðum að maðurinn væri að veslast upp í fangelsi en auðvitað yrði heilbrigð manneskja ekki síður eftir sig eftir að hafa framið slíkan verknað á vini sínum. Ég skil ekki hvernig hefur verið tekið á þessu máli,“ sagði Linda meðal annars í viðtalinu og sagði spursmál hvar ætti að draga línuna. „Af hverju sendum við bara ekki alla heim og gefum þeim annan séns?“

Fjölskylda Hafsteins var ekki sátt við þá meðferð sem banamaður Hafdísar hlaut og sögðu augljóst að hann væri hættulegur umhverfi sínu.
Ósátt við málalok Fjölskylda Hafsteins var ekki sátt við þá meðferð sem banamaður Hafdísar hlaut og sögðu augljóst að hann væri hættulegur umhverfi sínu.

Hafsteinn fann fyrir vissum ótta í kjölfar andláts systur sinnar, ótta sem hann hafði ekki fundið fyrir áður. Allt í einu var heimurinn ekki lengur öruggur staður. „Það var búið að kippa undan mér fótunum. Ég hafði ekki lengur traust haldreipi, það var ekki lengur hægt að treysta því að lífið væri réttlátt og sanngjarnt. Ég óttaðist að þetta gæti komið fyrir hinar systur mínar, mömmu eða pabba eða þá mig.“

Hann ber ekki kala eða reiði til mannsins sem drap systur hans.

„Reiðin beindist ekki að honum og hefur aldrei gert. Það er ekki hægt að kenna honum um það sem hann gerði. Reiðin beindist að samfélaginu því þar liggur ábyrgðin. Því miður var þetta mál þaggað niður og enginn var látinn sæta ábyrgð á því að mjög alvarlega veikur maður var vistaður á sambýli sem engan veginn gat gætt hans, og þar að auki var enginn að fylgjast með honum þrátt fyrir það ástand sem hann var í. Ráðamenn eiga að bera ábyrgð og það eiga að koma til bætur þegar samfélagið bregst á þennan hátt þótt auðvitað sé aldrei hægt að bæta með peningum neitt þessu líkt, það er þó lágmarks viðleitni og viðurkenning á mistökum.“

Kúvending

Um vorið 1991, aðeins einum og hálfum mánuði eftir andlát Hafdísar, var Hafsteinn kominn aftur til skiptinemafjölskyldunnar í Bandaríkjunum og var að undirbúa sig undir að fara á alvöru amerískt lokaball, eða „prom“. Þá fékk hann aftur fréttir frá Íslandi sem sneru heiminum á hvolf. Hann fékk að vita að faðir hans væri látinn, 62 ára að aldri.

„Þetta var algjör kúvending, þarna var öllu snúið á haus í mínu lífi. Þetta var öðruvísi missir en þegar Hafdís lést enda var sambandið hjá okkur pabba nánara, hann var miklu meiri þátttakandi í mínu lífi. Hann var algjörlega mín stoð og stytta. Eftir að Hafdís dó ákváðum við að það væri best fyrir mig að fara aftur út, lifa lífinu, komast í annað umhverfi og klára það sem ég var að gera. En eftir að pabbi dó þá kom ekkert annað til greina en að fara heim. Ég gat ekki verið lengur í burtu frá fjölskyldunni.

„Ég sagði honum hvernig mér leið, að mér þætti vænt um hann og elskaði hann“

„Pabbi fékk hjartaslag og lést í svefni. Hann hafði barist við veikindi í ákveðinn tíma, krabbamein, sykursýki og of háan blóðþrýsting en það kom samt algjörlega að óvörum þegar hann lést svo snögglega. Síðasta skiptið sem ég hitti hann var áður en ég fór aftur út til Bandaríkjanna. Þá var hann rúmliggjandi og lá inni á spítala og leit satt að segja ekki vel út.“

„Pabbi var af þeirri kynslóð manna sem var ekki mikið að tjá sig um líðan sína þannig að hann sagði mér ekki hvernig honum leið og hvað í raun amaði að honum. Einhverra hluta vegna fann ég það á mér að þetta gæti verið okkar síðasta stund saman þannig að ég fékk þörf fyrir að nota tækifærið og láta allt flakka við hann. Ég sagði honum hvernig mér leið, að mér þætti vænt um hann og elskaði hann. Ég hafði það sterkt á tilfinningunni að ég þyrfti að gera það nákvæmlega þarna. Þó svo hann segði ekki mikið á móti þá fann ég greinilega að hann var sama sinnis,“ rifjar Hafsteinn upp en bætir við að það hafi verið huggun harmi gegn að vita til þess að faðir hans fékk sína hinstu ósk uppfyllta. „Þegar mamma spurði hann fljótlega eftir að þau kynntust hvernig hann vildi helst deyja þá sagðist hann vilja ekkert frekar en fá að deyja í svefni við hliðina á henni.“

„Hann var miklu meiri þátttakandi í mínu lífi“
Erfitt að missa pabba „Hann var miklu meiri þátttakandi í mínu lífi“

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Mikilvægt að skilja aldrei í ósátt

Í febrúar 2007, þegar Íslendingar kepptust við að hækka yfirdráttinn í botn og kaupa flatskjái, neyddist Hafsteinn til þess að kveðja móður sína. Að hans sögn var aldrei hægt að sjá á henni að hún hefði gengið í gegnnum þær hörmungar að missa bæði eiginmann og dóttur og jafnframt að fást við hrörnunarsjúkdóm. Enn og aftur var Hafsteinn staddur í Bandaríkjunum þegar hann fékk fréttirnar og flaug heim.

„Mamma, sem var bundin í hjólastól frá því um sextugt, þurfti að fara í uppskurð út af krabbameini í hálsi. Hún fékk lungnabólgu ofan í uppskurðinn og náði sér aldrei á strik eftir það. Þetta gerðist mjög hratt, það liðu ekki nema tvær eða þrjár vikur.“ Hafsteinn segir það hafa verið skelfilegt að horfa upp á móður sína missa allan mátt í líkamanum. „Þetta var barátta fram á síðasta dag. Maður er einstaklega varnarlaus í þessum aðstæðum.“

Þegar Hafsteinn greinir frá þessu er óvenjumikið æðruleysi í tón hans. „Ég hafði tækifæri til að segja hvernig mér leið og náði að skilja við þannig að ég var sáttur. Það er mikil friðþæging.“ Hann segir mikilvægt að skilja aldrei við neinn í reiði eða ósátt. „Þú veist aldrei hvort eða hvenær þú munt fá símtal sem breytir öllu.“

Núllpunktur

Um miðjan janúar 2009, nokkrum mánuðum eftir að brúnaþungur Geir H. Haarde hafði beðið Guð um að blessa Ísland, kom Hafsteinn heim í þriðja skiptið frá Bandaríkjunum þar sem hann hafði verið að ljúka við lokaritgerð í meistaranámi og stóð fyrir framan brunarústir timburhúss sem hann átti á Klapparstígnum. Það hafði verið kveikt í því og það eina sem var eftir var grunnur hússins.

„Þarna sat ég eftir með tölvuna mína og einhverja hluti í ferðatöskunni. „Þetta voru samt allt bara einhverjir veraldlegir hlutir sem ég missti. Það sem mér fannst eiginlega sárast að sjá eftir voru ástarbréf foreldra minna sem mamma hafði látið mig fá með því skilyrði að ég læsi þau ekki fyrr en þau væru bæði fallin frá. Ég hafði ekki gefið mér tíma í það.“

„Þarna gat maður byrjað upp á nýtt“

Hafsteinn segist þrátt fyrir allt hafa fundið fyrir ákveðinni frelsistilfinningu við að missa allar sínar eigur. „Þarna gat maður byrjað upp á nýtt, þó svo að auðvitað væri líka ákveðinn afkomuótti til staðar, enda hrunið nýskollið á. Ég hafði sankað að mér helling af dóti og drasli í gegnum tíðina og geymdi til dæmis átta eða níu svarta plastpoka fulla af fötum í húsinu því ég gat ekki hugsað mér að losa mig við þá af einhverjum ástæðum. Þarna rann það upp fyrir mér að allt þetta dót skiptir nákvæmlega engu máli þegar upp er staðið.

Þarna breyttist viðhorfið mitt gagnvart því að vera stöðugt að sanka að sér hinum og þessum óþarfa. Að halda að þú sért öruggari í þessu lífi með því að eiga nóg af hlutum er auðvitað tómt rugl en ómeðvitað held ég að fólk fyllist öryggiskennd við að eiga hluti, við höldum að það sé einhver vörn eða trygging fyrir því að deyja ekki. Hugarfarið mitt hefur því breyst og í dag kaupi ég frekar færri en ögn dýrari hluti sem endast lengur og nýti þá til fulls.“

Bjó til kveðjustund

Ekki liðu nema örfáir mánuðir frá brunanum þar til Hafsteinn fékk annað rothögg. Þá kvaddi hann fjórða fjölskyldumeðliminn, eldri systur sína, Sonju. Henni hafði þá verið haldið sofandi í öndunarvél í nokkrar vikur.

„Sonja var með vægari einkenni en mamma af hrörnunarsjúkdóminum og átti á ýmsan hátt erfitt út af því. Einn daginn fékk ég símtal frá manninum hennar sem sagði að Sonja væri á spítala. Hún hafði þá fengið blóðtappa í lungað og missti í kjölfarið meðvitund.“

Skiljanlega var ekki auðvelt að horfa á náinn ástvin berjast fyrir lífinu og geta ekkert gert. Óvissan var því mikil, að sögn Hafsteins.

„Okkur var ýmist sagt að hún myndi ná sér eða að hún myndi ekki ná sér eða að hún myndi ná sér en aldrei vera sama manneskjan og áður. Að lokum var ákveðið að notast við líknandi meðferð og taka öndunarvélina úr sambandi,“ rifjar Hafsteinn upp. Hann er þó sáttur við hvernig leiðir skildu hjá þeim systkinum. „Ég útbjó kveðjustund með henni deginum áður en súrefnið var tekið af henni og hún tók síðasta andartakið.“

Leiðir einstaklinga saman

Hafsteinn er með BA-gráðu í sálfræði en árið 2010 lauk hann meistaragráðu frá háskólanum í Denver í átakastjórnun (conflict resolution) og sáttamiðlun (mediation). Síðan þá hefur hann unnið sem sálfræðiráðgjafi og sáttamiðlari og er varaformaður í SÁTT, samtaka um sáttamiðlun, og einn af stofnendum.

Í mjög stuttu máli útskýrir Hafsteinn að sáttamiðlun snúist um að hlutlaus sáttamaður skapi skilyrði fyrir fólk sem er í einhvers konar ágreiningi að leiða sín mál til lykta á sanngjarnan og uppbyggjandi hátt. „Þannig er það mitt hlutverk sem sáttamiðlari að draga fram þekkingu og sköpunargáfu einstaklinganna við að leysa vandann og tryggja á sama tíma að þeir hlusti á hver annan og sýni hver öðrum viðeigandi virðingu. Mál leysast í 80 til 90 prósent tilvika ef maður bara fær tækifæri til að skapa réttu skilyrðin svo þessir aðilar geti talað saman.“

Verkefnin hafa verið mörg og fjölbreytt. Hafsteinn hefur meðal annars unnið með innanríkisráðuneytinu að innleiðingu geranda og þolanda sáttamiðlunar inn í íslenskt réttarkerfi. Þá hefur hann þjálfað lögreglumenn og sýslumenn um allt land í geranda og þolanda sáttamiðlun. „Þessi tegund sáttamiðlunar kallst uppbyggileg réttvísi og á bara við innan réttarkerfisins þar sem gerandi hefur brotið af sér gagnvart þolanda. Hún er því að ýmsu leyti mjög ólík þeirri sáttamiðlun sem ég hef unnið við síðustu átta árin þar sem tveir eða fleiri jafn réttháir aðilar vilja bara hittast til að leysa ágreining sín í milli.“

„Með þessu er líka verið að huga að hagsmunum gerandans og samfélagsins“
Leiðir saman gerendur og þolendur í sáttamiðlun „Með þessu er líka verið að huga að hagsmunum gerandans og samfélagsins“

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

„Hugmyndafræðin þar á bak við er að brotaþolinn fá meiri stjórn á því hvernig hann eða hún vill leiða málið til lykta, fái skýringar á því af hverju gerandinn gerði það sem hann gerði og geti séð hvort gerandinn iðrist gjörða sinna og þolandinn fær jafnframt tækifæri til að fyrirgefa gerandanum ef þolandinn vill það. En að fá afsökunarbeiðni eða bara fyrirgefa óháð því að gerandi biðjist afsökunar getur oft hjálpað þolandanum að ná sér eftir það sem gerðist. Þá fær gerandinn að auki tækifæri til að bæta fyrir skaðann í samræmi við óskir þolandans,“ segir hann og bætir við að sé þessum fundum rétt stjórnað þá séu hagsmunir þolandans alltaf hafðir í fyrirrúmi.

„Með þessu er líka verið að huga að hagsmunum gerandans og samfélagsins því ef gerandinn áttar sig á afleiðingum gjörða sinna og hvaða áhrif það hafði á þolandann þá er hann ólíklegri til að brjóta af sér aftur. Jafnframt er kostnaðurinn minni og málin leyst á styttri tíma en ella þegar notast er við þessa aðferð.“

Að sögn Hafsteins er enginn vafi á því að með þessum hætti er hægt að leysa málin á þann hátt að allir aðilar komi út úr aðstæðunum sem sterkari einstaklingar. Eins og er mega aðeins minni háttar brot fara í sáttamiðlun hér á landi.

„Því miður erum við langt á eftir nágrannaþjóðum okkar þar sem þessi aðferð er mun viðurkenndari fyrir dómstólum og notuð í alvarlegum málum eins og ofbeldis- og kynferðisbrotamálum, annaðhvort fyrir eða eftir uppkvaðningu dóms. Það er afskaplega leitt að sjá og þetta er neikvæð þróun vegna þess að ávinningurinn fyrir þolendur og gerendur, sem og samfélagið í heild, er mjög mikill.“

„Margir halda að þeir séu að gefa eftir ef þeir ákveða að fyrirgefa“

Snýst um að axla ábyrgð

Eins og gefur að skilja hefur Hafsteinn ósjaldan velt fyrir sér hugtakinu um fyrirgefningu. En á hún alltaf við? Er hægt að fyrirgefa allt, jafnvel morð eða kynferðisbrot?

„Margir halda að þeir séu að gefa eftir ef þeir ákveða að fyrirgefa. Þeir hafi ósjálfrátt þá tapað leiknum. Það á auðvitað aldrei að horfa framhjá þeirri staðreynd að alvarlegt brot hafi átt sér stað eða gera á einhvern hátt lítið úr tilfinningum þolandans. En kannski má líka hugsa þetta þannig að gerandinn er að vissu leyti þolandi líka. Hann er þolandi samfélags sem hefur getið hann af sér. Það er ekki eins og gerandinn detti fullskapaður úr einhverju tómi heldur þroskast hann og þróast í þeim kerfum, stofnunum og fjölskyldumynstrum sem við sem samfélag bjóðum upp á. Einhvers staðar hlýtur gerandinn að öðlast þessar skoðanir, langanir og hegðun sem á endanum leiða til þess að hann brýtur af sér. Þannig að þegar hlutirnir eru skoðaðir í samhengi og ef við fengjum allar upplýsingar um hvernig flestir gerendur eru aldir upp þá myndum við, held ég, nánast án undantekninga fyrirgefa þeim um leið. Við sem samfélag ölum upp fólk og afbrot lýsa í raun bara hversu vel okkur er að takast til, á þessu þurfum við að taka ábyrgð og gera það á uppbyggilegan hátt.”

Umræðan um biturleika, reiði, fórnarlömb og gerendur hefur líklega sjaldnast átt eins vel við og nú – í ljósi atburðanna sem nýverið skóku íslenskt samfélag og ríkisstjórn.

„Þessir einstaklingar léku ákveðið hlutverk í þessu samfélagi,“ segir Hafsteinn. „Aðstæðurnar voru fyrir hendi og það var frjór jarðvegur fyrir þá til að leika þessi hlutverk. En það er líka okkar ábyrgðarhluti að standa vörð. Það voru margir sem tóku þátt í þessu gullæði, og það voru mörg viðvörunarljós sem var ekki tekið mark á. Við kusum fólk í þessar stöður til að sjá um þetta fyrir okkur, þess vegna hlýtur ábyrgðin að vera hjá okkur að einhverju leyti. Við þurfum að spyrja okkur hvers vegna við buðum upp á aðstæður fyrir þessa atburði til að þróast og dafna eins og þeir gerðu.“

Skoðanakerfið breytir öllu

„Þegar upp er staðið þá gaf það mér mikið að lenda í öllum þessum áföllum og ég lít alls ekki á mig sem fórnarlamb. Þetta varð til þess að ég þurfti að endurskoða mín lífsviðhorf, eins og bara það af hverju við erum hérna á jörðinni og út á hvað þetta gengur allt saman og sú vegferð hefur gefið mér mikið. Ég missti systur mína vegna manns sem ákvað að enda hennar líf. Ég get ekki svarað fyrir það af hverju þessi einstaklingur, á þessum tímapunkti, fékk leyfi til að enda líf annarrar manneskju. Það er ekki hægt að dæma mig fyrir að vera ekki reiður manninum vegna þess að mitt skoðanakerfi er ekki endilega það sama og hjá næsta manni.“

„Ég hef fyrirgefið öllum varðandi allt sem fyrir mig hefur komið og jafnframt fyrirgefið mér og beðist afsökunar fyrir allt sem ég veit að ég hef gert öðrum. Ég væri ekki sá sem ég er í dag ef ég hefði ekki gengið í gegnum þetta. Ef maður lendir aldrei í átökum, ágreiningi, erfiðleikum eða áföllum þá held ég að maður læri ekki eins mikið um lífið og eftir stendur ef til vill spurningin; er gott eða slæmt að lenda í slíku? Og svarið gæti verið að það fer eftir því hvernig við tökumst á við viðfangsefnið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vikan á Instagram – Athyglissjúk stjörnuhjón og bótox

Vikan á Instagram – Athyglissjúk stjörnuhjón og bótox
Fókus
Í gær

Aþena Sól var frelsissvipt og pyntuð en vitnið þagði – „Ég elska að sjá þig þjást“

Aþena Sól var frelsissvipt og pyntuð en vitnið þagði – „Ég elska að sjá þig þjást“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nær óþekkjanleg Ellen DeGeneres á pöbb í Bretlandi

Nær óþekkjanleg Ellen DeGeneres á pöbb í Bretlandi