Sláandi munur á íslenska og danska heilbrigðiskerfinu – Hefur aldrei þurft að draga upp budduna – „Kerfið vill að mér gangi sem best að sinna sjálfri mér“
„Sumir eiga eitthvað í buddunni, aðrir ákaflega lítið. Það að fá ekki að hitta lækni fyrr en maður er búinn að borga fyrir það er hreinlega andlega erfitt, get ég ímyndað mér, þegar kljáðst er við erfið veikindi,“ segir Ásdís Guðnadóttir en hún er búsett í Danmörku þar sem hún gengst um þessar mundir undir krabbameinsmeðferð eftir að hafa greinst með illkynja krabbamein í brisi síðastliðið sumar. Hún ritaði á dögunum pistil þar sem hún lýsir upplifun sinni af danska heilbrigðiskerfinu – og kveðst hún afar fegin að hafa ekki greinst með sjúkdóminn hér á landi.
„Ég er í líknandi lyfjameðferð. Er sem sagt skilgreind ólæknandi,“ segir Ásdís í samtali við blaðamann DV.is og útskýrir að með lyfjameðferðinni sé vonast til þess að minnka krabbann því þá sé möguleiki á öðrum uppskurði, en annars halda honum í skefjum til að auka lífslíkurnar. Fæstir sem greinast með þessa tegund krabbameins lifa þó lengur en fimm ár.
Ásdís tekur veikindum sínum af ótrúlegu æðruleysi. „Maður veit aldrei hvenær rothöggin berast manni. En ég er ekki dauð enn og ætla að reyna að hafa eins gaman af lífinu og hægt er þar til þar að kemur,“ segir hún en hún veitti blaðamanni góðfúslegt leyfi til að birta pistilinn.
„Ég hef búið í Danmörku í samtals um fjórtán ár. Greitt hér mína skatta og alið upp dreng. Stuttu eftir að ég greindist var ég skorin upp á von og óvon, því næst send í dýrar lyflækningar þar sem ég er enn og núna fæ ég akstur til og frá spítala, aðgang að þeim eina lækni sem ég helst vil hafa aðgang að, heimahjálp til að aðstoða við uppvask og þrif, sjúkraþjálfa heim til mín allt að þrisvar sinnum í viku til að hjálpa mér með léttar æfingar og nudda mig, hjólastól til að hjálpa mér að komast út að ganga, indælt öryggistæki sem tekur burt óttann við að fara of langt að heiman og lenda allt í einu í þreytukasti sem gerir mér erfitt að komast aftur heim, mat sendan heim, sem ég greiði líklega kostnaðarverð fyrir, fyrir bæði mig og son minn,“ ritar Ásdís í pistil sínum.
Hún bætir við að einnig fái hún sálfræðing eins oft og hún telur þörf á sem kemur heim til hennar, auk hjúkrunarfræðings sem einnig kemur heim til hennar og þá heimsækir hana einnig félagsráðgjafi sem hjálpar henni með ýmis „praktísk“ mál sem þarf að sinna.
„Allir koma heim til mín, svo að ég þurfi ekki að þvælast um og standa í því öllu. „Kerfið“ vill að ég geti farið út að ganga og njóta vorsins, ekki nota orkuna í þvæling á milli manna. „Kerfið“ vill að mér gangi sem best að sinna sjálfri mér og syni mínum í erfiðum veikindum.“
Ásdís tekur fram að hún fyrir utan matinn hafi hún aldrei þurft að greiða fyrir neitt úr eigin vasa:
„Ég greiði aldrei komugjald, ég greiði aldrei neitt fyrir aðgerðir, skanna, rannsóknir af neinu tagi og þar sem sjúkdómur minn telst ólæknandi á meðan ekki er hægt að skera meinið burt, greiði ég heldur ekki krónu fyrir neitt af þeim ótal lyfjum sem ég nota eða orkudrykkjum sem koma í stað matar ef matarlystin er léleg,“
Ásdís segir fréttir að heiman gera sig dapra. „Þessi ekki sérlega leynda ákvörðun um að einkavæða heilbrigðiskerfið er skelfileg. Að fjársvelta það kerfi sem þegar er til er hræðilegt. Mörg okkar eiga peninga og geta greitt ýmsilegt. Önnur okkar ekki. Ef ég hefði þurft, í mínu ferli, að fylgjast vel með fjárhagnum og athuga hvort ég ætti nú fyrir næsta skanna, næstu komu á spítalann, næsta viðtali við lækni og lyfjunum öllum… Ja, ég hefði ekki haft efni á því. Og þótt ég hefði haft efni á því.
„Mér finnst eitthvað notalegt þegar læknaritarinn á lyflækningadeildinni tekur á móti mér og segir: „Sæl, Ásdís, ertu búin í blóðprufunum? Fáðu þér sæti, læknirinn er tilbúinn eftir smástund.“ Og það er bara það. Ekkert kort sem þarf að strauja, engir peningar sem þurfa að skipta um hendur. Bara velkomin, Ásdís, við erum hér fyrir þig.“
„Ég hef aldrei borgað mikla skatta. En ég hef borgað þá sem ég hef átt að borga og aldrei séð eftir þeim peningum. Af því að það er þetta sem ég borga fyrir þegar ég borga skatta. Að vera gripin þegar það slæma gerist, að geta sent son minn í skóla sem ekki þarf að greiða fyrir, að vita að það séu til úrræði fyrir fíkilinn á götuhorninu, vændiskonuna á hinu horninu og okkur öll… ekki bara fáein útvalin.
Ég vona svo heitt og innilega að landið sem ég ólst upp í beri gæfu til að snúa við, breyta um stefnu og vera gott „kerfi“ fyrir alla. Ekki bara suma.“