fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Að skila eða ekki skila lyklunum

Bjarni sagði síðustu ríkisstjórn umboðslausa með 36 prósenta fylgi – Krafði Jóhönnu um lyklana – Stuðningur við núverandi ríkisstjórn aldrei minni

Ritstjórn DV
Laugardaginn 16. apríl 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, krafðist þess í að minnsta kosti tvígang opinberlega á síðasta kjörtímabili að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna segði af sér. Í fyrra skiptið mældist stuðningur við ríkisstjórnina 36,1 prósent en í það síðara 28,9 prósent samkvæmt könnunum MMR. Samkvæmt nýjustu könnun MMR frá 6. apríl síðastliðnum, eftir að upplýst var um aflandsfélagaeign ráðherra, mælist fylgi við ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks 26 prósent. Í minnst þrígang mældist síðasta ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með minna fylgi.

Hvor tveggja ríkisstjórn VG og Samfylkingar og ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks gerði breytingar á ráðherraliði sínu en virti kröfu stjórnarandstöðu og almennings um að víkja að vettugi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur stigið til hliðar sem forsætisráðherra og hefur núverandi ríkisstjórn boðað að gengið verði til kosninga í haust, nokkrum mánuðum fyrr en áætlað var. Engin dagsetning er þó komin á þær kosningar enn.

Í brimróti síðustu daga í skugga afhjúpunar Panama-skjalanna hefur bæði inn á þingi sem og í kröftugum mótmælum verið hávær krafa um að einstaka ráðherrar og/eða ríkisstjórnin segi af sér og boðað verði til kosninga strax. Enn á eftir að koma í ljós hvort orðið verði við kröfum mótmælenda en ljóst er að ýmsir núverandi stjórnarþingmenn og ráðherrar höfðu uppi sambærilegar kröfur á síðasta kjörtímabili þegar gaf á bátinn hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

DV ákvað því að rifja upp nokkur dæmi um fylgisþróun síðustu tveggja ríkisstjórna út frá lykildagsetningum þar sem kröfur um afsögn og breytingar voru hafðar uppi sem og hvað var að gerast í þjóðfélaginu á umræddum tíma. Allar tölur um fylgi eru fengnar úr gögnum og könnunum MMR.


Mars 2010:

Þetta hafði gengið á

Þann 6. mars 2010 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-lögin umdeildu sem þjóðin felldi með yfirgnæfandi meirihluta eftir að forseti Íslands hafði synjað þeim undirskriftar. Öll spjót beindust að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar aðeins rúmu ári eftir alþingiskosningar 25. apríl 2009. Meðal annarra töldu Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð að ríkisstjórnin ætti að víkja. 5. mars 2010 hafði ríkisstjórnin mælst með 36,1 prósents fylgi í könnun MMR.

Það sem sagt var

  1. mars 2010 sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið að hann teldi að ríkisstjórn sem væri „verklaus, ósamstíga og nýtur ekki trausts lengur hafi ekkert erindi lengur.“ Þá bætti hann við:
    „Nú þarf ríkisstjórnin að horfast í augu við það að hún hefur ekki umboð til þess að halda áfram á sömu braut,“ og enn fremur:
    „Fólk ætlast til þess að stjórnvöld þvælist ekki fyrir. Fólk vill fá að grípa þau tækifæri sem eru til staðar. Ríkisstjórnin hefur ekki haft burði til þess að greiða götu fólks og fyrirtækja.“

Í umræðum formanna flokkanna í Silfri Egils 7. mars 2010 kvaðst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, túlka niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem vantraustsyfirlýsingu á ríkisstjórnina, vildi að ríkisstjórnin segði af sér og að boðað yrði til kosninga sem fyrst.


Október 2010

Mynd: © DV ehf / Sigtryggur Ari

Þetta hafði gengið á

Fjölmenn og hörð mótmæli voru í byrjun október á Austurvelli þar sem fólk lét ríkisstjórnina heyra það fyrir blóðugan niðurskurð í þjóðfélaginu og að lítið sem ekkert væri verið að gera varðandi skuldavanda heimilanna og kallaði eftir skjaldborg um heimilin. Alþingi, þingmenn og ráðherrar voru grýttir og slori var sturtað við heimili Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J.

  1. október mældist ríkisstjórnin með það sem átti eftir að reynast hennar minnsti stuðningur á kjörtímabilinu, samkvæmt könnunum MMR, aðeins 22,8 prósent. Þrátt fyrir þetta var ekki uppi hávær krafa meðal stjórnarandstöðunnar um að ríkisstjórnin stigi til hliðar.

Það sem sagt var

Mynd: © Róbert Reynisson

„Ég held að það verði annaðhvort kosningar eða breytt stjórnarmynstur en hvort við tökum þátt í því skal ég ekki segja,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í Bítinu á Bylgjunni 8. október og talaði um að mynda þjóðstjórn. „Ég held að það væri æskilegast að allir kæmu inn í stjórnina og mynduð yrði þjóðstjórn sem myndi sameinast um tíu mikilvægustu verkefnin og fara í þau. Þá ræður meirihlutinn í þinginu.“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, líkti Össuri Skarphéðinssyni, Steingrími J. og Jóhönnu við dauða fugla á grilli bíla á bloggi sínu.
„Nú eru þau föst í grillinu – geta ekki losað sig – geta ekki brotið odd af oflæti sínu með að segja það hreint út að þau ráði ekki við vandann. […] Þau bíða að einhver komi með hanska og plokkara til að ná þeim … Hví – jú það lítur betur út fyrir þessi þrjú egó – sem halda að þau séu stærri en þjóðin.“


Desember 2012

Mynd: © Róbert Reynisson

Þetta hafði gengið á

Mikil ólga á vinnumarkaði þar sem Alþýðusamband Íslands hafði meðal annars sakað ríkisstjórnina um svik og vanefndir. Steingrímur J. sakaði forseta ASÍ um að kunna ekki mannasiði og samskipti stjórnar og ASÍ voru afar stíf. 11. desember mældist ríkisstjórnin með 28,9 prósenta fylgi í könnun MMR.

Það sem sagt var

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

  1. desember 2012 krafðist Bjarni Benediktsson þess að Jóhanna Sigurðardóttir „skilaði lyklunum“ í ræðu á Alþingi.
    „Það er hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að leiða saman þjóðina, skapa sátt í samfélaginu, koma á friði og ró á vinnumarkaði eftir því sem ríkisstjórnin hefur eitthvað fram að færa í þeim efnum, en ekki að efna til átaka, svika og sundrungar í samfélaginu,“ og bætti við:

„Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er ekki kominn tími til að viðurkenna uppgjöfina, viðurkenna getuleysið, viðurkenna úrræðaleysið sem blasir við öllum? Er ekki kominn tími til að skila lyklunum? Hvers vegna á að halda þjóðinni í þeirri stöðu að þurfa að bíða eftir kosningum fram á vor […] Hvers vegna ekki bara að skila lyklunum nú þegar?“



Svona var fylgið

Þegar best og verst lét hjá Samfylkingu og VG
Svona var fylgið

Minnsta fylgi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna:

– 5. október 2010: 22,8%

– 17. apríl 2012: 25,5%

– 14. apríl 2013: 24,6%

Mesta fylgi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna:

– 25. apríl 2009: 47,7%

Alþingiskosningar fóru fram 25. apríl 2009

Svona hefur fylgið verið

Þegar best lét og nú á þessum síðustu og verstu hjá Framsókn og Sjálfstæðisflokki
Svona hefur fylgið verið

Minnsta fylgi ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks:

– 2. júní 2015: 29,4%

– 20. janúar 2016: 30,1%

– 6. apríl 2016: 26%

Mesta fylgi ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks

– 1. júní 2013: 59,9%

Alþingiskosningar fóru fram 27. apríl 2013.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

FA kvarta til Umboðsmanns Alþingis vegna reglugerðar Willums um kúkabrúnar tóbaksumbúðir

FA kvarta til Umboðsmanns Alþingis vegna reglugerðar Willums um kúkabrúnar tóbaksumbúðir
Fréttir
Í gær

Lukka bregst við „árásum“ embættis landlæknis – „Hulin ráðgáta hvers vegna Alma Möller er á móti heilsueflandi forvarnarstarfsemi“

Lukka bregst við „árásum“ embættis landlæknis – „Hulin ráðgáta hvers vegna Alma Möller er á móti heilsueflandi forvarnarstarfsemi“