Grimmd á Barnalandi
„Ég var allt í einu með heila þjóð ofan í nærfataskúffunni minni. Ég tók tvær ákvarðanir í þessum skilnaði, þær voru ekki fleiri. Annars vegar leyfði ég mér að fara allan tilfinningarússíbanann og setti ekki kröfu á mig með neitt. Svo hins vegar ákvað ég að tala ekki um þetta við fjölmiðla né tjá mig opinberlega um málið. Aðalástæða þess var að mig langaði ekki að dóttir okkar færi sjálf á netið seinna meir og læsi um hvað gekk á,“ segir Manuela Ósk Harðardóttir í opnu viðtali við Vísi. Þar tjáir hún sig um skilnaðinn við Grétar Rafn Steinsson, samfélagsmiðlana, umtalið og kjaftasögur þess efnis að hún sé haldin átröskun.
Samband og skilnaður Grétars, sem er fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, var ítrekað í fjölmiðlum. Manuela var krýnd fegurðardrottning Íslands árið 2002. Greindi Manuela frá því að Grétar hefði slitið sambandinu með tölvupósti. Þau giftu sig í nóvember árið 2007 í Hollandi eftir stutt kynni en þau kynntust á samskiptavefsíðunni Myspace. Þau eignuðust eina dóttur. Þau skildu svo árið 2010.
Skilnaðurinn fór ekki fram hjá neinum og þá heldur ekki þær hatrömmu deilur sem blossuðu upp í kjölfarið en mikið var fjallað um skilnaðinn í íslenskum fjölmiðlum. DV fjallaði um skilnaðinn á sínum tíma og var meðal annars rætt við Vilhjálm Vilhjálmsson, þáverandi lögmann Manuelu. Ástæða þess var sú að Manuela hugðist kæra Grétar Rafn fyrir persónunjósnir en enskir lögmenn Grétars Rafns voru sagðir hafa notast við einkaspæjara til að fylgjast með Manuelu sem bjó þá með öðrum íslenskum manni í húsi sem Grétar hafði leigt.
Í samtali við Vísi segir Manuela að margt sem hafi verið skrifað um hana á þessum tíma, þar á meðal hjá DV hafi ekki verið rétt. Tekur hún ekki fram nákvæmlega hvað það var en segir að það hafi haft slæm áhrif á hana og mannorð hennar. Segist hún ekki hafa haft styrk til að verja sig. Manuela var meðal annars sökuð um að vera gullgrafari, að hafa gifst til fjár, en DV greindi frá því að hún fengi þrjár milljónir á mánuði frá Grétari eftir skilnaðinn. Þessu hefur Manuela mótmælt.
„Fólk leyfir sér ennþá að halda ákveðna hluti um mig. Það er margt steikt í þessu. Allt niður í sextán ára stelpur finna sig knúnar til að tjá sig um að „fyrrverandi haldi mér uppi“ á netinu og vísa í eldgamla frétt á DV. Þar segir að hann þurfi að borga mér einhverjar þrjár milljónir á mánuði. Þetta er einfaldlega rangt.
Segir Manuela að hún hafi staðið vel fjárhagslega þegar hún kynntist Grétari. Erfði hún meðal annars föður sinn en hann lést er hún var aðeins tveggja ára.
„Það meikar ekkert sens í raunveruleikanum og þegar sú saga klikkar þá hef ég séð fólk skrifa að pabbi minn haldi mér uppi. Hann sé forríkur lýtalæknir í New York. Það særði mig. Pabbi minn dó þegar ég var tveggja ára. Hann er vissulega ekki að halda mér uppi. Ég þurfti engan karlmann inn í líf mitt. Ég giftist Grétari svo sannarlega ekki fyrir peningana hans.“
Þá kveðst hún gáttuð á fullorðnu fólki sem finni hjá sér þörf til að skrá sig inn á Barnaland til að tjá sig um útlit annarra. En Manuela hefur mátt þola ýmsar kjaftasögur er tengjast útliti hennar. Hefur verið sagt að hún þjáist af átröskun. Því mótmælir Manuela. Segist hún vera komin með nóg af neikvæðninni og kjaftasögunum í samfélaginu.
„Af hverju má ég þá ekki bara vera dálítið feit í framan? Eða aðeins of mjó í tvær vikur vegna álags? Heldur fólk að það sem það skrifar hafi ekki áhrif? Ef ég rekst ekki á þetta sjálf, fæ ég þetta sent.