fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Húskarlavíg í Hvassaleitinu

Handritshöfundurinn, Huldar Breiðfjörð, sótti innblástur í hæstaréttadóma og Íslendingasögur við skrifin á Undir trénu

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 26. október 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er augljóst að kvikmyndahúsagestir tengja vel við þær heiftúðugu nágrannaerjur sem stigmagnast og enda með ósköpum í Undir trénu. Tæplega 40 þúsund manns hafa séð þessa nýjustu mynd leikstjórans Hafsteins Gunnars Sigurðssonar frá því að hún var frumsýnd í byrjun september.

Myndin er fjölskyldudrama með óþægilega sótsvörtum kómískum undirtónum. Þar fléttast saman tvær sögur, önnur um forræðisdeilu ungs pars sem hefst þegar konan stendur kærasta sinn að því að horfa á gamalt kynlífsmyndband af sjálfum sér og fyrrverandi kærustu. Ungi maðurinn, leikinn af Steinþóri Hróari Steinþórssyni, neyðist til að flytja tímabundið aftur á æskuheimili sitt í Hvassaleitinu, en þar lifa foreldrar hans, leiknir af Eddu Björgvinsdóttur og Sigurði Sigurjónssyni, enn í skugga hörmulegs fráfalls eldri sonar síns. Á sama tíma eiga þau í heiftúðugum deilum við nágranna sína sem vilja að veglegt og skuggsælt tré í garði þeirra verði fellt.

Það er rit- og handritshöfundurinn Huldar Breiðfjörð sem skrifaði handritið ásamt Hafsteini, en hann skrifaði einnig handritið að síðustu mynd leikstjórans, París norðursins. Samstarf þeirra hófst fyrst þegar þeir voru báðir í kvikmyndanámi í New York um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar og Undir trénu á rætur sínar að rekja allt til þess tíma.

Innblásinn af hæstaréttardómi

Hugmyndin að Undir trénu fæddist fyrir um áratug, árið 2007, þegar Huldar og Hafsteinn Gunnar voru að leita sér að spennandi sögu til að kvikmynda eftir að þeir höfðu báðir lokið kvikmyndanámi í Bandaríkjunum.

„Á þessum tíma vorum við svolítið að flýta okkur að finna góðan efnivið. Við vildum ráðast í að gera bíómynd og láta það gerast hratt,“ segir Huldar.

„Ég talaði við félaga minn sem var að kenna lögfræði við Háskólann og spurði hann hvort hann myndi eftir einhverjum skemmtilegum málum sem væri hægt að nota sem innblástur. Hann benti mér á nokkur áhugaverð mál og þar á meðal nágrannadeilu um runna, deilu sem hafði farið alla leið í Hæstarétt. Það fór ekkert af þessu tiltekna máli inn í söguna okkar en það sem kom mér í gang var að sjá hvernig frekar venjulegt úthverfafólk – að því er virtist – breyttist bara í algjöra brjálæðinga á augabragði. Mér fannst merkilegt hversu hratt deilan stigmagnaðist og hvað það virtist vera svakalega mikil heift í henni. Ég hugsaði að það hlyti að liggja eitthvað annað að baki – eitthvað meira en þessi eini runni. Þegar ég fór að velta þessu fyrir mér fóru fyrstu persónur sögunnar fljótlega að koma til mín,“ segir Huldar.

„Á þessum tíma vorum við hins vegar með nokkur önnur verkefni í pípunum og fljótlega sáum við að þessi efniviður krefðist eflaust meiri tíma en við ætluðum að nota í verkið og því lögðum hugmyndina til hliðar.“

Kunnum ekki að vera ósammála

Huldar segir hins vegar að sagan hafi haldið áfram að mallast og þróast í huga hans næstu árin:

„Þegar svona hugmynd hefur fæðst þá fer maður að rekast á hana hér og þar, taka eftir henni úti um allt. Við vorum nýkomnir úr námi erlendis og sáum íslenskt samfélag að vissu leyti með nýjum augum. Við urðum fljótlega frekar uppteknir af því hvað allt var logandi í deilum í samfélaginu, nágrannaerjur voru reglulega að blossa upp í fjölmiðlum og það voru forræðisdeilur víða í kringum okkur. Þetta voru ágengar deilur frekar en einhverjar gæfulegar rökræður.“

Má ekki segja að deilurnar í myndinni séu að miklu leyti til komnar vegna þess að það er ekki tekist á við vandamálin, það er ekki talað um þau og ekki unnið úr áföllum – þannig að í raun ganga þau aftur og ásækja fólk?

„Jú, ef málin eru ekki kláruð almennilega þá hafa þau tilhneigingu til að koma hressilega til baka. Þess vegna er slæmt hvað við erum oft léleg í að vera ósammála og rökræða málin. Maður sér þetta til dæmis núna þegar styttist í kosningar, við erum alltaf í einhverri heift. Þetta er allt önnur menning en til dæmis í Englandi þar sem það er mikið sport að rökræða, fara í fínlegar skylmingar með kjaftinum. Hérna heima förum við frekar í að fella manninn og stinga beint í hjartað – bara eins í Íslendingasögunum,“ segir Huldar.

„Það er eflaust hægt að yfirfæra umræðuna á Facebook jafnt sem Alþingi á myndina. Ég held því bara opnu fyrir áhorfendur fyrir hvað tréð stendur fyrir, þeir geta ákveðið sjálfir hverju þeir vilja skipta trénu út fyrir.“

Huldar segir það hafa verið flókið að koma inn öllum þeim sögum og vinklum sem þeir vildu í þröngt form kvikmyndahandritsins en það hafi þó hjálpað að hafa tréð sem þungamiðju í verkinu. Hann segir að fyrir hann persónulega hafi þó verið erfiðast að skrifa senur þar sem mamman, leikin af Eddu Björgvinsdóttir, var atkvæðamikil. „Það er svo mikill tregi og harmur í kringum þessa persónu. Eftir að ég var búinn með sumar senur með henni var ég alveg búinn á því. Að sama skapi var ótrúlega gefandi að vinna með hana og gaman að skapa svona sterka kvenpersónu. Svo tóku leikstjórinn og Edda þetta náttúrlega upp á annað „level“.“

Það er mikill tregi og harmur í kringum persónu móðurinnar Ingu - sem Edda Björgvinsdóttir leikur í Undir trénu. Huldar segist oftar en ekki hafa verið uppgefinn eftir að hafa eytt tíma með persónunni.
Uppgefinn eftir Ingu Það er mikill tregi og harmur í kringum persónu móðurinnar Ingu – sem Edda Björgvinsdóttir leikur í Undir trénu. Huldar segist oftar en ekki hafa verið uppgefinn eftir að hafa eytt tíma með persónunni.

Handritshöfundar ættu að lesa Íslendingasögurnar

Huldar segir það hafa verið skemmtilega upplifun að fylgjast með áhorfendum á frumsýningunni engjast um á myndinni enda er húmorinn oft kaldur og nístandi: „Maður heyrir það á hlátrinum að myndin færir fólk mjög hressilega úr stað. Þegar líður á hana fer að koma fram eitthvert taugaveiklunarfliss sem er allt að því óviðeigandi. Þá veit maður að myndin er farin að skrúfa sig inn í fólk.“

Hann segir að markmiðið hafi fyrst og fremst verið að skrifa dramatíska mynd og þó að hinir kómísku undirtónar séu vissulega í handritinu hafi það verið leikstjórnarleg ákvörðun Hafsteins Gunnars að draga fram hinn sótsvarta húmor í myndinni. „Okkur langaði alltaf til að gera svolítið dramatískari og átakameiri sögu en við höfðum áður gert, til dæmis í lokaverkefni Hadda í New York, í sjónvarpsseríu sem við höfðum skrifað saman og París norðursins. Það sem ég gerði á meðan ég var að skrifa handritið var að leggjast svolítið yfir Íslendingasögurnar. Þar erum við með 40 sögur sem fjalla margar að miklu leyti um nágrannaerjur. Það er til dæmis hægt að benda á Eyrbyggju eða húskarlavígin í Njálu. Þar er líka áberandi hvað deilurnar eru oft ótrúlega slóttugar og andstyggilegar – hvað karakterarnir ganga langt og beita illkvittnislegum aðferðum til að koma hinum aðilanum úr jafnvægi. Í harmrænunni allri í Íslendingasögunum er því líka mjög svartur tónn og ég held að hann hafi að einhverju leyti skilað sér inn í handritið.“

Það er áhugavert að þú hafir sótt innblástur fyrir þessa nútímalegu úthverfasögu í Íslendingasögurnar. Er það efniviður sem ætti oftar að geta verið kvikmyndagerðarmönnum samtímans innblástur?

„Já, almennt séð er mjög gagnlegt fyrir handritshöfund að lesa Íslendingasögur vegna þess að þar er frásögnin yfirleitt mjög myndræn – og það er einmitt eitt af því sem handritshöfundar þurfa að ná fram. Líkt og í kvikmyndum ferð þú aldrei inn í hausinn á persónunum í Íslendingasögunum, þetta liggur allt í atburðarásinni – atvikum eða samtölum. Ég held að í þessi tilviki hafi ég hins vegar aðallega sótt í átökin, dramað og deilurnar – og svo sótti ég kannski einhvern kraft í þær.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Getur ekki gleymt því sem hún sá í tölvu eiginmannsins – „Ég man það í hvert skipti sem við stundum kynlíf“

Getur ekki gleymt því sem hún sá í tölvu eiginmannsins – „Ég man það í hvert skipti sem við stundum kynlíf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom
Fókus
Fyrir 4 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð