„Svo fór ég á Vog fyrst þegar ég var sextán ára,“ segi Davíð Tómas Tómasson betur þekktur sem Dabbi T, körfuboltadómari og rappari. Hann greinir frá baráttu sinni við fíkniefni og klám í viðtali við Mbl.
Eftir að hafa farið í meðferð 16 ára var Davíð án áfengis í fimm ár. Áður en hann féll hafði hann látið draum sinn rætast, sem var að verða körfuboltadómari. Þá ræðir Davíð um þegar hann ánetjaðist klámi og hversu erfitt það var að ná tökum á fíkninni.
„Þrettán ára kynntist maður internetinu og þá opnaðist hafsjór af einhverjum viðbjóði. Og þetta mótar ungan mann þó ég hafi ekki séð það þá. Klámið er bara eins og neysla á öllu öðru sem er slæmt fyrir mig og þetta bara stigmagnaðist … “
Þegar Davíð tók til í lífi sínu, var klámið einn af þeim hlutum sem hann taldi sýkja líf sitt.
„ … og það tók mig heilt ár. Pældu aðeins í því, heilt ár að segja skilið við það. Það segir ýmislegt um hversu sterk áhrif það hefur á fólk.“
Í dag hefur Davíð verið edrú í þrjú og hálft ár. Hann hefur aldrei verið jafn hamingjusamur. Nú stefnir hann á að verða alþjóðlegur körfuboltadómari. Vill hann hjálpa fólki að öðlast hamingju.
„Það eru ekki allir jafn heppnir og ég. Þetta breytir líðan manns, hugsun manns og skoðunum manns og það fer allt að snúast um þetta á örskammri stundu. Þannig var það hjá mér. Ég get kannski bara notað þetta til góðs.“