Fyrirtækið Stólpi Gámar lætur setja upp tvö samtengd gámahús á sýningunni Verk og vit sem haldin verður í Laugardalshöllinni dagana 3.–6. mars. Á staðnum verður fulltrúi fyrirtækisins CONTAINEX sem framleiðir og byggir húsin og mun hann útskýra notkunarmöguleika húsanna, svara spurningum gesta og vera almennt til skrafs og ráðagerða.
„Á sýningunni er fyrst og fremst verið að kynna lausnir fyrir verktaka og byggingar. Við verðum þarna með tvö uppsett gámahús þar sem skoða má ýmsar útfærslur á gluggum og öðrum útbúnaði. Við sýnum tvö samsett gámahús sem gera samtals 30 fermetra,“ segir Hilmar Hákonarson, sölustjóri Stólpa Gáma.
„Hús af þessu tagi eru gjarnan notuð á byggingarsvæðum sem vinnubúðir. Hins vegar má einnig eiga von á gestum á sýninguna sem hafa áhuga á þessari lausn sem gestahúsi við sumarbústaðinn sinn og jafnvel er hægt að setja saman heilu sumarbústaðina úr þessum einingum. Það er mikill áhugi fyrir svona fljótlegum lausnum. Þetta er mjög ódýr kostur en einnig afskaplega þægilegur, þetta er bara tilbúið og það eina sem þarf að gera er að tengja húsið við rafmagn,“ segir Hilmar.
Stólpi Gámar ehf. var stofnað árið 2006 til að halda utan um viðgerðir, sölu og leigu á gámum og gámahúsum. Athafnasvæði Stólpa Gáma er að Klettagörðum 5 í Reykjavík en þar fer fram sala og leiga á gámum sem og viðgerðir og endurbætur á stálgámum, einkum þurrgámum, opnum gámum og gámafletum. Gámaleiga er stór þáttur í starfsemi fyrirtækisins.
„Leiga á kæli- og frystigámum hefur farið vaxandi hjá okkur. Við erum núna að koma nýjum frystigámum í umferð sem fara í útleigu. Þetta nýtir sjávarútvegurinn sér mikið sem og kjötvinnslur. Einnig eru þessir gámar úrræði sem verslanir nýta sér gjarnan þegar kemur upp bilun í kæli,“ segir Hilmar.
Stólpi Gámar býður þrjár stærðir af frystigámum; tíu feta gáma sem eru þriggja metra langir, 20 feta sem eru sex metra langir og 40 feta sem eru 12 metra langir.
„Það hefur oft komið fyrir að við höfum sett upp frystigáma við hliðina á stórum matvöruverslunum vegna skyndilegrar bilunar í frystigeymslum – eða vegna viðhalds og tæmingar á frystigeymslum fyrirtækjanna,“ segir Hilmar.
Þessa þjónustu er yfirleitt hægt að fá með engum fyrirvara því Stólpi Gámar hefur nær alltaf tiltæka frystigáma sem eru tilbúnir til notkunar hvenær sem er.
Svokallaðir búslóðagámar eru eins og nafnið gefur til kynna nýttir til geymslu búslóða en að sögn Hilmars eru þeir til margs konar annarra nota svo réttnefnið er í raun geymslugámar:
„Þeir nýtast til dæmis sem aukalagerpláss hjá verslunum og það er hægt að nýta sér þetta á svo margan hátt – enda er töluvert um að fyrirtæki notfæri sér þessa möguleika. Við getum geymt gáminn sem er í notkun hjá okkur ef óskað er. Við erum búnir að kaupa 100 nýja geymslugáma til að mæta vaxandi eftirspurn en við höfum næga gáma tiltæka til að mæta þessum þörfum fyrirtækja. Þetta eru splunkunýir gámar sem eingöngu eru notaðir til geymslu á búslóðum eða vörum – í þetta fara bara hreinir og þurrir hlutir.“
Nánari upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins eru á vefsíðunni stolpigamar.is en öllum fyrirspurnum er einnig svarað í síma 568 0100.