Það verður að segjast eins og er að forsetakosningarnar á Íslandi byrja stórundarlega.
Það eru komnir fram á annan tug frambjóðenda. Enginn þeirra er líklegur til að skora hátt – hvað þá vinna kosningarnar. Margir frambjóðendanna virðast einungis vera að vekja athygli á sjálfum sér. Þeim er það auðvitað heimilt.
En þær sögur ganga fjöllunum hærra að tvær stórkanónur úr pólitík síðustu áratuga séu að undirbúa framboð, Össur Skarphéðinsson og Davíð Oddsson.
Undireins og annar þeirra býður sig fram gjörbreytist andrúmsloftið í kringum kosningarnar. Þá verður þetta hápólitískt – og þá hefst tími mikilla upprifjana fremur en að horft verði fram veginn.
Össur hefur setið á Alþingi síðan 1991, í 25 ár, hann var í ríkisstjórn bæði fyrir og eftir hrun, semsagt í hrunstjórninni sjálfri og í stjórninni sem tók við í ársbyrjun 2009.
Davíð Oddsson var sem kunnugt er borgarstjóri í Reykjavík í 9 ár, forsætisráðherra í 13 ár og seðlabankastjóri þar á eftir. Er nú ritstjóri Moggans sem er óspart beitt í stjórnmálabaráttu.
Báðir eru þeir umdeildir menn – Davíð þó nokkuð umdeildari.
Þarna erum við að tala um forsetakosningar sem gætu snúist upp í pólitísk hjaðningarvíg með endalausum skírskotunum til gamalla ávirðinga.
Vegna fjölda frambjóðenda er hugsanlegt að forseti verði kosinn með tuttugu af hundraði atkvæða. Við gætum semsagt fengið yfir okkur forseta sem er ekki bara umdeildur, sundrar þjóðinni fremur en sameinar hana, heldur er líka með lítið og lélegt umboð.
Davíð hefur svosem ekkert látið hafa eftir sér enn hvort hann ætlar í framboð, þann varnagla verður að slá. Össur er hins vegar mjög altillegur þegar forsetakosningarnar ber á góma og í síðustu viku birti hann grein sem hafði það inntak að hann væri hinn eðlilegi arftaki Ólafs Ragnars Grímssonar.