fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024
Fókus

Heilbrigðismálin verða næsta kosningamál

Sigmundur þarf að finna gleðina á nýjan leik – Fann stökkbreytingu í eigin DNA – Hefur gaman af Pírötum – Nýr spítali þarf að rísa hratt

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 22. mars 2016 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Iðulega hefjast viðtöl af þessu tagi með lýsingu á veðri og aðstæðum á kaffihúsi. Hér er ekki þörf á því. Fyrir framan mig situr Kári Stefánsson, vísindamaður, læknir og margt fleira. Skegg og hár er hvítt. Hann er svartklæddur frá hálsi og niður úr. Hann er íbygginn. Næstum eins og að hann sé við það að finna nýtt gen.

„Ég er í góðu jafnvægi,“ svarar hann spurningunni: Hvernig ertu?
„Æi,“ hrekkur upp úr mér.
„Nei, nei. Ég verð iðulega brjálaður mjög fljótt.“ Hann áttar sig á að fyrir blaðamann er vænlegra að hafa hann þeim megin.

Kári hefur farið mikinn í samfélagslegri umræðu á Íslandi síðustu vikurnar og rifist við forystumenn ríkisstjórnarinnar. Þó mest við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Kári. Þú leggur af stað með undirskriftasöfnun sem hefur það markmið að auka útgjöld til heilbrigðiskerfisins – og já, til hamingju með árangurinn í henni. Þú endar svo í hávaðarifrildi við forsætisráðherra.

„Ég mótmæli því harðlega að það hafi leitt til hávaðarifrildis milli mín og forsætisráðherra.“
Þið hafið skipst mjög harkalega á skoðunum.

Sigmundur of viðkvæmur

„Ég held að forsætisráðherra hafi orðið á svolítil mistök í þessu öllu saman. Hann hefur litið á undirskriftasöfnunina sem gagnrýni á sína ríkisstjórn og það á sjálfsagt rætur að rekja til þess að hann hefur upp á síðkastið, að mínu mati, verið of viðkvæmur fyrir eðlilegu aðhaldi í samfélaginu. Hann kom inn í íslensk stjórnmál sem ferskur vindur á vordegi og leiddi af miklum dugnaði og kjarki baráttu gegn þessum Icesave-samningum. Hann vann þar þessari þjóð mikið þarfaverk. Við getum öll verið honum þakklát fyrir það.

Upp á síðkastið finnst mér hann hafa orðið óþarflega viðkvæmur fyrir gagnrýni sem alltaf hlýtur að vera beint að forsætisráðherra og það öllum stundum. Ég held hann hafi ekki áttað sig á hversu mikil upphefð það var að vera undir fertugu og vera orðinn forsætisráðherra. En þegar maður tekur við slíku starfi setur hann sig í miðjuna í þess háttar gagnrýni. Ég held að hann hafi tekið þessari undirskriftasöfnun sem gagnrýni á sig og sína ríkisstjórn, sem er alger misskilningur. Þessi undirskriftasöfnun er tilraun til þess að fá fólkið í landinu til þess að tjá sig um ákveðinn málaflokk. Ég gerði það í þeirri von að hægt væri að nota það til þess að breyta því hvernig við forgangsröðum í ríkisfjármálum.

Þegar fólk ræðir hvert hlutverk samfélagsins eigi að vera þá greinir okkur á. Fæddir sósíalistar eins og ég telja að samfélagið eigi að gera allt fyrir okkur og svo eru það frjálshyggjumennirnir, sem finnst að samfélagið eigi að gera mjög lítið. En ég held að við séum öll sammála um að samfélagið á að hlúa að þeim sem eru meiddir og lasnir í okkar samfélagi. Ef við gerum það ekki þá erum við ekki samfélag. Við höfum verið að heykjast á þessu á síðustu áratugum. Við höfum ekki fjárfest í heilbrigðiskerfinu þannig að það geti sinnt þessu hlutverki. Ég var að reyna með þessari undirskriftasöfnun að fá fólk til að þröngva stjórnmálamönnum til þess að forgangsraða á annan hátt, setja miklu meiri fjármuni í heilbrigðiskerfið. Með þessu má segja að ég sé að gagnrýna síðasta aldarfjórðung af íslenskri pólitík. Með því má svo aftur segja að gagnrýnin hitti okkur fyrir, þjóðina sem kýs það fólk sem stjórnar landinu. Það er hreinn misskilningur hjá Sigmundi að líta á þetta sem gagnrýni á hann eða hans flokk.“

En þið hafið misst ykkur í persónulega hluti?
„Ég er algerlega ósammála því. Ég held að það hafi verið mistök af Sigmundi að skrifa grein þar sem hann kallar mig Toppara landsins. Það er gersamlega út í hött fyrir mann í hans stöðu að láta draga sig út í slíkt. Ég hins vegar, sem venjulegur þegn í þessu samfélagi, hef miklu meira frelsi til að tjá mig.

Strákpjakkurinn forsætisráðherra

Það kann vel að vera að uppeldi mitt spili inn í. Ég var alinn upp á heimili þar sem við bræðurnir vorum fjórir og það var mikið slegist og kné látið fylgja kviði. Síðan risu menn bara upp og voru vinir.

En ég hef ekki bara skotið föstum skotum að Sigmundi. Ég hef líka skotið á Bjarna Benediktsson og við höfum samt setið saman á síðustu tveimur dögum og átt fínar samræður og verið býsna sammála um margt er lýtur að heilbrigðiskerfinu.“
En hefurðu hitt Sigmund eitthvað eða heyrt í honum?
„Nei. Ég reyndi að ná sambandi við hann til þess að ræða hvernig ég gæti skilað honum þessari undirskriftasöfnun þannig að hún líti ekki út sem gagnrýni á ríkisstjórnina en Sigmundi finnst ég of vondur maður til þess að ræða við mig.

Hann á dáldið erfitt strákpjakkurinn með að hysja sig upp úr þeirri skoðun að hann hafi verið barinn of fast. Þetta er misskilningur. Menn eiga að geta tekist á og eiga að geta kveðið fast að en samt sest niður að kvöldi og rætt saman og leyst vandamál.“

Þegar við Kári sitjum saman flettum við upp á endurreisn.is og könnum stöðuna á undirskriftasöfnuninni. Teljarinn segir 84.720. Hverju á þessi undirskriftasöfnun að breyta?

„Ég er að vonast til þess að alþingismenn og ríkisstjórn noti þetta sem mælikvarða á það sem samfélagið vill. Ég vona að þeir skilji að hvernig þeir bregðast við þessu kemur til með að hafa meiriháttar áhrif á það hvernig atkvæði skiptast næsta vor í þingkosningum. Ég get lofað þér því að heilbrigðismál verða heitasta kosningamálið á næsta vori.“

Bara að hann rísi hratt

Ef þið Sigmundur enduðuð saman á eyðieyju, bara tveir. Hvernig myndi það enda?
„Ég hugsa að það færi mjög vel. Ég kann feikivel við Sigmund. Hann er skýr, skapandi og getur verið mjög skemmtilegur. En ég held að hans vandamál sé að hann les ekki nógu vel þau skilaboð sem honum eru send. Í stað þess að njóta þessarar stöðu sem hann er í núna og hlusta og horfa og brosa og taka svo sínar ákvarðanir þá lítur hann á allt of margt í þessu samfélagi sem ógnandi.“

Glöggt er gests augað

Kári útskrifaðist sem læknir úr Háskóla Íslands fyrir fjörutíu árum. Hann starfaði sem læknir Bandaríkjunum í tuttugu ár. Fimmtán ár í Chicago og fimm ár í Boston.„Þegar maður kemur til baka þá þykir manni ofboðslega vænt um þessa þjóð og þetta land. Maður hefur líklega skarpari sýn á samfélagið en þeir sem ekki hafa farið burtu. Mér finnst þetta alveg stórkostlegt samfélag og það er miklu meira gaman að búa hér en í Bandaríkjunum.Mér finnst við samt vera að glata aðeins þeim gæðum sem felast í því að vera pínulítið fyrrverandi sveitasamfélag.Ég man þegar ég kom heim, þá setti ég saman eftirfarandi vísu:Það er á mínu böli bótog björg úr ljótum pínum.Að aftur hafi íslenskt grjótundir fótum mínum.Það gerði ég þótt mér finnist svona vísnasmíð bæði púkalega og óendanlega gamaldags, kannski vegna þess að ég hef á síðari árum öðlast töluvert innsæi inn í þá staðreynd að ég er bæði púkalegur og gamaldags.

En eru þið ekki báðir pínu harðhausar? Getur það verið?
„Alls ekki. Það er ekki til annað í mínu eðli en mýkt. Eins og þú veist.“
Hér gerir Kára sig sekan um að brosa. Gráa skeggið rennur til hliðanna og hann verður allur mildilegri að sjá. Við förum í önnur mál en ekki minna aðkallandi.
Skiptir máli hvar spítalinn rís?

„Ég held það skipti óskaplega litlu máli. Ég hef enga sérstaka skoðun á því hvar hann eigi að rísa. Bara að hann rísi hratt. Ég held því fram að það útspil forsætisráðherra að leggja til Vífilsstaðalóðina án þess að tala við heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra og forystumenn Landspítala og heilbrigðiskerfið sé ekki til neins annars fallið en að tefja málið.

Ef við værum að hefja þetta mál í dag þá myndi ég leggja til Vífilsstaði. En ef ég væri forsætisráðherra þá hefði ég rætt við heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra. Að gera það ekki er hreinn glæpur.“

Ef þú mættir velja einn mann til að verða forseti Íslands. Hver væri það?

Svarið lætur ekki á sér standa. „Þórarin Eldjárn. Hann bara vill ekki fara í þessa stöðu.“
Einhver af þeim sem hafa komið fram?

„Ég hef einfaldlega ekki fylgst nægilega vel með þessu. En ef ég réði þessu embætti myndi ég leggja það niður. Ég held að það gegni mjög litlu hlutverki. Eins og ég met það mikils við Ólaf Ragnar að hafa skotið þessum Icesave-málum til þjóðarinnar þá held ég að það beygli svolítið þingræðið að hafa þann möguleika.“

Frí heilbrigðisþjónusta

Þú segist vera sósíalisti. Er það rétt hjá þér?
„Já.“
Hvernig upplifir þú þig sem sósíalista?

„Ég hef mikla trú á því að við eigum að hlúa að samneyslu í okkar samfélagi. Ég tel að við eigum að reka kraftmikið heilbrigðiskerfi sem á að vera algerlega frítt fyrir fólkið í landinu. Það er alveg fáránlegt að menn þurfi að draga upp kreditkortið sitt þegar þeir koma inn á slysavarðstofu. Það er ekki ásættanlegt að það verði mönnum fjárhagsleg byrði að þurfa að borga fyrir lyf þegar menn verða lasnir. Mér finnst að við eigum að hlúa mjög vel að skólakerfinu okkar. Ég hef raunar aðra skoðun á skólakerfinu en Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Í stað þess að stytta nám til stúdentsprófs finnst mér að við eigum að lengja það þannig að þessi blessuð börn fái að vera í vernduðu umhverfi lengur.“

Ygglibrúnin er komin aftur. En hún er miklu frekar merki um að hann sé djúpt hugsi þegar hann talar. Hann heldur áfram:

„Lífslíkur fólks eru að aukast. Stór hundraðshluti heldur starfsgetu til 75 ára aldurs. Við ættum frekar að hækka þennan skyldueftirlaunaaldur upp í 75 ár. Annars endum við með því að vera með svo stóran hluta af samfélaginu á herðum okkar, sem ekki er að leggja neitt af mörkum. Við endum alltaf með að þurfa að sjá um allt þetta fólk. Þetta er bara spurning hvernig við ætlum að dreifa vinnunni.“

Bak við ygglibrúnina er góður karl. Harður en hugsandi. Við förum vítt og breitt.

Píratar eru að mælast stærsta stjórnmálaaflið í skoðanakönnunum. Hugnast þér það?

Mikilvægasta málið

„Mér finnst dáldið gaman að Pírötum en ég veit ekki hvað þeir eru. En það er þannig með marga hluti sem mér finnst gaman að. Ég veit ekki almennilega hvað það er. Ég held að stór hundraðshluti af þeirra fylgi eigi rætur sínar í því að menn eru búnir að fá nóg af gömlu fjórflokkunum og vilja ekki þeirra kerfi og leiti þar af leiðandi á einhvern stað þar sem er ekkert kerfi. Ég held að Píratar yrðu fyrstir til að viðurkenna að þeir eigi eftir að setja saman stefnuskrá sem hægt sé að reiða sig á. En þetta er kraftmikið, duglegt fólk og ég vona að Píratar verði jákvætt pólitískt afl í íslensku samfélagi. Ég hef fulla trú á því að þeir verði það.“

Hvað myndi sósíalistinn Kári Stefánsson kjósa ef kosið væri til Alþingis í dag?

„Ég get ekki svarað þessari spurningu. Ég er ekkert yfir mig hrifinn af því hvernig stjórnmál eru að skipast í íslensku samfélagi, akkúrat núna. Við skulum orða það þannig að það yrði sá stjórnmálaflokkur sem tekur heilbrigðismálin í sitt fang. Sá formaður stjórnmálaflokks sem segir: Ég ætla að gera kröfuna í þessari undirskriftasöfnun að baráttumáli mínu, hann er formaður þess flokks sem ég ætla að kjósa. Ég lít svo á að heilbrigðismálin séu mikilvægasti málaflokkurinn í dag. Og ég tel að það gefi góða vísbendingu um það hvernig stjórnmálaflokkur ætlar að hlúa að almenningi í þessu landi, hvernig hann vill halda á heilbrigðismálum.“

Sigmundur verður að endurheimta gleðina

Kári, hvað viltu ráðleggja Sigmundi að gera í þessu máli og út frá ykkar samskiptum?

„Hann verður að endurheimta gleðina. Ég er alveg handviss um að ef hann endurheimtir gleðina, verður kátur og glaður, þá verður hann aftur þetta góða afl í íslenskri pólitík. Það er ekki hægt að fara í gegnum þetta með fýlusvip og vera sífellt að kvarta, veina og væla. Það er ekki sæmandi fertugum manni sem er forsætisráðherra. „The world is his oyster“. Hvernig getur hann látið eins og heimurinn sé vondur við hann. Ég bara skil þetta ekki.“

Langar þig ekki til að stíga inn á pólitíska svið …
„Nei. Ég er erfðafræðingur. Ég er handviss um …“
Flugfreyja hefur verið forsætisráðherra?
„Já, mig langar heldur ekki til að verða flugfreyja.“

Ygglibrúnin er horfin út í veður og vind. Við hlæjum innilega. Hann reynir að sækja á nýjan leik alvarleikann sem hann er iðulega umlukinn.

Skoðaði sýni úr sjálfum sér

„Ég hef svo gaman af vinnunni minni. Ég fæ að taka þátt í því að gera uppgötvanir næstum því á hverjum degi. Við erum enn þá sú „operation“ í mannerfðafræði í heiminum sem er að skila mestum árangri. Þetta er sú hlið „biologiunnar“ sem er hvað framsæknust. Ég lít svo á að ég sé forréttindamaður. Að fá að vinna með öllu þessu stórkostlega fólki niðri í Vatnsmýri er ólýsanlegt. Af hverju ætti ég að vilja fara þaðan í að vera einhver pólitíkus?“
Kári! Hefur þú einhvern tíma tekið sýni úr sjálfum þér og rannsakað?
„Já. Erfðamengi mitt hefur verið raðgreint úr DNA sem annars vegar hefur verið einangrað úr blóði mínu og hins vegar sem var einangrað úr skafi úr kinninni á mér. Þannig að allt erfðamengi mitt hefur verið raðgreint tvisvar.“

Ertu eðlilegur?
„Erfðamengi mitt reyndist ekkert sérstaklega merkilegt að skoða. Það er í raun miklu auðveldara að komast að raun um eðli manns með því að ræða við hann í fimm mínútur en með því að skoða erfðamengi hans. Að vísu kom í ljós að ég er með eina stökkbreytingu sem veldur svolitlum heilsufarslegum vanda, en ég ætla ekki að fara út í það nánar. En það kom mér á óvart þegar það var staðfest.
Við erum öll hönnuð þannig að endanlega þá deyjum við. Það er nauðsynlegt svo dýrategundin geti lifað áfram að einstaklingurinn deyi. Við erum hönnuð þannig að það bregst ekki.“ Hann hlær og það glampar á augun. „Það bregst alls ekki, sko.“

Veist þú úr hverju þú munt deyja?
„Nei. Ég veit það ekki. Guði sé lof. Ég hef ekki grænan grun.“

Drepur það ekki í manni trúna og eitthvað fleira þegar verið er að krukka í þessar grunnupplýsingar?
„Nei. Síður en svo. Það er svo langt í frá. Það er til dæmis staðreynd að vísindi eins og þessi rekast áfram miklu meira af tilfinningu en rökhugsun. Það er staðreynd að hvernig menn nota tilfinningar í starfi sem vísindamenn skiptir sköpum, ekki síður en í list. Það er ekkert í svona vinnu sem mér finnst drepa hjá mér rómantíska sýn á tilveruna. Bara alls ekki.“
En guð? Trúir þú á hann?
„Steingrímur Thorsteinsson sagði einhvern tímann:
Trúðu á tvennt í heimi
Tign sem hæsta ber
Guð í alheims geimi
Guð í sjálfum þér.
Mér finnst þetta mjög flott trúarsetning. Við eigum að trúa á kærleikann í okkur sjálfum og öllu í kringum okkur. Það nægir mér.“
Þannig að svarið er nei.
„Ef guð væri karakter sem situr uppi í himninum og horfir niður hvössum augum, ætti ég erfitt með að trúa á hann. Ég trúi hins vegar á mikilvægi kærleikans í öllu. Ég lít ekki á það sem óæðri trú á nokkurn hátt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 22 klukkutímum

Fyrirsætan gagnrýnd harðlega: Kærastinn er 16 ára en hún 21 árs

Fyrirsætan gagnrýnd harðlega: Kærastinn er 16 ára en hún 21 árs
Fókus
Í gær

Jói Fel trúlofaði sig á Miami – „Allt eins og það á að vera“

Jói Fel trúlofaði sig á Miami – „Allt eins og það á að vera“
Fókus
Í gær

Halla myndi velja fiskibollur í brúnni sem eilífðarmat, leiðist þrif og hreyfingin er Akkilesarhæll

Halla myndi velja fiskibollur í brúnni sem eilífðarmat, leiðist þrif og hreyfingin er Akkilesarhæll
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur segir marga klóra sér í skallananum yfir orkuefnunum – „Miklu meira valdeflandi að nálgast mat en að forðast mat“

Ragnhildur segir marga klóra sér í skallananum yfir orkuefnunum – „Miklu meira valdeflandi að nálgast mat en að forðast mat“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Smeyk við að fara ein til Íslands eftir að kærastinn lét sig hverfa

Smeyk við að fara ein til Íslands eftir að kærastinn lét sig hverfa
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Ástin, fjölbreytileikinn og kelerí í Skógarböðunum

Vikan á Instagram – Ástin, fjölbreytileikinn og kelerí í Skógarböðunum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Auður Gísla og Elvar Freyr eiga von á barni

Auður Gísla og Elvar Freyr eiga von á barni