Shirley Webb kallar ekki allt ömmu sína
Fyrir tveimur árum átti hin þá 76 ára gamla Shirley Webb, sem búsett er í East Alton í Illinois í Bandaríkjunum, erfitt orðið með gang. Hún eyddi flestum sínum stundum sitjandi í stól á heimili sínu og þurfti að vanda sig verulega þegar hún gekk upp stigann á heimili sínu.
Það var þá sem Shirley ákvað að gera eitthvað í sínum málum. Í stað þess að játa sig sigraða fyrir ellinni og fylgifiskum hennar ákvað Shirley að kaupa sér kort í ræktina og byrja að lyfta. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og í dag lyftir Shirley, sem er orðin 78 ára, rúmum hundrað kílóum í réttstöðulyftu.
Þó að Shirley hafi ekki stundað líkamsrækt lengi á hún nú þegar metið í sínum þyngdar- og aldursflokki í réttstöðulyftu í Illinois. Það setti hún fyrir skemmstu þegar hún lyfti 107 kílóum.
Í viðtali við ESPN segir Shirley að hún hafi notið góðrar leiðsagnar frá einkaþjálfaranum John Wright. Hún mætir í ræktina tvisvar til þrisvar í viku þar sem hún lyftir lóðum og bætir sig, hægt og bítandi. „Hún er öðrum hvatning og það er mjög gaman að sjá það,“ segir Wright og bætir við að Shirley njóti mikilla vinsælda í líkamsræktarstöðinni.
Þegar Shirley, sem verður 79 ára í ágúst, var spurð hvort hún ætlaði að setjast í helgan stein fljótlega og hætta að lyfta, svaraði hún ákveðið að hún ætlaði sér að halda áfram að lyfta eins lengi og hún hefði heilsu til. Þess má geta að í dag getur Shirley gengið ein og óstudd upp og niður stigann heima hjá sér, án nokkurra vandkvæða.
Myndband af Shirley í æfingasalnum má sjá hér að neðan. Óhætt er að segja að sjón sé sögu ríkari.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=HMS-MTkQguo&w=560&h=315]