Formaður Sjálfstæðisfélagsins í Grafarvogi vill sjálfstæði – Segir Reykjavíkurborg illa rekið bákn
„Við getum orðað það þannig að það yrði til hagsbóta fyrir íbúa Grafarvogs ef Grafarvogur yrði sjálfstætt sveitarfélag,“ segir Emil Örn Kristjánsson, formaður Sjálfstæðisfélags Grafarvogs, þegar hann er spurður hvort hann vilji að Grafarvogur slíti sig frá Reykjavík og verði sjálfstætt sveitarfélag.
Emil Örn var gestur Bítisins á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi þetta.
Þegar Emil var beðinn um að útskýra þessa afstöðu sína benti hann á að Reykjavík væri illa rekið sveitarfélag.
„Hún er bákn, þeir sem stjórna borginni eru ekki í neinni nánd við íbúanna, borgin er stórskuldug og í öllum skoðanakönnunum skorar Reykjavíkurborg ofboðslega lágt á ánægjuvoginni. Ef við förum í sveitarfélögin hérna í nágrenninu; tökum Mosfellsbæ, Seltjarnarnes og Garðabæ, þetta eru flott sveitarfélög, þau eru vel rekin og eiga góðan pening og þau skora alltaf mjög hátt á ánægjuvoginni.“
Emil sagði að Sjálfstæðisfélagið í Grafarvogi hefði staðið fyrir ýmsum fundum að undanförnu og meðal annars fengið Elliða Vignisson, bæjarstjóra Vestmannaeyja, og Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra Hveragerðis, til að funda með félaginu um kosti þess að búa í litlu sveitarfélagi.
Þetta er rúmlega 17 þúsund manna byggð og þetta yrði fjórða stærsta sveitarfélag landsins
„Nú yrði Grafarvogur ekkert lítið sveitarfélag. Þetta er rúmlega 17 þúsund manna byggð og þetta yrði fjórða stærsta sveitarfélag landsins, en hinsvegar yrði þetta miklu hagkvæmari eining þar sem sveitarstjórn yrði í miklu meiri nánd við íbúana á sínu svæði.“
Þegar Emil var spurður hvort þetta væri raunhæft og hverjir myndu þurfa að taka ákvörðun um þetta, sagði hann að allt væri mögulegt. „Það er svo eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur. Ég geri ráð fyrir að það þurfi einhverskonar lagabreytingu til að þetta yrði hægt. En þetta er ekkert ómögulegt, strákar. Það er allt hægt, það er öll vandamál hægt að leysa.“
Emil segir að kostir þess að Grafarvogur verði sjálfstætt sveitarfélag séu ótvíræðir. „Í fyrsta lagi er þetta mjög vel samsett hverfi, þetta er hverfi sem myndi laða til sín fjölskyldufólk, þetta er hverfi sem myndi laða til sín þokkalega góða útsvarsgreiðendur þannig að við gætum haldið útsvarinu lægra en í Reykjavík,“ sagði Emil og bætti við að snjómokstur yrði í betra horfi sem og sorphirðumál, valdið yrði fært í hendur íbúa Grafarvogs.
Emil sagði að lokum að hverfisráðin, sem starfa í umboði borgarráðs, væru handónýt og hefðu ekkert ákvörðunarvald. Benti hann á að íbúarnir í hverfunum hefðu ekkert um það að segja hverjir sætu í hverfisráðunum, heldur eru fulltrúar ráðanna kosnir af borgarstjórn.
„Þetta er ofboðslega flott á pappír en eins og þau virka í dag þá er annað hvort að leggja þau niður eða gefa þeim aukið vald og láta íbúana sjálfa kjósa í þau. Það er önnur leið, að veita meira sjálfstæði inn í hverfin.“