„Hættum að tala um samskiptaráðgjafa, tölum um Þóru Sigfríði af því að það þarf að fara að draga persónuna til ábyrgðar. Þegar ég fer síðan að skoða hver hún er, þá er hún með enga reynslu í þjálfun. Hún er bar sálfræðingur sem fær einhvers konar embætti og hún sem sagt fær vald til þess að gera umsögn með sex nafnlausum aðilum. Sko, það sem mér finnst erfiðast við þetta er það: Ég vil láta rannsaka mig. Skilurðu, ég vil að það sé gerð alvöru rannsókn. En þetta er mesta hittjobb sem nokkurn tímann hefur verið gert. Og það þýðir einfaldlega það að hérna er verið að að rýra trúverðugleika svona hluta. Sko, alltaf þarf allt að verða jöfnum að vopni einhvern veginn. Og ég er ekki kominn hérna í raun og veru til þess að segja við fólk að ég sé ekki þess verðugur að fá alvöru rannsókn. Og ég er í raun og veru í rannsókn allan daginn,“
segir Brynjar Karl Sigurðsson körfuboltaþjálfari og eigandi félagsins Aþenu. Brynjar Karl sem er einn frambjóðenda til forseta Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) er nýjasti gestur í Spjallinu með Frosta Logasyni.
Í byrjun árs ákvað samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs að hefja könnun á starfsháttum Brynjar Karls. Álitið sem er 17 blaðsíður var tilbúið 14. apríl og sendi samskiptaráðgjafi það til Körfuknattleikssambands Íslands, Íþróttabandalags Reykjavíkur og Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.
RÚV greinir frá því í gær að í álitinu sé rakið að fjöldi tilkynninga hafi borist embætti samskiptaráðgjafa, fyrrverandi iðkendur félagsins Aþenu og foreldrar þeirra hafi leitað til embættisins, margir hrökklast frá félaginu og iðkendur ekki treyst sér til að stíga fram undir nafni af ótta við möguleg viðbrögð Brynjars Karls.
Samskiptaráðgjafinn, Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur, nefnir að í gegnum tíðina hafi embættinu borist fjölmargar ábendingar frá fólki úr öðrum íþróttafélögum og áhorfendum körfuboltaleikja varðandi framkomu Brynjars Karls, þeir hafi lýst henni sem niðrandi og ógnandi, bæði gagnvart eigin iðkendum en líka öðrum innan körfuboltaumhverfisins.
Í viðtalinu við Frosta segist Brynjar Karl hafa verið plataður í viðtalið á fölskum forsendum.
„Svo kemur bara einhver aðili og ég er plataður inn á fölskum forsendum. Hún [Þóra Sigfríður] segist ætla að spjalla við mig. Og ég segi: Hefur mér verið gefið eitthvað að sök? Og hún segir nei. Hún segir nei, þannig að ég gat ekki einu sinni undirbúið mig fyrir neitt.
Og það kemur síðan þegar ég er búinn að vera í viðtalinu, þá kemur umsögn og þá bara er hulunni sveiflað af. Og þá allt í einu bara stendur þarna einhverjir sex nafnlausir aðilar. Það hefur alltaf verið þannig að þegar að foreldrar sem eru fúlir út í mig, og og taktu eftir því það er ekki beint verið að saka mig um ofbeldi. Það er eiginlega verið að saka mig um að vera ömurlegur gaur og svona ýja að því að þetta sé költ. En költ er náttúrulega ofbeldi, þú veist.“
Brynjar Karl mætti á fund samskiptaráðgjafa ásamt lögmanni sínum og Jóhönnu Jakobsdóttur formanni Aþenu 5. febrúar. Formaður Aþenu gerði margvíslegar athugasemdir við hvernig samskiptaráðgjafinn segir frá þessum fundi í álitinu, segir orð Brynjars Karls hafa verið tekin úr samhengi, ákveðnum atriðum sleppt og vinnubrögðin bendi til fyrirfram mótaðrar niðurstöðu. Þessari gagnrýni er hafnað í álitinu.
Brynjar Karl fundinn með Þóru Sigfríði samskiptaráðgjafa hafa verið tekinn upp.
„Og amateur hour hjá Þóru Sigfríði. Hún getur ekki einu sinni, ef þú lest transkriptið á upptökunni þá sérðu hvernig hún er að smíða í kringum setningarnar. Þetta er bara með svo miklum ólíkindum.“
Frosti les kafla úr skýrslunni: „Samskiptaráðgjafi áttar sig á því að leikmenn Aþenu hafa stigið fram og mótmælt þeirri túlkun að aðferðir og framkoma Brynjars Karls feli í sér ofbeldi. Í því samhengi er mikilvægt að benda á að rannsóknir á ofbeldi sýna að þolendur eiga oft erfitt með að stíga fram og greina frá reynslu sinni. Og hún er sem sagt þarna að ávarpa það að það séu margir sem að bera þér vel söguna. Hún skýtur það niður með því að segja það er bara költ, skilurðu. Þetta eru bara þeir eru hræddir við hann, þessir iðkendur.“
Brynjar Karl segir að formaður Aþenu hafi tjáð honum að einhverjir leikmenn hafi tekið sig til og talað við fyrrverandi leikmenn og nefnir hann einnig þjálfarana sem hafa verið hjá Aþenu.
„Og þau hugsuðu bara bíddu, af hverju er ekki verið að tala við okkur? Og svo voru einhverjir sem sendu inn umsagnir áður en að málið var klárað og þar lýgur hún [Þóra Sigfríður] og segir að málið sé klárað og þú sást nú einn aðilann sem sendi inn sem er sem er tveggja stúlkna. Maður með reynslu af sáttamiðlun og eineltismálum“.
Segir hann að 75 innsendar langar umsagnir um hversu góður þjálfari og leiðbeinandi hann sé hafi ekki verið teknar með í rannsóknnni.
Í viðtali við Spegilinn á RÚV í gær segist Brynjar Karl verulega ósáttur við vinnubrögð samskiptaráðgjafa en segist ekki vera yfir það hafinn að störf hans séu rannsökuð. Segir hann orð sumra sem rætt hafi verið við hafa verið tekin úr samhengi en aðrir viðmælendur séu þekktir fyrir að hatast við hann.
Brynjar Karl viðurkennir að álitið sé ein af ástæðum þess að hann gefur kost á sér í forsetakjöri ÍSÍ, og þótt það sé komið fram breyti það engu um hans þjálfunaraðferðir.
„Það stendur ekki steinn yfir stein í þessu áliti. Ég ætla að biðja þá sem hafa gaman af svona sálfræðitrylli að vera á tánum, við ætlum að úrbeina þetta eins og við höfum alltaf gert á síðastliðnum tíu árum.“
Samskiptaráðgjafinn Þóra Sigfríður segist ekki geta tjáð sig um einstaka mál. Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sagði við Spegilinn að álitið yrði rætt á stjórnarfundi ÍSÍ í dag, en hann reiknar ekki með formlegri niðurstöðu. Brynjar Karl kallar þetta sjálfur nornaveiðar. „Mér finnst glæpur, þetta álit,“ segir Brynjar Karl í samtali við Spegilinn.
RÚV segir að í álitinu komi meðal annars fram að það sé alvarlegt að Brynjar Karl tali um að gera tilraunir á börnum, slíkar aðferðir séu í besta falli óábyrgar og í versta falli siðlausar. Þá sé það sérstaklega mikið áhyggjuefni að hannhafi ekki séð ástæðu til að endurskoða aðferðir sínar þrátt fyrir ábendingar frá fjölmörgum aðilum, meðal annars fagfólki og fræðasamfélaginu. Í álitinu er vísað til þess að Brynjar Karl hafi viðurkennt að hafa markvisst beitt innrætingu á tíu til tólf ára gömul börn til að framfylgja eigin hugmyndafræði og baráttumálum. „Að nýta sér valdastöðu í krafti aldurs, þroska og stöðu sem fullorðinn þjálfari til að leiða börn í aðgerðir sem byggja á hans eigin deilum við yfirvöld innan íþróttahreyfingarinnar er í senn óásættanlegt og siðlaust,“ segir í álitinu.
Brynjar Karl hafi ekki aðeins nýtt valdastöðu sína til að innræta ungum leikmönnum eigin skoðanir heldur líka sett þá í aðstæður sem hafi leitt til ágreinings við íþróttasamtök, án þess að þeir hefðu fullnægjandi skilning á mögulegum afleiðingum slíks.
Í álitinu kemur fram að ekki hafi verið rætt við núverandi leikmenn Aþenu,ástæðan sé sú að leikmenn séu í valdatengdu sambandi við þjálfarann og samskiptin gætu sett þá í erfiða stöðu gagnvart honum eða hópnum í heild. Lögð er áhersla á að íþróttafélög og þjálfarar byggi starf sitt á faglegum aðferðum og brýnt sé að íþróttafélög og stjórnendur axli ábyrgð á ráðningum þjálfara.