fbpx
Þriðjudagur 29.apríl 2025
Fréttir

Dómur fallinn yfir konunni sem frelsissvipti og misþymdi Tinnu Guðrúnu Barkardóttur í Vinakoti

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 28. apríl 2025 19:00

Tinna Guðrún Barkardóttir. Skjáskot Kveikur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Karen Thorlacius, kona á 23. aldursári, var í dag sakfelld í Héraðsdómi Reykjaness fyrir stórfellda líkamsárás sem hún framdi í marsmánuði árið 2022, er hún var á 19. ári. Árásin var framin í Vinakoti, búsetuúrræði í Hafnarfirði fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda. Árásarþoli var starfskona á Vinakoti, Tinna Guðrún Barkardóttir, en málið vakti mikla athygli og hefur töluvert verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Tinna Guðrún lýsti meðal annars árásinni og afleiðingum hennar í sjónvarpsþættinum Kveiki árið 2023.

Anna Karen reif í Tinnu Guðrúnu þar sem sú síðarnefnda sat í sófa, skellti henni á gólfið og dró hana um íbúðina. Hún reif í hár hennar og sló höfði hennar ítrekað í gluggakistu, hurðar og veggi. Mikill munur var á líkamsburðum kvennanna tveggja, Önnu Karen í vil, og auk þess glímdi Tinna Guðrún við heilsufarsvandamál, sem Önnu Karen var kunnugt um, en heilsufar Tinnu Guðrúnar gerði henni ennþá erfiðara um vik að verja sig en ella.

Í ákæru málsins segir eftirfarandi um afleiðingar árásarinnar (Tinna Guðrún nefnd „A“):

„Afleiðingar árásarinnar voru þær að A hlaut klórför í hársverði og á hálsi, 3-4 kúlur í höfuðleðri, aðallega í hnakka, eymsli yfir vinstra kinnbeini og vinstri neðri kjálka og kjálkalið, eymsli í hnakkavöðvafestum og vöðvum hálshryggjar og skerta hreyfigetu um hálshrygg vegna stífleika, eymsli neðanvert yfir mjóbaki, eymsli á vinstri lærlegg, gat á hljóðhimnu hægra megin, áberandi minnkaðan kraft í vinstri fæti og minnkað snertiskyn í vinstri fæti (helftarlömun), mar á utanverðum hægri framhandlegg, klórför og skrámur á hægra handarbaki, bólgu og eymsli á dálkshnyðju, tognun og ofreynslu á axlarlið, lendarhrygg, mjaðmagrind, ökkla, hálshrygg og hné, auk ógleði og heilahristings. Hefur varanlegur miski A vegna árásarinnar verið metinn 35 stig og varanleg örorka 40%.“

Hin hrottafulla og ofsafengna líkamsárás hefur haft langvarandi afleiðingar fyrir Tinnu Guðrúnu sem hefur þurft að gangast undir mikla endurhæfingu, meðal annars á Reykjalundi. Hún missti um tíma mátt í fótum, þurfti að notast við hjólastól og læra að ganga upp á nýtt.

Anna Karen var álitin ofbeldisfull og hættuleg er árásin var framin og samkvæmt reglum Vinakots áttu alltaf að vera lágmark tveir starfsmenn á vakt hverju sinni. En vegna veikinda og manneklu var Tinna Guðrún ein á vakt og enginn kom henni til hjálpar.

Neitaði sök og kenndi öðrum um

DV hefur dóminn í málinu undir höndum en hann hefur ekki verið birtur á vefsíðu dómstólanna, enda nýfallinn. Þar kemur fram að hin ákærða, Anna Karen, var ósamvinnuþýð í lögregluyfirheyrslum og vildi lítið tjá sig um málið. Í viðtölum við geðlækni sem lagði met á sakhæfi hennar viðurkenndi hún árásina að vissu marki en skellti skuldinni á brotaþola, sem hefði talað illa um sig, og Vinakot, sem hefði átt að passa upp á sig.

Við réttarhöldin neitaði hún hins vegar sök og sagði að atvik hefðu verið með allt öðrum hætti en segir í ákæru. Lýsti hún hlut sínum í átökunum sem sjálfsvörn. Framburður hennar þótti ekki trúverðugur.

Framburður Tinnu Guðrúnar þótti mjög skýr og trúverðugur auk þess sem fullt samræmi var á milli framburðar hennar í lögregluskýrslum og fyrir dómi. Auk þess var framburður hennar í samræmi við gögn málsins, t.d. áverkavottorð og framburð heilbrigðisstarfsfólks sem kallað var til vitnis.

Anna Karen Thorlacius var metin sakhæf. Hún hefur verið greind með ofvirkni og athyglisbrest auk þess sem hún hefur játað fíkn í viss efni. Ekki var talið að geðrof eða sturlun hefðu valdið framferði hennar er hún réðst á Tinnu Guðrúnu.

Ungur aldur og langur málsmeðferðartími

Dómari taldi að Anna Karen hefði verið fyllilega sjálfráð gerða sinna er hún framdi árásina en hún hafi ekki verið meðvituð um að afleiðingarnar yrðu jafn alvarlegar og raun ber vitni. Hafi hún valdið líkamstjóni af gáleysi. Henni var virt til refslækkunar ungur aldur, en hún var tæplega 18 og hálfs árs er árásin var framin. Einnig var henni virt til refsilækkunar langur dráttur á málinu en langur tími leið frá því að rannsókn lauk og þar til málið var sent til héraðssaksóknara. Um eitt og hálft ár leið frá atvikinu og þar til ákæra var birt í málinu.

Niðurstaðan var 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Anna Karen var jafnframt dæmd til að greiða Tinnu Guðrúnu fjórar milljónir króna í miskabætur og tæplega 4,5 milljónir í sakarkostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Rithöfundar sárbæna Alþingi – „Risastórt skrímsli sem er að éta okkur upp til agna“

Rithöfundar sárbæna Alþingi – „Risastórt skrímsli sem er að éta okkur upp til agna“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Allt í steik hjá Steik – Gjaldþrotakóngur úr veitingabransanum ákærður fyrir skattsvik

Allt í steik hjá Steik – Gjaldþrotakóngur úr veitingabransanum ákærður fyrir skattsvik
Fréttir
Í gær

Guðbrandur: „Í fram­hald­inu var kon­an svo niður­lægð með ýms­um fá­rán­leg­um spurn­ing­um“

Guðbrandur: „Í fram­hald­inu var kon­an svo niður­lægð með ýms­um fá­rán­leg­um spurn­ing­um“
Fréttir
Í gær

Meint hópnauðgun á 16 ára stúlku hvorki á borði lögreglu né Landspítala

Meint hópnauðgun á 16 ára stúlku hvorki á borði lögreglu né Landspítala