fbpx
Þriðjudagur 29.apríl 2025
Fréttir

Rithöfundar sárbæna Alþingi – „Risastórt skrímsli sem er að éta okkur upp til agna“

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 28. apríl 2025 19:30

Mynd af sorgmæddum rithöfundi: ChatGPT

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rithöfundasamband Íslands hefur sent Alþingi samantekt, sem birt hefur verið á vef þingsins, vegna vinnu þess við þingsályktunartillögu Loga Más Einarssonar menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra um bókmenntastefnu fyrir árin 2025-2030. Óhætt er að segja að dökk mynd af stöðu rithöfunda, bókaútgáfu og bóksölu sé dregin upp í samantektinni. Fram kemur að það sé nánast orðið ómögulegt að lifa af ritstörfum og þar eigi stóran þátt viðskiptahættir hljóðbókaveitunnar Storytel sem sambandið segir að sé beinlínis að gera út af við íslenska rithöfunda. Fer sambandið þess einlæglega á leit að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag við útgáfu og sölu bóka á Íslandi.

Í upphafi samantektarinnar er birt Íslandskort þar sem búið er að merkja með punktum staðsetningar allra bókaverslana á Íslandi sem Rithöfundasambandið segir að séu 12 á höfuðborgarsvæðinu og 8 á landsbyggðinni. Segir í samanatektinni að sú staðreynd að bókaverslanir á landinu séu ekki fleiri en þetta séu afleiðingar þess að verð á bókum var gefið frjálst árið 2000.

Það virðist eilítið þó vanta upp á talninguna en ekki verður betur séð, miðað við heimasíðu fyrirtækisins, en að Penninn Eymundsson reki átta bókaverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Þó stendur reyndar til að loka einni þeirra, verslun á Laugavegi 77. Nýlega tóku síðan sex aðrar bókaverslanir á höfuðborgarsvæðinu þátt í alþjóðlegu bókabúðarölti og þá á eftir að nefna bókaverslun Forlagsins, sem var ekki ein af þessum sex. Því virðast þegar þessi orð eru rituð vera að minnsta kosti 15 bókaverslanir á höfuðborgarsvæðinu en mun senn fækka í 14 og verslanirnar sex sem tilheyra ekki Pennanum Eymundsson eða Forlaginu eru sumar hverjar aðeins opnar hluta af hverri viku.

Annað sem athugavert er við bókabúðakort Rithöfundasambandsins er að samkvæmt því er aðeins ein bókabúð á Akureyri en þær eru tvær. Verslun Pennans Eymundsson og fornbókaverslunin Svartar bækur, sem hét áður Fróði.

Skrímslið

Til samanburðar við þennan fjölda bókabúða bendir Rithöfundasambandið á að á landinu eru 56 útsölustaðir Vínbúðarinnar. Víkur sambandið því næst að Storytel og fer vægast sagt ófögrum orðum um fyrirtækið:

„Risastórt skrímsli sem er að éta okkur upp til agna.“

Sambandið gerir því næst umsvif Storytel að umtalsefni og bendir á velta þess hér landi hafi verið tæplega 2 milljarðar króna árið 2023, þar af hafi rúmur milljarður runnið beint til móðurfélags þess í Svíþjóð. Hagnaður félagsins hér á landi hafi verið samt tæpar 100 milljónir.

Segir sambandið að Storytel sé búið:

„Með baklistann og farin að framleiða drasl, bókstaflega.“

Þessi setning er þó ekki útskýrð nánar en minnt er á að fyrirtækið hafi stundað það að nota gervigreind til að þýða bækur á íslensku. Sambandið minnir á að það hafi kvartað yfir Storytel við Samkepnniseftirlitið og telur að íslenska ríkið verði að tryggja að markaðsráðandi fyrirtæki fari að lögum. Rétthafar fái smáaura frá Storytel og enn minna eftir að óvirkir áskrifendur hættu að vera teknir með í reikninginn í svokölluðum deilisjóði. Loks er minnt á að á síðasta ári hafi Storyside, framleiðsluhluti Storytel, fengið 9,5 milljónir krónur í endurgreiðslur frá íslenska ríkinu.

Bágborin staða

Því næst gerir Rithöfundasambandið grein fyrir bágborinni stöðu íslenskra rithöfunda. Sambandið segir höfunda ekki ná endum saman. Fjöldi höfunda sem hljóti listamannalaun hafi ekki haldið í við vaxandi íbúafjölda og upphæð þeirra hafi ekki fylgt launaþróun. Bóksala hafi dregist mikið saman og bókverð staðið í stað. Höfundur fái um 1000 krónur af hverri innbundinni bók á fullu verði, um 500 krónur af kilju eða barnabók en 50-100 krónur fyrir hvert streymi á hljóðbókaveitum.

Sambandið telur einnig að það þurfi að styðja við bókaútgefendur líka og segist telja annað fyrirkomulag á bókaútgáfu og sölu þeirra sanngjarnara, þar sem hugað væri að virðiskeðjunni í heild. Bent er á að dæmi séu um að útgefendur sem virði ekki samninga eða stundi góða viðskiptahætti fá samt ýmsa þýðinga- og útgáfustyrki, sem og endurgreiðslur frá ríkinu:

„Okkur finnst galið að ekkert gæðaeftirlit sé með því sem styrkt er (nóg að það sé á íslensku) og að útgefendur sem virða ekki samninga fái endurgreiðslur.“

Að lokum er í samantekt Rithöfundasambands Íslands rakið dæmi um kjör íslensks rithöfundar, sem ekki er nefndur á nafn. Til að mynda fékk viðkomandi 79 krónur fyrir hverja hlustun á skáldsögu sinni, á Storytel, árið 2021 en alls hlustuðu um 7.000 manns á hana. Á sama ári voru bækur viðkomandi lánaðar út alls 8.061 sinni á bókasöfnum en fyrir hvert útlán fengust greiddar 129 krónur. Á síðasta ári var skáldsaga viðkomandi seld í 3.500 eintökum. Tvö ár tók að skrifa bókina en alls fékk höfundurinn 3,5 milljónir í höfundalaun sem jafngildir 145.000 krónum á mánuði í verktakalaun. Skáldsagan var ein af tíu söluhæstum bókum ársins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sævar ómyrkur í máli vegna máls Sólons – „Tveimur dögum síðar var hann látinn”

Sævar ómyrkur í máli vegna máls Sólons – „Tveimur dögum síðar var hann látinn”
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Segir virka í athugasemdum afvegaleiða umræðuna – „Hef ekki séð myndum af íslenskum nauðgurum dreift á skemmtistaði“

Segir virka í athugasemdum afvegaleiða umræðuna – „Hef ekki séð myndum af íslenskum nauðgurum dreift á skemmtistaði“
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur segir grátbroslegt að hlusta á útgerðina sem fyrst nú hafi áhyggjur af landsbyggðinni – „Í dag er allt þetta horfið og við finnum svo sannarlega fyrir áhrifum þess“

Vilhjálmur segir grátbroslegt að hlusta á útgerðina sem fyrst nú hafi áhyggjur af landsbyggðinni – „Í dag er allt þetta horfið og við finnum svo sannarlega fyrir áhrifum þess“
Fréttir
Í gær

Sólveig Anna útskýrir hvað hún hatar við woke-ið – „. Mér finnst það satt best að segja til háborinnar skammar“

Sólveig Anna útskýrir hvað hún hatar við woke-ið – „. Mér finnst það satt best að segja til háborinnar skammar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ferill Þorsteins er litaður gjaldþrotum og skattsvikum – Félag hans hlaut stærsta niðurrifsverkefni Íslandssögunnar

Ferill Þorsteins er litaður gjaldþrotum og skattsvikum – Félag hans hlaut stærsta niðurrifsverkefni Íslandssögunnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þurfti að eyða stórfé í tannviðgerðir en fékk enga miskunn frá Skattinum

Þurfti að eyða stórfé í tannviðgerðir en fékk enga miskunn frá Skattinum