Fjöldi notenda á Facebook hafa í dag og um helgina deilt færslu á veggi sína sem þeir telja að koma muni í veg fyrir að Meta, eigandi miðilsins, nýti færslur þeirra og myndir á miðlinum.
Færslan er svona:
Í lok maí 2025 mun Meta hefja þjálfun gervigreindar með því að nýta færslur, myndir og athugasemdir frá notendum Facebook og Instagram í Evrópu. Þetta nær til alls efnis sem hefur verið gert opinbert á þessum miðlum – bæði nýs efnis og þess sem þegar hefur verið birt. Notendur sem vilja koma í veg fyrir að þeirra gögn séu notuð þurfa að bregðast við sem allra fyrst.
Notendur þurfa að bregðast við, ekki með því að deila falsfærslu á Facebook, heldur lesa sér til um málið, til dæmis á vef Persónuverndar, sjá hér.
Arnar Snæberg Jónsson, vefstjóri hjá Landsvirkjun, birti í dag færslu þar sem hann fer yfir falsfærsluna setningu fyrir setningu og sýnir fram á að slíkar spam-færslur eru einfaldlega það, spam eða rusl, sem yfirtekur samfélagsmiðilinn.
„Ég trúi því varla að ég sé að kryfja enn eina ruslfærsluna, en here goes:
-„Jæja, það er opinbert.“
Ó, hvað er opinbert?
-„Undirritað kl. 8:20.“
Ókei. Hvað var undirritað?
-„Það var meira að segja í sjónvarpinu.“
Bíddu, hvað var í sjónvarpinu?
-„Mín varð virkilega blá.“
Var mynd í sjónvarpinu sem varð allt í einu virkilega blá? Leyfðu mér að giska. Var það einhver albönsk verðlaunamynd á Rúv?
-„Ekki gleyma, á morgun byrjar nýja Facebook reglan (aka… nýtt nafn, META) þar sem þeir geta notað myndirnar þínar.“
Nei. Plís. Við höfum farið í gegnum þetta áður. Það er engin „ný regla„. Gúgglaðu nú áður en þú deilir þessu rusli. Og hverjir eru „þeir„? Og Meta er nokkurra ára gamalt nafn. Facebook heitir enn Facebook þó að vettvangurinn sé í eigu Meta.
-„Munið að fresturinn rennur út í dag!!!“
Fresturinn? Til hvers? Til að deila þessu drasli? Vinir mínir eru annars búnir að deila því í marga daga þannig að „í dag„ er greinilega mjög teygjanlegt hugtak.
-„Haltu fingrinum hvar sem er í þessum skilaboðum og „afrita“ mun poppa upp. Smelltu á „afrita„. Farðu síðan á síðuna þína, búðu til nýja færslu og settu fingurinn hvar sem er á auða sviðinu. „Paste„ mun birtast og smella á Insert.“
Ahhh. Þú meinar að ég eigi að spamma ruslfærslu yfir Facebook, öllum til yndisauka og skemmtunar.
-„Þetta mun framhjá kerfinu….“
Hvaða „Þetta“ ertu alltaf að tala um? Og hvaða kerfi „mun„ það framhjá? Ég skil ekkert.
-„Sá sem gerir ekkert gefur samþykki“
Nei. Það er bara verið að hræða þig til að dreifa einhverri þvælu.
-„Samkvæmt sýningunni 60 mínútur:“
Hef ekki heyrt um hana, en ég fór á Innkaupapokann í Borgarleikhúsinu um daginn og mæli eindregið með henni. Eða er þetta kannski ömurlega leiðinleg sérsýning á ruslasafni internetsins?
-„ICYMI: lögfræðingur ráðlagði okkur að birta þetta.“
Hver var það? Sveinn Andri? Villi Vill? Hvað borgaðirðu fyrir þessa ráðgjöf? Og afhverju seturðu „In case you missed it“ þarna fyrir framan?
-„Brot gegn friðhelgi einkalífsins má refsa með lögum“
Þarftu þá nokkuð að hafa áhyggjur?
-„ATH: Facebook Meta er núna opinber aðili.“
Nei. Meta er stórfyrirtæki sem er alveg sama um þig, rétt eins og bankanum þínum. Það er svo sannarlega ekki opinber aðili. Það er hins vegar á hlutabréfamarkaði.
-„Hver meðlimur ætti að birta svona minnisblað.“
Bara alls ekki. Þetta er ekki minnisblað, þetta er ruslfærsla. Við erum heldur ekki meðlimir í neinu, heldur bara notendur sem leyfum algoriþma að smjatta á okkur alla daga.
-„Ef þú birtir ekki yfirlýsingu að minnsta kosti einu sinni, verður tæknilega skilið að þú leyfir notkun á myndunum þínum, svo og upplýsingum sem eru í uppfærslum á prófílnum þínum.“
Já, eins gott að birta þetta drasl oft og mörgum sinnum. Þá fattar maðurinn sem les yfir allar íslensku færslurnar á Facebook kannski að lokum hvað þú ert að reyna að segja.
-„ÉG SKÝRI HÉR AÐ ÉG GEF EKKI FACEBOOK EÐA META LEYFI MÍNA AÐ NOTA NOTAÐ@„
Já, Caps Lock virkar til að negla þessa ruglingslegu yfirlýsingu endanlega í gegn. Segðu mér samt: Eru leyfirnir þínir mikið að nota notað@?
Meta hefur hins vegar í hyggju að nota gögn frá notendum Facebook og Instagram til að þjálfa gervigreind. Þú getur kynnt þér það betur og andmælt vinnslunni hér: https://island.is/…/meta-byrjar-ad-thjalfa-gervigreind…
Hörmulega illa þýddar ruslfærslur á Facebook virka hins vegar ekkert til að bregðast við þessum áformum, hvorki núna, fyrr eða síðar. Ég á varla til orð yfir því að jafn snjallt fólk og þið deilið þessu vandræðalega slæma drasli umhugsunarlaust. Þið skiljið þennan texta ekki einu sinni sjálf. Afsakið hrokann.“