Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ fór yfir stöðuna á landsliðsverkefnum og síðustu verkefnum A-landsliðanna þar sem ekki var hægt að leika á heimavelli.
Framkvæmdir eru í gangi á Laugardalsvelli og standa vonir til um að hægt verði að spila á honum í júní þegar A-landslið kvenna á heimaleik gegn Frökkum. Beðið hefur verið eftir framkvæmdum við leikvöllinn í mörg ár og eru þau nú að klárast.
„Þorvaldur Örlygsson fór stuttlega yfir síðustu verkefni landsliða og kynnti samantekt frá knattspyrnusviði. A landslið karla þurfti að leika umspilsleik (heimaleik) í Murcia á Spáni og A landslið kvenna lék tvo leiki í Þjóðadeildinni á Þróttarvelli. Allt skipulag leikjanna gekk heilt yfir vel og vallaryfirvöld í Murcia og Þróttarar í Reykjavík eiga þakkir skildar fyrir gott starf og jákvætt viðmót,“ segir í fundargerð KSÍ.
Þorvaldur segir stöðuna þó ekki viðunandi. „Fram kom í máli formanns að þrátt fyrir að framkvæmd leikjanna hafi gengið vel þá varpi þessi raunveruleiki verulega skörpu ljósi á stöðuna sem landsliðin okkar eru í varðandi vallarmál, enda aldrei að vita hver úrslit leikjanna hefðu orðið ef landsliðin hefðu getað leikið heimaleiki sína einmitt á Þjóðarleikvanginum, Laugardalsvelli í Reykjavík.“
A-landslið karla lék í Murcia í umspili Þjóðadeildar í mars og fékk þar ljótan skell gegn Kosóvó.