Truflanirnar hafa haft talsverð áhrif á flugvelli, sjúkrahús, verslanir og járnbrautarstöðvar. Hafa meðal annars birst myndir á samfélagsmiðlum frá myrkum neðanjarðarlestarstöðvum í Madrid, höfuðborg Spánar. Var gripið til þess ráðs að loka lestarstöðvunum.
Þá myndaðist umferðaröngþveiti í borginni þar sem umferðarljós urðu rafmagnslaus. Í Barcelona og Lissabon í Portúgal var svipaða sögu að segja.
Engar skýringar hafa verið gefnar út á truflunum en á samfélagsmiðlum hafa einhverjir varpað þeirri tilgátu fram að Rússar hafi átt hlut að máli. Engin staðfesting þar að lútandi liggur þó fyrir. Innanríkisráðherra Portúgals hefur ekki útilokað að um skemmdarverk hafi verið að ræða.