fbpx
Mánudagur 28.apríl 2025
Fréttir

Úrgangur úr fiskvinnslu lak út á höfnina í Patreksfirði – Heppni að menn á olíuskipi sáu lekann

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 28. apríl 2025 11:00

Lögregla og slökkvilið mættu á staðinn. Myndir/aðsendar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkuð magn af lífrænum úrgangi frá fiskvinnslu lak á höfnina í Patreksfirði og út í sjó á laugardag þegar leiðsla sprakk. Lukka var að menn á olíuskipi sáu lekann og gátu skrúfað fyrir tankinn.

„Það var verið að dæla út í skip og það sprakk leiðsla. Það fór svolítið af úrgangi á höfnina,“ segir Davíð Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Vesturbyggð, en bæði slökkvilið og lögregla voru kölluð á staðinn.

Sjórinn litaðist

Eins og sést á ljósmyndum lak nokkuð af úrgangi á höfnina en einnig fór töluvert út í sjóinn sem litaðist af úrganginum.

Verið var að dæla úrganginum út í skip á vegum norka fyrirtækisins ScanBio. Úrgangurinn kallast melta, það er efni sem verður til þegar búið er að vinna fiskinn, taka beinin frá og innyflin úr. Er meltan flutt erlendis og unnið úr henni prótein, bæði til manneldis og dýraeldis, svo sem próteintöflur.

Í skýrslu Matís um meltuvinnslu segir:

„Hvað varðar fisk má segja að melta sé hakkaður fiskúrgangur sem er rotvarinn með sýru eða lút og brotnar niður fyrir tilstuðlan ensíma sem eru í hráefninu.“

Heppni að ekki fór verr

Að sögn heimildarmanns DV voru það starfsmenn olíuflutningaskips sem urðu varir við lekann úr leiðslunni og gátu brugðist við og skrúfað fyrir tankinn, sem tekur nokkur hundruð þúsunda lítra. Neyðarstopp takkinn hafi ekki virkað þegar þeir komu þangað og enginn á staðnum. Lukka hafi verið að þeir hafi séð þetta ellegar hefði lekinn geta orðið mun meiri.

Meltan lak út um höfnina og út í sjó. Mynd/aðsend

„Þetta er lífrænn úrgangur sem að mestu leyti lak niður á höfnina og menn voru fljótir að stoppa dælingu og gátu náð mestu magninu upp,“ segir Davíð. Hann segir að enginn skaði hafi skeð og að engin eftirmál verði. „Við mættum á staðinn og mokuðum upp með skóflu, lyftara, hefðbundnum sköfum og skóflum og komum því aftur á sinn stað. Það tók kannski klukkutíma,“ segir hann.

Ekki náðist í forsvarsmenn ScanBio eða lögregluna á Vestfjörðum vegna málsins. Að sögn Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða hefur engin tilkynning borist um lekann.

Meltan lak út í sjó. Mynd/aðsend

ATH – Upphaflega stóð að meltan kæmi frá fiskeldi. Það hefur verið leiðrétt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt