fbpx
Mánudagur 28.apríl 2025
Eyjan

Sögulegur kjördagur í Kanada

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 28. apríl 2025 12:36

Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingkosningar fara fram í Kanada í dag. Ljóst er að um sögulegar kosningar er að ræða. Þær fara fram í skugga tollastríðs og versnandi sambands við hið volduga nágrannaríki í suðri, Bandaríkin, þar sem hæst ber hótanir Donald Trump forseta Bandaríkjanna um að Kanada verði 51. ríki landsins. Fylgi flokkanna á landsvísu hefur ekki breyst mikið alla kosningabaráttuna sem hefur að töluverðu leyti snúist um Trump þó að flokkarnir hafi mismikinn áhuga á og hag af því að hann leiki lykilhlutverk. Segja má að allt stefni í að forseti Bandaríkjanna muni hreinlega ráða úrslitum í þingkosningunum í Kanada.

Kanadíska þingið er töluvert líkt því breska. Landinu er skipt í einmenningskjördæmi, þingsalurinn en ólíkt Bretlandi er Kanada sambandsríki. Landinu er skipt í héruð sem hafa öll sitt eigið þing og töluverða sjálfsstjórn. Ljóst er hins vegar að viðhorfin til Kanada sem ríkis og hvort íbúar líta raunverulega á sig sem Kanadamenn er misjafnt eftir héruðum. Nánar verður vikið að því síðar.

Einmenningskjördæmakerfið hefur löngum ýtt undir að fáir flokkar komast inn á viðkomandi þing. Fimm flokkar eiga nú sæti á kanadíska þinginu og ekki er útlit fyrir að þeim fjölgi. Í slíku kosningakerfi er sömuleiðis ýtt undir að einn flokkur fái meirihluta þingsæta þótt hann fái ekki meirihluta atkvæða. Í síðustu þingkosningum í Kanada 2021 fékk þó enginn flokkur meirihluta þingsæta en Frjálslyndi flokkurinn var áfram við stjórnvölinn eftir að hafa fengið flest þingsæti í sinn hlut.

Fram eftir kjörtímabilinu stefndi allt í að í næstu kosningum myndi Íhaldsflokkurinn vinna stórsigur á Frjálslynda flokknum. Framfærslukostnaður fór hækkandi, laun héldu verr í við verðbólgu og ástandið á húsnæðismarkaði varð sífellt erfiðara. Justin Trudeau sem tók við sem leiðtogi Frjálslynda flokksins árið 2013, og leiddi flokkinn úr því að vera sá þriðji stærsti á þingi til sigurs í þingkosningunum 2015 og hefur flokkurinn verið við stjórnvölinn síðan þá, vék hins vegar, í síðasta mánuði, sem flokksleiðtogi og forsætisráðherra, eftir að flokksfélögum hans varð ljóst að hann væri orðinn of óvinsæll til að geta leitt flokkinn til sigurs. Trudeau gerði sig líklegan til að sitja sem fastast en ákvað að víkja eftir að hluti þingflokksins skoraði á hann að hætta.

Seðlabankastjórinn

Við Frjálslynda flokknum og forsætisráðherrastólnum tók Mark Carney sem ávann sér almenna virðingu í Kanada og víða um heim fyrir störf sín sem seðlabankastjóri á árunum 2008-2013 og var í kjölfarið ráðinn bankastjóri Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, en þeirri stöðu gegndi hann til 2020.

Mark Carney. Skjáskot/Youtube

Carney er eilítið eldri en Trudeau og svolítið litlausari en hann nýtur meira trausts og síðan hann tók við hafa fleiri, samkvæmt skoðanakönnunum, viljað hafa hann sem forsætisráðherra en Pierre Poilievre leiðtoga Íhaldsflokksins. Hefur í könnunum oft munað meira á fylgi þeirra, Carney í vil, en flokkanna sem þeir leiða.

Pierre Poilievre. Skjáskot/Youtube.

Íhaldsflokkurinn og forverar hans og Frjálslyndi flokkurinn hafa í kanadískri sögu skipst á að fara með völdin í landsstjórninni. Fylgi flokkanna á landsvísu, samkvæmt skoðanakönnunum, hefur í raun ekki tekið mjög miklum breytingum í kosningabaráttunni. Að meðaltali hefur Frjálslyndi flokkurinn verið að mælast með 44 prósent fylgi en Íhaldsflokkurinn um 38 prósent. Það stefnir allt í að báðir flokkar fái fleiri þingsæti en í kosningunum 2021 en því hefur verið spáð að miðað við kannanir ætti Frjálslyndi flokkurinn að fá um 180-190 þingsæti en Íhaldsflokkurinn um 130. Alls eru þingsætin 343 og 172 sæti þarf því til að fá meirihluta á þingi. Einmenningskjördæmakerfið og misjafnt fylgi flokkanna eftir héruðum gerir þó erfitt um vik við að spá fyrir um skiptingu þingsæta miðað við fylgið á landsvísu.

Þáttur Trump

Aðrir flokkar sem bjóða fram á landsvísu hafa átt erfitt uppdráttar í kosningabaráttunni sem hefur nánast algjörlega einkennst af baráttunni milli Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins. Nýi Lýðræðisflokkurinn (e. New Democratic Party) er lengra til vinstri en stóru flokkarnir tveir en hefur í sögu sinni staðið í skugga þeirra og fengið yfirleitt mun minna hlutfall þingsæta en hlutfall atkvæða á landsvísu. Flokkurinn sem leiddur er af Jagmeet Singh hefur gert harða atlögu að báðum stórum flokkunum og reynt að skilgreina sig sem hinn raunverulega flokk hins venjulega vinnandi Kanadamanns. Það hefur þó lítið gengið en samkvæmt könnunum stefnir í að flokkurinn tapi a.m.k. helmingi fylgis síns og þar með stórum hluta þeirra 25 þingsæta sem hann fékk í síðustu kosningum. Allt stefnir í að flokkurinn Bloc Québécois, sem býður bara fram í Québéc héraði muni áfram verða þriðji stærsti flokkurinn á þingi en tapa fylgi.

Jagmeet Singh. Skjáskot/Youtube.

Það sem aukið hefur á erfiðleika Nýja Lýðræðisflokksins er atlaga Donald Trump að Kanada með tollum og tali um að landið verði 51. ríki Bandaríkjanna. Kjósendur sem gátu hugsað sér að kjósa flokkinn segjast sumir hafa snúið sér að Frjálslynda flokknum til að tryggja að við stjórnvölinn verði öflugt mótvægi við Trump.

Segja má að Trump hafi bjargað Frjálslynda flokknum frá óhjákvæmilegu tapi með aðgerðum sínum og talsmáta eftir að hann tók við forsetaembættinu í upphafi árs en þá fór fylgi Frjálslyndra strax vaxandi og enn meira eftir að Mark Carney tók við. Carney og flokkur hans hafa í kosningabaráttunni lagt áherslu á að hann sé sá best til þess fallinn að eiga við Trump. Pierre Poilievre, leiðtoga Íhaldsmanna, hefur hins vegar gengið illa að losna við þann stimpil að hann sé of hallur undir Trump. Hann neitar því en hefur reynt að beina umræðunni frekar að lífskjörum í landinu og að tími sé kominn til að gefa Frjálslynda flokknum frí eftir 10 ár við stjórnvölinn.

Alberta

Kosningaloforð Frjálysndra og Íhaldsmanna eru nokkuð lík en þó vilja hinir fyrrnefndu leggja meiri áherslu á að beita ríkissjóði til að bæta það sem þykir ábótavant í til að mynda húsnæðismálum en Íhaldsmenn vilja leggja meiri áherslu á skattalækkanir. Frjálslyndir boða þó líka skattalækkanir en þó aðallega á þá tekjulægstu en Íhaldsmenn vilja ganga enn lengra í þeim efnum.

Það sem flækir mat á stöðunni er hins vegar hversu misjafnt fylgi stóru flokkanna er eftir héruðum. Frjálslyndi flokkurinn leiðir í austustu héruðunum og þeim tveimur fjölmennustu, Ontario og Québéc, en eftir því sem vestar dregur eykst fylgi Íhaldsflokksins til muna. Það hefur verið einna mest í héraðinu Alberta sem er miðstöð kanadískar olíuvinnslu.

Íhaldsmenn ráða lögum og lofum í héraðinu og hafa nánast öll þingsæti Alberta á landsþinginu í Ottawa. Forsætisráðherra héraðsins ( e. Danielle Smith) fór í upphafi árs í heimsókn á setur Donald Trump og sagði þá Poilievre vera mann sem Trump og bandarískir íhaldsmenn ættu að getað samsinnað. Þessi ummæli hafa síðan þá gert Poilievre erfitt um vik í kosningabaráttunni.

Í Alberta hefur um árabil verið víðtæk óánægja með stefnu Frjálslynda flokksins í orkumálum og þó einkum áhersluna á hertar reglur um umhverfismál sem óánægjuraddirnir segja flækjast óþarflega mikið fyrir olíuvinnslu. Margir íbúar og íhaldsmenn í héraðinu hafa talað opinskátt um að héraðið eigi að fá enn meira sjálfstæði í sínum málum og sömuleiðis hefur verið talað um að annaðhvort ættu íbúar Alberta að stefna að því að verða sjálfstætt ríki eða slíta sig frá Kanada og ganga í Bandaríkin. Sjálfstæðishreyfing hefur verið stofnuð og talið er að muni Frjálslyndi flokkurinn ná völdum í landstjórninni muni þessari hreyfingu vaxa ásmeginn. Segja má að margir íbúar í héraðinu líti fremur á sig fyrst og fremst sem Alberta-búa frekar en Kanadamenn.

Samkvæmt könnunum er ekki enn meirihluta íbúa Alberta sem vill slíta sig frá Kanada en ljóst er að haldi Frjálslyndi flokkurinn völdum eins og virðist stefna í munu næstu ár í Kanada ekki eingöngu mótast af samskiptunum við Donald Trump og Bandaríkin heldur ekki síður sambandi landstjórnarinnar við héruðin og þá ekki síst þau óánægðustu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Himinninn er að hrynja

Þorsteinn Pálsson skrifar: Himinninn er að hrynja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir alvarlega ógn steðja að lýðræðinu – Nei, það er ekki Trump

Segir alvarlega ógn steðja að lýðræðinu – Nei, það er ekki Trump
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hanna Katrín: Verðum að koma okkur upp úr þessum hjólförum

Hanna Katrín: Verðum að koma okkur upp úr þessum hjólförum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar og segir: Leiðarvísir fyrir þjáða

Steinunn Ólína skrifar og segir: Leiðarvísir fyrir þjáða