Í færslunni sagði hún að faðir hennar, hinn 86 ára gamli Jon Trefil, fyrrverandi geðlæknir, hafi játað að hafa myrt yfir 400 einstaklinga í Bandaríkjunum og Evrópu yfir nokkra áratugi. Í umfjöllun SFGate kemur fram að lýsingar Galinu hafi verið býsna skuggalegar og lýsingar á „morðkofum“ og þeim aðferðum sem hann notaði við morðin.
Yfir 16.000 manns deildu færslu Galinu en í umfjöllun SFGate kemur fram að lögregla efist stórlega um sannleiksgildi frásagnarinnar. Eftir að hafa skoðað málið vandlega ofan í kjölin bendi fátt til þess að hinn aldraði fyrrverandi geðlæknir hafi verið sá raðmorðingi sem dóttir hans heldur fram. Þá er bent á að Galina hafi reynt fyrir sér sem hryllingsbókahöfundur.
Þrátt fyrir þessar efasemdir segist Galina standa við frásögn sína og bendir hún á að lögregla hafi ekki skoðað sönnunargögn sem geta varpað ljósi á sekt föður síns. Má þar nefna dagbókarskrif hans og upptökur frá honum. „Þeir eru ekki að sinna starfi sínu,“ segir hún.
Hún segir að hann hafi fyrst játað að hafa verið raðmorðingi árið 2015, eða um það leyti sem hann fór að sýna einkenni þess að hann væri með Parkinson‘s-sjúkdóminn. Í kjölfarið segist hún hafa tekið fjölda viðtala við hann þar sem hann játar á sig fyrrnefnda glæpi.
Löggæsluyfirvöld segja hins vegar að upptökurnar sýni lítið annað en mann sem er vart með réttu ráði og gefur óljós svör. Ekkert sé að finna í þeim sem staðfesti að raunverulegir glæpir hafi átt sér stað. Þá kemur fram í umfjöllun SFGate að lögregla hafi gert leit á meintum grafreitum sem Galina benti á, en þar hafi ekkert fundist. Þá tókst lögreglu ekki að tengja ákveðið lykilmál frá 1974, sem átti að hafa DNA-sönnunargögn, við föður hennar. Og þar við situr.