Þegar herforinginn Yaroslav Moskalik, sem gegndi starfi aðstoðarframkvæmdastjóra aðalskrifstofu rússneska hersins, gekk fram hjá bifreiðinni sprakk hún í loft upp og beið Moskalik bana samstundis.
Var Moskalik á gangi rétt hjá heimili sínu þegar sprengjan sprakk en talið er að hann hafi verið skotmarkið.
AP greinir frá því að hinn handtekni hafi játað að hafa komið sprengjunni fyrir, en þjóðerni hans liggur ekki fyrir. Þó segja Rússar að hinn grunaði haldi því fram að úkraínska leyniþjónustan hafi greitt honum fyrir að koma sprengjunni fyrir. Úkraínumenn hafa ekki tjáð sig um málið.
Þetta er í annað sinn á fjórum mánuðum sem hátt settur einstaklingur innan rússneska hersins deyr í sprengingu í heimalandi sínu.
Igor Kirillov , yfirmaður kjarna- og geislavopnadeildar rússneska hersins, var drepinn þann 17. desember síðastliðinn þegar sprengju var komið fyrir í rafskútu fyrir utan heimili hans. Aðstoðarmaður hans lést einnig í sprengingunni.