fbpx
Mánudagur 28.apríl 2025
Fréttir

Vilhjálmur segir grátbroslegt að hlusta á útgerðina sem fyrst nú hafi áhyggjur af landsbyggðinni – „Í dag er allt þetta horfið og við finnum svo sannarlega fyrir áhrifum þess“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 27. apríl 2025 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, segir grátbroslegt að heyra hávært ákall útgerðarinnar eftir úttekt á þeim áhrifum sem hækkuð veiðigjöld gætu haft á landsbyggðina. Ekkert slíkt ákall hafi komið frá sægreifunum þegar aflaheimildir voru færðar frá samfélögum á landsbyggðinni með tilheyrandi tjóni.

Hann skrifar um þetta í færslu á Facebook þar sem hann bendir á að það sé vissulega mikilvægt fyrir samfélagið að fyrirtæki búi við góð rekstrarskilyrði. Fyrirtæki beri þó samfélagslega ábyrgð sem þurfi að vega þyngra í rekstrinum en sjónarmið um skammtímagróða. Þessi forgangsröðun hafi þó ekki alltaf verið rétt hjá útgerðinni.

Ekki nóg að hagnast

„Til að byggja upp öflugt og heilbrigt samfélag verðum við að tryggja að fyrirtæki búi við góð rekstrarskilyrði. Þau eru drifkraftur atvinnulífsins, skapa verðmæt störf og leggja sitt af mörkum til velsældar landsmanna. Þegar fyrirtækjum gengur vel hafa þau burði til að fjölga starfsfólki, greiða góð laun og stuðla að framþróun samfélagsins. Góð rekstrarskilyrði eru því forsenda fyrir sterkara atvinnulífi og betra samfélagi fyrir alla.

En það er ekki nóg að fyrirtæki hagnist. Þau bera einnig samfélagslega ábyrgð.“

Hluti af þessari ábyrgð sé að standa vörð um störf og styðja við byggðir landsins. Það nægi ekki að horfa bara á skammtímagróða og það hafi svo ekki verið samfélagsleg ábyrgð í verki að kippa stoðunum undan byggðum á landsbyggðinni með því að flytja auðlindir í burtu. Þetta þekki Akurnesingar alltof vel.

„Þegar stórfyrirtæki haga sér á þann hátt að þau flytja auðlindir í burtu og skilja samfélög eftir í sárum, þá er það ekki samfélagsleg ábyrgð — það er svik við fólkið sem byggir landið okkar.

Við Akurnesingar þekkjum þetta allt of vel. Þegar HB Grandi ákvað að flytja allan kvótann burt frá Akranesi var ekki aðeins verið að færa atvinnu annars staðar — það var verið að taka lífsviðurværi af fjölda fólks og veikja grunnstoðir samfélagsins okkar. Þetta var ekki ákvörðun sem miðaði að sjálfbærni eða vexti samfélagsins — þetta var ákvörðun sem skilur eftir sig djúp spor.“

Í dag er þetta allt horfið

Þar með sé grátbroslegt að sjá sjávarútvegsfyrirtæki kalla nú eftir úttekt á áhrifum fyrirhugaðrar hækkunar á veiðigjöldum á landsbyggðina. Engin slík krafa kom fram þegar aflaheimildir voru færðar frá landsbyggðinni. Enginn hafði þá áhyggjur af fólkinu og samfélaginu sem átti allt sitt undir þessum atvinnugreinum.

„Það er því eilítið grátbroslegt að heyra sjávarútvegsfyrirtæki tala í dag um mikilvægi þess að fram fari úttekt á áhrifum hækkunar veiðigjalda á landsbyggðina. Ég get vissulega verið sammála því að skoða þurfi áhrif skattheimtu á atvinnulíf landsbyggðarinnar – en þá vaknar spurningin: Hvar var krafan um úttekt þegar allar aflaheimildir voru færðar burt frá Akranesi og vítt og breitt um landsbyggðina? Þá voru engar háværar áhyggjur af áhrifunum á fólkið, fjölskyldurnar og samfélagið sem byggði á þessum atvinnugreinum.
Við megum ekki gleyma því að árið 2014 var Haraldur Böðvarsson hf., sem síðar rann inn í HB Granda, að greiða um það bil 5 milljarða króna í laun á Akranesi. Þetta voru tekjur sem héldu uppi fjölda fjölskyldna, styrktu innviði samfélagsins og sköpuðu verðmæti fyrir næstu kynslóðir. Í dag er allt þetta horfið og við finnum svo sannarlega fyrir áhrifum þess.

Samfélögin sem stóðu að baki uppbyggingu sjávarútvegsins eiga betra skilið en að vera skilin eftir tómhent. Við verðum að krefjast þess að fyrirtækin sem byggja starfsemi sína á sameiginlegum auðlindum landsins axli raunverulega samfélagslega ábyrgð — bæði þegar vel gengur og þegar teknar eru stórar ákvarðanir sem hafa áhrif á heilu byggðirnar.

Sterk fyrirtæki með góð rekstrarskilyrði og skýra samfélagslega ábyrgð eru lykillinn að öflugu Íslandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Anna Kristín varpar ljósi á stöðuna í skúrnum: „Nema svo byrja þeir að stela hlut­un­um okk­ar þarna“

Anna Kristín varpar ljósi á stöðuna í skúrnum: „Nema svo byrja þeir að stela hlut­un­um okk­ar þarna“
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Skýra frá rosalegu mannfalli Rússa

Skýra frá rosalegu mannfalli Rússa