Ríkisfréttastofan Tass skýrði frá þessu en spurningin er hins vegar hvort þetta sé rétt því úkraínski herinn segir þetta ekki rétt og að enn sé barist í héraðinu.
Flemming Splidsboel, sérfræðingur hjá Dansk Institut for International Studier, sagði í samtali við TV2 að tilkynning Pútíns sé „athyglisverð“. Ekki af því að Úkraínumenn hafi beðið ósigur í héraðinu, heldur af því að það hafi tekið Rússa svo langan tíma að ná aftur völdum í héraðinu. „Þetta segir okkur að rússneski herinn er í enn verra ástandi en við reiknuðum með,“ sagði hann.
Úkraínumenn réðust inn í Kursk í byrjun ágúst á síðasta ári. Þetta er stærsta árásin sem gerð hefur verið á rússneskt landsvæði síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Innrásin kom Rússum og umheiminum í opna skjöldu.
Hægt og bítandi hafa Rússar náð héraðinu aftur á sitt vald. Í mars tókst þeim að ná mjög stórum hluta þess úr höndum Úkraínumanna og á laugardaginn tilkynnti Valeri Gerasimov, formaður rússneska herráðsins, Pútín að úkraínski herinn hefði verið hrakinn úr héraðinu.
Gerasimov hrósaði norðurkóreskum hermönnum fyrir frammistöðuna í bardögunum í héraðinu og sagði þá hafa sýnt mikla fagmennsku þegar þeir börðust við hlið rússneskra hermanna.