fbpx
Mánudagur 28.apríl 2025
Fréttir

Sólveig Anna útskýrir hvað hún hatar við woke-ið – „. Mér finnst það satt best að segja til háborinnar skammar“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 27. apríl 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, setti samfélagið og síðar Sósíalistaflokkinn á hliðina er hún steig fram og gagnrýndi svokallaða woke-hugmyndafræði sem hún segir rúna allri stéttarvitund. Hún mætti í Sprengisand á Bylgjunni í morgun þar sem hún fór nánar í saumana á því hvaða augum hún lítur woke-ið umdeilda og hvers vegna henni hugnast ekki slík hugmyndafræði.

Sólveig Anna tók skýrt fram að hún hafi og muni áfram berjast gegn efnahagslegu óréttlæti í samfélaginu og telur hún að Efling hafi undir hennar forystu unnið þrekvirki í þeirri baráttu. Hins vegar vinnist engin barátta á því vera fastur í sjálfsmyndarpólitík þar sem sífellt er leitað af nýjum leiðum til að gera sig sjálfa eða aðra að fórnarlömbum. Spjótin ættu að beinast gegn arðráni og kúgun auðvalds og kapítalisma, en ekki að hverju öðru. Sólveig telur að samfélagið þurfi að einbeita sér að því sem sameinar hópa, til dæmis verkalýðinn , en ekki því sem sundrar og holar okkur niður í minni hópa sem eiga erfiðara með að taka slaginn.

„Ég stend algjörlega við það sem ég sagði. Þetta er stjórnlyndis- og valdboðshugmyndafræði þar sem fókusinn er á hvað skilur okkur að, hvað aðgreinir okkur hvert frá öðru, en ekki á það sem sameinar okkur og gæti þá mögulega gert okkur sterkari í baráttunni við það sem við þurfum að berjast gegn. Og svo er þeim sem aðhyllast ekki skoðanir úr þessari hugmyndafræði refsað með því að fólk er ásakað um alls konar hugsanaglæpi og mannkynssögulega glæpi.“

Ætlar ekki að þröngva sér inn á flokk sem vill hana ekki

Sólveig hafi ekki veigrað sér við að deila þessari afstöðu sinni en vakti með því reiði meðal sósíalista. Þar hafi áhrifafólk innan flokksins sakað Sólveigu Önnu um fasisma, öfgahyggju, að berjast gegn réttindum jaðarsettra hópa og fleira. Enginn úr forystusveitinni hafi stigið fram til að verja Sólveigu Önnu.

Svo hafi María Pétursdóttir, fyrrum formaður málefnastjórnar Sósíalistaflokksins, birt færslu sem Sólveig gat ekki skilið öðruvísi en að væri bein hatursyfirlýsing gegn henni.

„Og þá þurfti ég að horfast í augu við að þetta væri ekki réttur vettvangur fyrir mig. Ég augljóslega væri ekki velkomin þarna og ég ætla nú ekki að þröngva mér upp á fólk sem lítur þessum augum á mig. Þannig þarna sá ég að það var tímabært að leiðir myndu skilja.“

Engin fórnarlömb og bera höfuðið hátt

Sólveig Anna segir það villandi söguskýringu að tengja woke-hugmyndina við réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum. Þaðan sé orðið vissulega komið en fólk þurfi að horfast í augu við að með tíð og tíma hefur merking orðsins tekið breytingum.

„Fyrir mér er woke-hugmyndafræðin, og þessi svona sjálfsmyndarnálgun, algjörlega rúin allri stéttavitund,“ segir Sólveig og útskýrir að woke-ið snúist um að fórnarlambsvæða og vorkenna. Þetta taki alla orkuna frá iðkendum hugmyndafræðinnar sem á sama tíma snúi baki við efnahagslegri réttlætisbaráttu enda woke-istar upp til hópa menntuð millistétt sem hefur engan áhuga á að berjast fyrir láglaunastéttina.

Í raun mætti kalla woke keppni í því hver sé mesta fórnarlambið á hverjum tíma. Það eigi ekkert skylt við sósíalisma.

„Þetta fyrir mér er ekki sósíalismi. Þetta fyrir mér hefur ekkert að gera með réttlætisbaráttu vinnuaflsins í kapítalísku samfélagi. Að í Eflingu leggjum við alla áherslu á það einmitt, við erum ekki fórnarlömb. Við erum ómissandi partur verðmætasköpunarinnar, við knýjum hana í raun áfram. Við berum alltaf höfuðið hátt. Við vitum hvers virði við erum og við erum ekki að leitast eftir því að vinna okkur inn einhver stig einmitt hjá menntaðri millistétt.“

Sólveig Anna var ekki kjörin formaður Eflingar því hún er kona heldur út af því að henni var treyst fyrir því að vekja athygli á efnahagslegum raunveruleika félagsmanna. Sólveig talar fyrir stefnu sem sameinar fólk í baráttunni frekar en sundrar.

„Það kemur mér bókstaflega ekkert við hvað fólk gerir í sínu einkalífi. Það kemur þeim ekkert við hvað ég geri. En við erum sameinuð af hollustu gagnvart þessu verkefni að bæta kjör vinnuaflsins. Og ef að fókusinn okkar er sá að við þurfum alltaf að vera að skipta okkur í hópa og að ég má ekki tala um hagsmuni þessa hóps af því að ég tilheyri honum ekki, eða þessi hópur má ekki tala um mína hagsmuni af því að hann telur ekki til míns hóps. Guð minn góður.“

Femínismi gegn stéttarbaráttu

Woke-ið sé ástæðan fyrir því að vinstrihreyfingar missa móð og missa stuðning. Þetta er aftenging við efnahagslegan raunveruleika fólks, sem er það sem skiptir fólk hvað mestu þegar gengið er til kosninga.

Sólveig hefur eins talað gegn hreyfingu femínisma sem sé í eðli sínu barátta menntaðrar millistéttar sem veigri sér ekki við að troða á réttindum kvenna í lægri stéttum, svo sem með því að berjast fyrir prósentuhækkunum launa til að koma í veg fyrir að launabil menntaðra og ómenntaðra kvenna minnki.

„Það er orðið eitt háværasta baráttumál háskólamenntaðra kvenna að breikka aftur bilið í launum á milli þeirra og láglaunakvennanna sem eru ómerkilegri en þær vegna þess að þær eru ekki menntaðar eða vegna þess að þær vinna við að passa börn eða skúra gólf.“

Sólveig segir að meginstraumsfemínisminn hafi engan áhuga á kjörum láglaunakvenna, sem þó hafa það verr í dag á meðan millistéttarkonur hafa það betur. Þess í stað fagni millistéttarkonurnar því þegar einhver ein kona úr þeirra hóp nær að klífa hærra en loki augunum fyrir þeim konum sem samfélagið er að þrýsta niður.

Woke er leti

Woke-ið sé einnig dæmi um leti. Þetta er auðveld hugmyndafræði og krefst ekki mikils..

„Ég held að ástæðan fyrir því að woke-isminn verður svona ótrúlega vinsæll sé einmitt að hann er rosalega auðveldur. Einmitt það sem þú þarft að gera er bara að deila einhverju. Það eina sem þú þarft að gera er að koma og segja eitthvað: Þessi vond, ég góð. Þessi fasisti, ég vinur Jesú, og svo framvegis og svo framvegis. Þetta er auðveldasta pólitíkin, hún er algjörlega yfirborðskennd.“

Dyggðaskreytingin krefur fólk ekki um fórnir. Fólk þurfi bara að básúna um það hver sé mesta fórnarlambið á hverjum tíma og það er nóg.

Stéttabarátta sé allt annað. Stéttabarátta er baráttan sem raunverulega breytir samfélögum. Baráttan sem stuðlaði að velferðarkerfinu sem Íslendingar eru stoltir af þó að stundum sé álagið mikið. Stéttabarátta er barátta kvenna sem kröfðust sanngjarnra launa fyrir vinnu sína. Og það voru allskonar konur, ekki bara konur sem voru með réttu menntunina, réttu skoðanirnar eða réttu sýnina á heiminn.

„Og það skipti engu máli hvort þær voru eitthvað æðislega góðar, fullkomnar, skemmtilegar, kunnu að tala rétt, kunnu að tala eins og þær væru útskrifaðar úr kynjafræði. Það skipti bara engu einasta máli.“

Kann því illa að vera kölluð fasisti

Ætli Sósíalistaflokkurinn sér að halda áfram í pólitík, sem og aðrir vinstri flokkar á borð við Vinstri Græna, þurfi flokkarnir að hætta að gæla við innflutta sjálfsmyndarpólitík frá Bandaríkjunum og einbeita sér að aðstæðum á Íslandi, efnahagslegri réttlætisbaráttu og málefnum verkalýðsins.

Það geri svo engum gagn að uppnefna þá sem vilja opna umræðu um þessi mál, fasista, trumpista eða annað.

„Ég tek þessu bara ekki vel. Og mér finnst ekki í lagi að fólk sem kennir sig við sósíalisma fari fram og kasti fram svona ásökunum eins og ekkert sé á hendur fólki sem hefur ekki gerst sekt um neina svona glæpi. Mér finnst það satt best að segja til háborinnar skammar. Og ég veit að þetta fólk mun aldrei skammast sín fyrir það sem það hefur gert.“

Þau ættu samt að skammast sín þar sem þetta eyðileggur mikilvæga baráttu. Þetta sundrar frekar en að sameina. Sólveig Anna telur að Ísland þurfi nú raunverulegan verkamannaflokk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þurfti að eyða stórfé í tannviðgerðir en fékk enga miskunn frá Skattinum

Þurfti að eyða stórfé í tannviðgerðir en fékk enga miskunn frá Skattinum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Getur mikil neysla á kjúklingakjöti verið krabbameinsvaldandi?

Getur mikil neysla á kjúklingakjöti verið krabbameinsvaldandi?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óhugnaður í Urriðaholti: Hafliði hrakti húsbrotsmenn á flótta

Óhugnaður í Urriðaholti: Hafliði hrakti húsbrotsmenn á flótta
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Myndband sýnir furðulegan árekstur strætisvagns og jeppa

Myndband sýnir furðulegan árekstur strætisvagns og jeppa