Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur staðfest þá niðurstöðu byggingarfulltrúa Kópavogs að aðhafast ekkert vegna geymsluskúrs á einbýlishúsalóð í bænum en eigendur einbýlishússins á lóðinni við hliðina höfðu kvartað yfir skúrnum á þeim grundvelli að hann væri of nálægt þeirra lóð og því þyrfti þeirra samþykki til að reisa hann. Nefndin tekur undir að skúrinn sé of nálægt lóð kærenda en þrátt fyrir það fái hann að standa.
Hinir ósáttu eigendur kröfðust þess í kæru sinni til nefndarinnar að nágrönnum þeirra yrði gert að fjarlægja skúrinn og úrskurðað yrði sömuleiðis um hvort hann væri byggingarleyfisskyldur.
Erindi var sent fyrir hönd hinna ósáttu nágranna í apríl 2024 til byggingarfulltrúans í Kópavogi. Í erindinu var farið fram á að framkvæmdir við byggingu geymsluskúrsins yrðu stöðvaðar. Í júní sendi byggingarfulltrúinn eigendum hússins við hliðina, byggjendum skúrsins, bréf og vísaði til ákvæða byggingarreglugerðar um minniháttar mannvirki og framkvæmdir sem væru undanþegnar byggingarleyfi. Var óskað eftir því að gerð yrði grein fyrir stærð skúrsins og látin í té staðfesting um að fyrir lægi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar.
Með tölvupósti í október 2024, tilkynnti byggingarfulltrúinn í Kópavogi byggjendum skúrsins að hann krefðist þess að smáhýsið yrði fjarlægt innan mánaðar ef ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar fyrir þann tíma. Í desember fór byggingarfulltrúi auk þess fram á að lóðamörk milli lóðanna yrðu mæld.
Í janúar 2025 tilkynnti hins vegar byggingarfulltrúinn hinum ósáttu eigendum að ekkert yrði frekar aðhafst vegna skúrsins. Vildi byggingarfulltrúinn meina að þrátt fyrir þann annmarka að undirritað samkomulag við nágrannana hafi ekki verið lagt fram yrði ekki séð að umræddur skúr hefði nein umtalsverð neikvæð áhrif á hagsmuni aðliggjandi lóðar. Ekki yrði heldur séð að fyrir hendi væru þeir almanna- eða öryggishagsmunir sem kölluðu á beitingu þvingunaraðgerða af hálfu byggingarfulltrúa.
Í kjölfarið kærðu hinir ósáttu eigendur málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Kærendur vísuðu í sinni kæru til þess að samkvæmt byggingarreglugerð sé heimilt að reisa smáhýsi undir ákveðnum stærðarmörkum án byggingarleyfis. Hins vegar sé jafnframt skilyrði við byggingu smáhýsa af þessari stærð að aflað sé leyfis frá eigendum aðliggjandi lóðar, standi smáhýsið innan þriggja metra frá þeirri lóð en umræddur skúr standi 1,8 metra frá lóðarmörkum. Þá sé skúrinn upphitaður og einangraður og falli þar með ekki undir skilgreiningu smáhýsis í byggingarreglugerð. Hafi framkvæmdin því verið byggingarleyfisskyld.
Kærendur sögðu einnig að þar sem skriflegt samþykki þeirra lægi ekki fyrir væri um óleyfisframkvæmd að ræða og hvíldi sú skylda á byggingarfulltrúa, samkvæmt lögum um mannvirki, að krefjast þess að hið ólöglega mannvirki yrði fjarlægt. Byggingarfulltrúi hafi þegar beint þeim fyrirmælum til nágranna þeirra að fjarlægja skúrinn og ekkert í gögnum málsins skýrði hvers vegna sú ákvörðun hafi verið afturkölluð.
Kópavogsbær vísaði til þess í sínum andsvörum að lögin legðu ekki skyldur á herðar hans til að beita þvingunarúrræðum heldur væri það háð mati hverju sinni og vísaði sömuleiðis til þeirra raka að skúrinn hefði engin sérstök áhrif á hagsmuni hinna ósáttu eigenda.
Byggjendur skúrsins neituðu þeim fullyrðingum nágranna sinna að skúrinn væri upphitaður. Honum væri skipt í geymslu og svo ruslatunnuskýli. Vildu byggjendur sömuleiðis meina að fyrri eigendur húss hinna ósáttu eigenda hefðu veitt samþykki sitt fyrir skúrnum þegar byrjað var að gera undirstöður 2021 en lögðu ekki fram nein gögn um það.
Hinir ósáttu eigendur bættu því við í viðbótarandsvörum að engar lagalegar forsendur væru fyrir byggingarfulltrúann til að breyta fyrri ákvörðun sinni um að skúrinn skyldi fjarlægður.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að ljóst sé að skúrinn sé innan marka byggingarreglugerðar um stærð smáhýsa sem ekki þurfi byggingarleyfi fyrir. Þar af leiðandi hafi byggjendur ekki þurft byggingarleyfi.
Staðfest sé hins vegar að skúrinn uppfylli ekki ákvæði reglugerðarinnar um að smáhýsi megi ekki vera minna en 3 metra frá lóðamörkum til að ekki sé þörf á samþykki eigenda aðliggjandi lóðar. Ljóst sé að skúrinn sé aðeins 1,8 metra frá lóð hinna ósáttu nágranna.
Hins vegar segir nefndin að ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki frekar með beitingu þvingunarúrræða hafi verið studd þeim rökum að þrátt fyrir þann annmarka að samþykki nágranna hafi skort og eftir að hafa metið aðstæður verði ekki séð að umræddur skúr hafi nein umtalsverð neikvæð áhrif á hagsmuni aðliggjandi lóða. Ekki verði heldur séð að fyrir hendi séu þeir öryggis- og almannahagsmunir sem kalli á beitingu þvingunaraðgerða af hálfu byggingarfulltrúa í málinu.
Ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs um að aðhafast ekkert frekar í málinu var því staðfest og hinir ósáttu nágrannar þurfa því að sætta sig við skúrinn nema þeir vilji reyna að fara dómstólaleiðina.