fbpx
Fimmtudagur 24.apríl 2025
Fréttir

Fyrrverandi bæjarstjóra Fjallabyggðar misboðið vegna auglýsinga SFS – „Þorpin töpuðu. Þorpin urðu undir“

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 24. apríl 2025 15:00

Elías segir að verið sé að véla ungt fólk til að leika í auglýsingunum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elíasi Péturssyni, fyrrverandi bæjarstjóra Fjallabyggðar, segist vera misboðið vegna auglýsinga SFS sem dunið hafa á landsmönnum undanfarnar vikur. Hann segir að þorpin hafi orðið undir og tækifærin hafi horfið með núverandi kvótakerfi.

„Með breytingum á stjórn fiskveiða voru verðmæti færð frá þorpum og þorpsbúum til handhafa fiskveiðiheimilda. Meðan kvótahafar fengu notið verðmætanna þurftu aðrir að borga,“ segir Elías í færslu á samfélagmiðlum sem hefur fengið mikla athygli. „Í tilviki þorpanna féll víxillinn á íbúana.“

Elías var bæjarstjóri í Fjallabyggð þar sem eru útgerðarbæirnir Siglufjörður og Ólafsfjörður. Þar áður var hann sveitarstjóri Langanesbyggðar þar sem Þórshöfn er.

Elías bendir á að á sama tíma og fasteignaverð í þorpunum lækkaði jókst virði hins framseljanlega kvóta. Tilfærsla verðmæta frá einum aðila til annars af mannavöldum hafi mikil áhrif á öll samfélög, langt umfram það sem nokkurn getur órað fyrir.

„Vegna umræðu dagsins, svo ekki sé talað um hinar athyglisverðu auglýsingar SFS, er rétt að rifja upp að þorpin voru til fyrir tíma breyttrar fiskveiðistjórnunar. Mörgum vegnaði vel, jafnvel mjög vel,“ segir Elías. „Umræðan í þorpunum var áhrifamikil; fólk leyfði sér að hafa sína skoðun; fæstir áttu á hættu að missa starf sitt og/eða viðurværi vegna skoðana sinna; enginn var svo stór að hann gæti þaggað niður umræðuna í þorpinu enda var það var sjaldnast þannig að einn aðili ætti þorpið.“

Auglýsingarnar misbjóða

Hann segir að lífið í þorpunum hafi verið skapandi, þar hafi ríkt heilbrigð samkeppni, tækifærin hafi verið óteljandi vegna nálægðar við fiskimiðin og hvert þorp hafi verið heilbrigt skapaði tækifæri. Upp úr þessu umhverfi hafi nánast allir þeir sem mörkuðu spor í íslenskum sjávarútvegi sprottið.

„Kvótahafar dagsins er fyrst og fremst aðilar sem fá notið afraksturs þeirra sem á undan hafa gengið,“ segir Elías. Allt hafi þetta farið versta veg fyrir þorpin.

„Tíminn er breyttur. Þorpin töpuðu. Þorpin urðu undir. Tækifærin hurfu. Verðmæti eigna þorpanna urðu lítil sem engin,“ segir hann en bendir á að þetta sé sem betur fer að breytast. Það er vegna ferðaþjónustu og tækniframfara sem skapað hafa ný tækifæri. Þorpin sem töpuðu séu mörg hver að taka við sér eftir hrylling kvótakerfisins.

„Það er af þessum ástæðum sem auglýsingar SFS hreinlega misbjóða mér,“ segir Elías og á við auglýsingarnar sem birtar voru eftir tilkynningu um leiðréttingu veiðigjalda. Auglýsingar þar sem reynt er að spila inn á tilfinningar fólks í sjávarþorpum. „Auglýsingarnar bera vitni um ævintýralegan hroka þeirra sem tóku lífsbjörgina frá þorpunum en kalla nú eftir ásjá þeirra og aðstoð þegar sanngjörn krafa er gerð um eðlilegt afgjald kvótahafanna til samfélagsins. Sorglegt.“

Ungt fólk misnotað

Segir hann að það sem fái sérstaklega á hann að ungt fólk hafi verið vélað til að leika í auglýsingunum. Fólk sem ekki muni geta útskýrt aðkomu sína eftir nokkur ár.

„Þetta má kalla misnotkun á ungu fólki,“ segir Elías. Einnig að í þeim sé rangt farið með staðreyndir. „Það er rangt að ekkert líf hafi verið til staðar áður en kvótaverðmætin voru færð til útvalinna eins og haldið er fram í auglýsingunum. Það er ákaflega slæmt að vera á þeim stað í lífinu að telja sig þurfa að selja sálu sína stórfyrirtæki þorpsins til að komast af; að telja að allt líf í þorpinu sé afleiða starfsemi stórfyrirtækisins sem auðveldlega getur ákveðið að flytja öll verðmætin burt á einni nóttu. Það er afleitt að staða þorpsins sé sú að verkstjórinn í fyrirtækinu sé miðja samfélagsins. Þá er rétt að flytja. Við þessar aðstæður er ágætt að rifja upp að íþróttahús þorpsins var gefið af Dönum, en ekki kvótahöfum. Annað er sögufölsun.“

Grunar að Sjálfstæðismenn beiti málþófi

Tekur Elías fram að hann sé Sjálfstæðismaður og hafi verið allt sitt líf.

„Nú líður senn að því að þing komi saman að nýju eftir gott páskafrí og ræði hið sanngjarna afgjald kvótahafa til þjóðarinnar. Mig grunar að þingmenn Sjálfstæðisflokks séu nú að hlaða í málþóf í þágu kvótahafanna og aðra viðlíka vanvirðu við lýðræðið. Mér þætti miður ef grunur minn reynist réttur, en óttast það,“ segir Elías. „Ef svo reynist þá sannast enn að lífið er endalaus uppspretta reynslu sem kallar reglulega á endurskoðun eldri sjónarmiða. Hvað sem öðru líður bið ég um vinsamlegast um að mér verði hlíft við þessum makalausa áróðri SFS því hann er fullkominn vanvirða við þorpin, fullkominn vanvirða við heilbrigða skynsemi, fullkomin vanvirða við samfélagið sem við byggjum og fullkomin vanvirða við söguna – en segir afar mikið um þá sem bera áróðurinn fram og fjármagna.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ofurhugi ætlar að synda hringinn í kringum Ísland – Ekki það erfiðasta sem hann hefur gert

Ofurhugi ætlar að synda hringinn í kringum Ísland – Ekki það erfiðasta sem hann hefur gert
Fréttir
Í gær

Nágrannar græna gímaldsins vonsviknir með nýja meirihluta – „Við höfum ekki heyrt eitt einasta bofs“

Nágrannar græna gímaldsins vonsviknir með nýja meirihluta – „Við höfum ekki heyrt eitt einasta bofs“
Fréttir
Í gær

Pútín lætur reyna á NATÓ við finnsku landamærin

Pútín lætur reyna á NATÓ við finnsku landamærin
Fréttir
Í gær

Zelenskyy segir að Kínverjar framleiði vopn í Rússlandi

Zelenskyy segir að Kínverjar framleiði vopn í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verður næsti páfi Svíi?

Verður næsti páfi Svíi?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur fær ekki 670 þúsund krónur endurgreiddar sem svindlarar stálu af kreditkorti hans – „Óréttlætið hefur haft betur að mínu mati“

Guðmundur fær ekki 670 þúsund krónur endurgreiddar sem svindlarar stálu af kreditkorti hans – „Óréttlætið hefur haft betur að mínu mati“