Ekkert lát virðist vera á væringum innan Sósíalistaflokks Íslands. Undanfarnar vikur hefur mikil orrahríð staðið um Gunnar Smára Egilsson og hann sakaður um ofríki og andlegt ofbeldi svo eitthvað sé nefnt. Hafa deilurnar í raun klofið flokkinn þar sem sósíalistar skiptast í tvær fylkingar, með eða á móti Gunnari Smára, og hafa þung orð verið látin falla.
Enn eitt reiðaraslagið átti sér svo stað í gær þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði sig úr flokknum eftir hatursfulla athugasemd frá Maríu Pétursdóttur, fyrrum formanni málefnastjórnar flokksins, sem sat auk þess á 2. sæti á lista Sósíalista í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu alþingiskosningum.
Í kjölfarið loguðu spjallhópar sósíalista á Facebook og sá pólitískur leiðtogi þeirra, Sanna Magdalena Mörtudóttir, sig knúnna til þess að skrifa hvatningarskeyti þar sem hún bað flokksmenn sína að setja klæði á vopnin og standa saman.
Það var þó til lítils og aftur sauð upp úr þegar Jóna Fanney Friðriksdóttir, fyrrum formaður Leiðsagnar – félags leiðsögumanna, kvaddi sér hljóðs og sagðist líka vera hætt í flokknum. Ekki var það Maríu að kenna í þetta skiptið heldur átti hún sökótt við Hallfríði Þórarinsdóttur, sem situr í framkvæmdastjórn flokksins.
Eins og greint var frá í fjölmiðlum sagði Jóna Fanney af sér formennsku í Leiðsögn í byrjun árs 2024 eftir mikla ólgu innan stjórn félagsins en þar var Hallfríður varamaður í stjórn. Var Jóna Fanney sökuð um „óvirðingu fyrir góðri stjórnsýslu, týnt bókun um alvarlegt eineltismál, hrakið burt starfsmann félagsins, gefið stjórn rangar upplýsingar um fjármál félagsins og ráðið sig sjálfa og varaformann á skrifstofu félagsins sem starfsfólk,“ eins og fram kom í frétt Vísis um væringarnar en á móti sakaði Jóna Fanney stjórnarmenn um að hafa beitt sig „blekkingum, grófum rógburði og andlegu ofbeldi“.
Ljóst er að Jónu Fanneyju hefur hlaupið kapp í kinn við deilurnar hjá sósíalistum því hún nýtti tækifærið í gær til að gera upp sakirnar við Hallfríði og sakaði hana um að hafa borið á sig þungar sakir á átakafundi innan Leiðsagnar og bera nánast höfuðábyrgð á brotthvarfi hennar úr formannsstóli.
„Vegna þess að þú, Hallfríður Þórarinsdóttir, ert í framkvæmdastjórn hef ég ákveðið að segja mig úr Sósíalistaflokki Íslands og jafnframt hef ég ekki áhuga lengur á að styrkja Samstöðina. Ég hef enga trú á flokknum eða afleggjurum hans (Samstöðinni) á meðan þú ert þar innanborðs,“ skrifaði Jóna Fanney á Rauða þráðinn, umræðuhóp sósíalista.
Í kjölfarið urðu talsverðar umræður við þráðinn og bentu nokkrir á að ekkert í fundargerð þessa tiltekna fundar hjá Leiðsögn benti til þess að Hallfríður hefði stigið fram með slíkar ásakanir.
Að endingu var þræðinum eytt en ekki liggur fyrir hvort Jóna Fanney hafi sjálf séð af sér eða admin fjarlægt skeytið.