Landbúnaður er gríðarlega spennandi atvinnugrein og verður eins og önnur matvælaframleiðsla fyrir áhrifum af þeim óróa sem nú er á alþjóðavettvangi. Matvælaöryggi er eitthvað sem ríkisstjórnir Íslands og annarra ríkja er að skoða vel, einnig með tilliti til annarra aðfanga á borð við eldsneyti. Þá ríkir eftirvænting með niðurstöðu Hæstaréttar varðandi það hvort setning búvörulaga síðastliðið vor hafi stangast á við stjórnarskrá. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Hanna Katrín Friðriksson - 7
„Þetta er tvennt: lögin, þegar þetta verður afturkallið ef það fer þannig í gegnum þingið, sem ég vonast til, þá er það ekki afturvirkt. En það gefur mér svigrúm til þess að koma inn í haust með lög sem tryggja frumframleiðendum í landbúnaði sömu skilyrði til hagræðingar og gefast í löndunum í kringum okkur,“ segir Hanna Katrín.
Hún segir að á sama tíma verði skoðaður sá vandi sem afurðastöðvar búa við hér á litlum markaði. „Við munum skoða hlutina mjög gaumgæfilega og taka tillit til þess sem hefur verið í umræðunni síðastliðið ár.“
Það muni hins vegar breyta miklu hver niðurstaða Hæstaréttar verði um það hvort setning búvörulaganna síðasta vor hafi stangast á við stjórnarskrá. Staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms verður að vinda ofan af kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði-Norðlenska.
Hanna Katrín segir sýnina vera þá að landbúnaður hér blómstri eins og hægt er en eins og hjá öðrum atvinnugreinum þurfi að gæta þess að ekki verði vikið frá eðlilegum lögmálum markaðarins meira en nauðsynlegt er. „Undir liggur hagur neytenda og hagur allra sem að málum koma. Þetta eru bændur, þetta eru neytendur, þetta eru afurðastöðvar og við erum ekkert að finna upp hjólið hérna. Landbúnaður er krefjandi atvinnugrein alls staðar þar sem við þekkjum til og þó að við höfum ákveðna sérstöðu hér vegna þess hve dreifbýlt landið er og kalt þá eru nu lögmálin engu að síður að mörgu leyti hin sömu.“
Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að hagsmunir neytenda og frumframleiðenda í landbúnaði fari að mörgu leyti saman. Það geti hins vegar skarast á við hagsmuni þeirra sem standa þarna á milli neytenda og frumframleiðenda.
„Já, það má alveg færa rök fyrir því oft að milliliðirnir verða stundum frekir til fjárins í þessari umræðu allri þannig að það er um að gera að hafa augun á réttum boltum. Það breytir því hins vegar ekki að landbúnaður er ofboðslega spennandi atvinnugrein og af því að við byrjuðum nú þetta spjalla okkar á að tala um óróann á veraldarvísu þá hefur hann nú sannarlega áhrif á þróunina í matvælaframleiðslu. Fæðuöryggi heilt yfir, og þá er ég ekki bara að tala um matvælaframleiðsluna heldur önnur aðföng, þetta er nokkuð sem ég held að allar þjóðir séu að skoða núna mjög náið og við erum að gera það líka. Það er verið í atvinnuvegaráðuneytinu, með til þess bærum stofnunum, að skoða þessi mál í samvinnu við önnur ráðuneytið. Þetta hefur náttúrlega líka að gera með eldsneyti og öll önnur aðföng, þetta er svo stórt og mikið þannig að það eitt er mjög spennandi.“
Hanna Katrín bendir á að í þessum efnum þurfi líka að horfa til þess að neysluvenjur hafi breyst og einnig samfélagið í heild. „Allt gerir þetta að verkum að þessi grunnatvinnustarfsemi okkar, sem er okkur svo í blóð borin líka bara menningarlega, hún er bara einhvern veginn á fleygiferð það er svo mikil þróun í gangi.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.