Reiðileg færsla var birt nú fyrir stuttu á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum. Undir færsluna er ritað „Lögreglustjórinn á Vestfjörðum“ en umræddur lögreglustjóri heitir Helgi Jensson. Í færslunni fer Helgi yfir ákvörðun sína um að fella niður kæru frá Matvælastofnun vegna atviks sem varð þegar laxar sluppu úr fiskeldisstöð í Patreksfirði 2023. Segir Helgi að staðfesting ríkissaksóknara á ákvörðun hans sýni, þrátt fyrir að öðru hafi verið haldið fram, að hann og embætti hans hafi vandað til verka í málinu. Gagnrýnir hann sérstaklega fjölmiðla fyrir að hafa sýnt staðfestingu ríkissaksóknara lítinn áhuga og sömuleiðis hörð orð sem höfð voru uppi í hans garð á meðan málinu stóð. Óhætt er að segja að óvenjulegt sé að svo hvöss orð séu viðhöfð af einum af lögreglustjórum landsins.
Helgi fer í upphafi færslunnar yfir gang málsins:
„Þann 14. apríl sl., staðfesti ríkissaksóknari ákvörðun Lögreglustjórans á Vestfjörðum að fella niður mál vegna kæru MAST vegna þess atviks er laxar sluppu úr kví nr. 8 í fiskeldisstöð Arctic Sea Farm ehf., (hér eftir ASF) í Patreksfirði, en MAST kærði framkvæmdarstjóra og stjórnarformann ASF. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafði upphaflega hætt rannsókn málsins, en sú ákvörðun var kærð af MAST og fjölmörgum veiðifélögum og samtökum þeirra og ákvað ríkissaksóknari að rétt væri að málið yrði rannsakað að fullu og síðan tekin ákvörðun. Lögreglan á Vestfjörðum kláraði því rannsókn málsins og síðan var tekin ákvörðun um að fella málið niður þar sem það væri ekki líklegt til sakfellis.“
Helgi segir vart annað hafa verið hægt en að tjá sig um niðurstöðu málsins þó slíkt sé ekki venjan af hálfu embættisins. Tekur hann ekki vel í þau orð sem höfð voru uppi í hans garð um að hann væri með öllu óhæfur og þyrði ekki að ganga gegn hagsmunum Arctic Sea Farm:
„Embættið er ekki vant að tjá sig um niðurstöðu mála, en í þessu máli gengu lögmenn veiðifélaga mjög hart fram í málflutningi sínum í fjölmiðlum um að lögreglustjórinn á Vestfjörðum væri bæði óhæfur lögfræðingur og ekki fær um að taka ákvarðanir í þessu mikilvæga máli og einnig vanhæfur í málinu vegna hagsmuna ASF á Vestfjörðum, sem mátti skilja þannig að lögreglan þyrði ekki að taka ákvarðanir sem gengju gegn ASF.“
Helgi segir að í ákvörðun ríkissaksóknara um að fella málið endanlega niður sé tekið undir sjónarmið embættis hans:
„Í áðurnefndri ákvörðun ríkissaksóknara er tekið undir sjónarmið lögreglunnar og niðurstaðan staðfest. Í henni kemur fram að ríkissaksóknari telur, eins og lögreglan að rannsókn málsins hafi ekki leitt í ljós að kærðu, framkvæmdarstjóri eða stjórnarmenn, hafi með athöfnum sínum eða athafnalaleysi sínu, valdið því, af ásetningi eða gáleysi, að eldisfiskur slapp úr sjókví ASF í Patreksfirði, í ágúst 2023.“
Helgi minnir einnig á að ríkissaksóknari hafi sömuleiðis staðfest þá niðurstöðu hans að hafna beiðni Landssambands veiðifélaga um aðgang að gögnum málsins:
„Vegna þess að sambandið hafi ekki sýnt fram á að það hefði slíka lögvarinna hagsmuna að gæta að það eigi rétt á að fá aðgang að gögnum málsins.“
Að lokum gagnrýnir Helgi harðlega áhugaleysi fjölmiðla á þessari niðurstöðu málsins og segir það ólíkt því sem verið hafi raunin á meðan málinu stóð:
„Fjölmiðlar hafa frá upphafi sýnt þessu máli mikinn áhuga og tekið viðtöl við forsvarsmenn Landssambands veiðifélaga og forsvarsmenn veiðifélaga eða lögmenn þeirra. Nú þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir og ekki hægt að gagnrýna lögregluna lengur, er áhuginn hins vegar mjög lítill, en einungis vefmiðillinn Bæjarins besta á Ísafirði hefur sýnt málinu áhuga og birt fréttir um ákvörðun ríkissaksóknara.“