RÚV hefur tilkynnt um töluverðar breytingar á fréttatímum sínum í sjónvarpi. Hætt verður með seinni fréttatíma sem verið hefur við lýði síðan á níunda áratug síðustu aldar og því verður fram vegis aðeins einn reglulegur sjónvarpsfréttatími á dagskrá en hann verður færður frá klukkan 19 til klukkan 20 á kvöldin.
Í tilkynningu sem birt er á vef RÚV kemur fram að síðasti fréttatíminn klukkan 22 verði sendur út 1. júlí næstkomandi. Seinni fréttir hafi verið í sjónvarpi hjá RÚV frá árinu 1988. Þær voru fyrst sendar út klukkan 23, en flýtt til klukkan 22 árið 2000.
Á þeim tíma var aðalfréttatími í sjónvarpi klukkan 20 en árið 1999 var hann færður fram til klukkan 19. Frá og með 24. júlí næstkomandi verður fréttatíminn hins vegar aftur á sínum gamla tíma, kl. 20.
Tímabundin breyting verður þó 2. júlí og á meðan útsendingum frá EM kvenna í fótbolta stendur en þá verða fréttir á dagskrá klukkan 21.
Haft er eftir Heiðari Erni Sigurfinnssyni fréttastjóra RÚV að þessar breytingar snúist ekki um hagræðingu heldur áherslubreytingar vegna þeirrar þróunar sem hefur orðið á því hvernig fólk nálgast fréttir. Lögð verði aukin áhersla á fréttir á stafrænum miðlum og dregið úr sjónvarpsframleiðslu þar sem jú flestir nálgist fréttir í dag á fyrrnefnda vettvanginum.