Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum utanríkisráðherra lýsir í pistli á heimasíðu sinni yfir töluverðum áhyggjum af framtíð lýðræðisins á Vesturlöndum. Segir Þórdís Kolbrún að helsta ógnin við lýðræðið sé að vitsmunalegri heilsu fólks fari hrakandi. Lestrargetu fari minnkandi sem og geta til að leysa úr viðfangsefnum sem krefjast rökhugsunar. Hætti fólk að geta skilgreint umhverfi sitt sé lýðræðinu mikil hætta búin.
Þórdís Kolbrún vísar til þróunar mála í Bandaríkjunum:
„Samkvæmt athugunum á lestrargetu fullorðins fólks í Bandaríkjunum nær um þriðjungur landsmanna ekki þeim viðmiðum um hæfni sem ætlast má til af tíu ára börnum. Þetta merkir að þriðjungur fullorðinna Bandaríkjamanna getur tæplega haldið þræði í texta sem er flóknari en einfaldar myndasögur eða barnabækur. Niðurstaðan er sambærileg þegar kemur að getu fólks til að leysa úr viðfangsefnum sem krefjast reiknikunnáttu og rökhugsunar.“
Þórdísi Kolbrúnu er ekki kunnugt um sambærilegar rannsóknir á Íslandi en telur ljóst að síversnandi árangur íslenskra grunnskólabarna í alþjóðlegum samanburðarkönnunum gefi ekki tilefni til bjartsýni.
Þórdís Kolbrún telur það alveg skýrt að það bætti ekki skilning á veröldinni að skipta sjónvarpsefni og hlaðvörpum út fyrir lestur:
„Ef önnur samfélög á Vesturlöndum eru á sömu leið og Bandaríkin er það því ekki aðeins áhyggjuefni fyrir útgefendur bóka og dagblaða; heldur er það tilvistarógn við frjálslynt lýðræðissamfélag.“
Staðan sé orðin þannig að aðgerða sé þörf en ekki hneykslunar:
„Ef stórt og vaxandi hlutfall fólks skilur ekki einfaldan texta, getur ekki sett tölur og stærðir í vitrænt samhengi og flaskar á léttum rökþrautum þá dugir ekki bara að hneykslast, skammast eða hafa þungar áhyggjur. Við þurfum að gera okkur grein fyrir stöðunni og grípa til aðgerða. Vitsmunaleg heilsa samfélags er nefnilega ekki síður mikilvæg en líkamleg heilsa, og ekki skortir á umfjöllun og hvatningu til þess að fólk taki hana alvarlega.“
Hún segir rökhugsun og umræður nauðsynlega forsendu fyrir lýðræðislegu samfélagi. Almenningur verði að geta mótað sér upplýstar skoðanir.
Stjórnmálamaðurinn Þórdís Kolbrún segir ábyrgð stjórnmálamanna mikla í þessum efnum:
„Í fyrsta lagi eru það stjórnmálamenn sem bera mikla ábyrgð á þróun samfélagsins, þar á meðal menntakerfisins. Í öðru lagi ættu stjórnmálamenn að gæta sín sérstaklega á því að verða ekki sjálfir hluti af vandamálinu með því að steypa pólitískri umræðu ofan í forarpytt persónuníðs, kreddu eða ofureinföldunar. Og í þriðja lagi þurfa stjórnmálamenn að beita sér til þess að styðja við það í samfélaginu sem ræktar vitsmunalegan þroska en sporna gegn því sem grefur undan honum.“
Það liggi því í augum uppi hvað sé mest aðkallandi:
„Ef getu fólks til þess að skilja umhverfi sitt fer hrakandi þá felst í því ógn við lýðræði, efnahag og menningu þjóðarinnar. Í raun er erfitt að ímynda sér meira aðkallandi pólitískt málefni.“
Þórdís Kolbrún segist ekki vera með svör við því hvað sé best að gera til að sporna við þessari þróun en vestræn samfélög hafi bersýnilega villst af leið:
„… vanrækt eina mikilvægustu forsendu velmegunar sinnar í þeirri trú að einhvern veginn hljóti hlutir að reddast. Reynist það rétt að við höfum tapað áttum og séum að leyfa vitsmunalegri heilsu okkar að hraka þá er fyrsta skrefið að gera sér grein fyrir því, staldra við og grípa til aðgerða – en ekki eyða orku og tíma í að benda út og suður á sökudólga.“
Pistil Þórdísar Kolbrúnar í heild sinni er hægt að nálgast hér.