Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni frá Litháen sem honum er gert að sæta til að koma í veg fyrir að hann komi sér undan málsmeðferð.
Lögreglunni barst í febrúar evrópsk handtökuskipun á manninn frá lögreglunni í Litháen. Þar hefur maðurinn verið dæmdur í átta ára fangelsi og á hann þar af eftir að afplána fjögur ár og sex mánuði.
Maðurinn var sakfelldur fyrir þrjú kynferðisbrot gegn barnungri stúlku. Áreitti hann hana kynferðislega á sameiginlegu heimili þeirra í Vilníus árið 2015, gerði tilraun til að láta hana hafa við sig munnmök og hafði við hana samræði.
Í rökstuðningi lögreglustjóra fyrir kröfunni um gæsluvarðhald segir:
„Til að tryggja nærveru hins eftirlýsta á meðan fyrirhuguðafhending á honum til Litáen er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum þykir nauðsynlegt, með vísan til alvarleika þeirra brota sem standa að baki hinni evrópsku handtökuskipun, sem og með tilliti til almannahagsmuna, að honum verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, enda telur lögregla að ella muni hinn eftirlýsti reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan fullnustu þeirrar refsingar sem bíður hans í Litáen.
Þetta mat lögreglu styðst m.a. við reynslu hennar í þó nokkrum sambærilegum málum að undanförnu, enda auðvelt fyrir eftirlýstan mann að leynast hér á landi og koma sér þannig undan afhendingu og þar með þeirri málsmeðferð eða refsingu sem bíður hins eftirlýsta í öðru ríki. Þar að auki er talin mikil hætta á því að hinn eftirlýsti reyni að komast úr landi í sama tilgangi, jafnvel undir öðru nafni, enda lítil sem engin landamæragæsla innan Schengen-svæðisins. Jafnframt hefur hinn eftirlýsti þegar sýnt það í verki að hann er vís með að halda áfram að koma sér undan refsingunni með því að fara fráÍslandi og/eða Litáen vitandi af þeirri málsmeðferð eða refsingu sem bíður hans þar í landi.“
Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til laugardagsins 26. apríl.
Úrskurðina má lesa hér.