Um fátt hefur verið meira rætt síðasta sólarhringinn en samúðarkveðju Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, vegna andláts Frans páfa. Höllu varð á að skrifa nafn hans á ensku, Pope Francis.
Sjá einnig: Samúðarkveðja Höllu forseta vegna fráfalls páfa veldur undrun – „Úff“
Fólk hefur ýmist hneyklast á samúðarkveðjunni, eða hneykslast á þeim sem hneyksluðust á kveðjunni.
„Kæru vinir, Mér þykir ákaflega vænt um ykkur öll og sömuleiðis um okkar dýrmæta tungumál. Eins og flestum er nú vel kunnugt brást mér bogalistin í gær. Ég var að brúna kartöflur með páskalambinu um leið og ég var að skrifa þessa frægu samfélagsmiðlafærslu. Ætlun mín var að tengja við opinbera síðu Frans páfa á Instagram svo ég sló inn Pope Francis og fékk upp @franciscus. Ég bað eiginmanninn (sem var að taka út hrygginn) að kanna hvort um rétta síðu væri að ræða á meðan ég kláraði kartöflurnar og færsluna í nokkrum flýti áður en mamma kom í mat. Í látunum fór að-merkið (@) forgörðum og því fór sem fór. Á því axla ég fulla ábyrgð og breytti færslunni að loknum hádegisverði þegar mér hafði verið bent á mín mistök. Ég þakka ykkur sem standið vaktina og minnið okkur öll á mikilvægi þess að við stöndum saman vörð um okkar einstöku tungu. Ég er með ykkur í liði,“
segir Halla í færslu á Facebook.
Hún segist mannleg og því ekki geta lofað því að þetta verði síðustu mistökin sem hún gerir:
„Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök, ég er mannleg og vil vera það því ég trúi að af mistökunum lærum við mest og minnst lærum við þegar við teljum sjálfum okkur og öðrum trú um að við vitum allt best. Við þekkjum sjaldnast allar hliðar mála og fátt er að mínu mati mikilvægara en að við séum börnum okkar góð fyrirmynd og vöndum orð okkar og gjörðir og sýnum þannig að við búum yfir þroska til að skiptast á skoðunum og ræða mál af virðingu, umhyggju og kærleik. Þetta hefur gjarnan verið kjarninn í skilaboðum páfa en ég er einmitt að koma af minningarstund um þann merkilega mann og mun sækja útför hans í Róm um helgina. Áhugasamir geta lesið ákall hans um að við sinnum betur okkar sameiginlega heimi(li) í bréfi hans “Laudato si” (læt hlekk fylgja hér fyrir neðan) og/eða horft á fyrirlestur hans hjá TED þar sem hann segir m.a. að það þurfi einungis einn einstakling til að vonin lifi og að hvert okkar geti verið sá einstaklingur!“