Hann ólst upp við alkóhólisma og óviðunandi aðstæður hjá móður sinni eftir að foreldrar hans skildu.
„Ég man bara öll rifrildin og öskrin þegar ég var bara barn,“ segir hann.
Maggi var þriggja ára þegar hann fékk heilablóðfall á gólfinu hjá ömmu sinni og afa. Hann man eftir að hafa farið í sjúkrabílinn en endurhæfingin er í móðu.
„Ég hélt lengi að mamma hegði verið með mér á spítalanum og þessu en það var ekki rétt, pabbi stóð þessa vakt alveg á meðan mamma bara drakk.“
Magnús talar um að hafa tekið út sína vanlíðan á öðrum í skólanum til dæmis og verið reiður. „Ég geri mér grein fyrir því í dag að mér leið rosalega illa heima og tók það út svona, sem er hrikalegt,“ segir hann.
Magnús og tvíburabróðir hans voru teknir af mömmu sinni og settir í sveit, síðan á ákveðnum tímapunkti fluttu þeir til pabba síns, sem voru mikil viðbrigði.
Magnús segir að neysla móður hans hafi haldið áfram og orðið verri.
Árið 2009 komu Maggi og eldri bróðir hans að henni látinni á eldhúsgólfinu.
„Við vorum sofandi og hún eitthvað að elda kjöt. Síðan kallar hún á bróður minn, sem var mjög eðlilegt þegar hún var drukkin og að taka pillur. Þegar við vöknuðum sáum við hana og hringdum í 112 og reyndum að bjarga henni,“ segir hann.
Þetta var stórt áfall en Magnús segir þá bræður ekki hafa fengið aðstoð í kjölfarið og hafi hann leitað til áfengis til að deyfa sig og drakk hann mikið og illa næstu tíu árin.
Hlustaðu á þáttinn með Magnúsi, sem hefur haslað sér völl sem áhugaverður ljósmyndari í íslensku tónlistarsenunni, hér að ofan.
Magnús ræddi um lífið, erfiðleika og baráttuna í viðtali við DV í nóvember 2023.