Sá, sem er „bláeygður“, er oft talinn einfaldur og trúgjarn. Barnalegur. Felst þessi merkin orðanna í fyrirsögninni.
Það dýrmætasta, sem við eigum
Á Íslandi, einnig víða annars staðar, telja menn, að Bandaríki Norður Ameríku (BNA) tryggi okkur, íbúum hins vestræna heims, öryggi og frelsi, menningu okkar, lífshætti og velferð.
Þetta, sem er það dýrmætasta, sem við eigum og gefur lífinu grunngildi, standi fyrir tilstyrk BNA á bjargi.
Hættulegur barnaskapur
Fáfræði og skilningsleysi þessa fólks er fyrir mér á háu og hættulegu stigi. Fáfræði og heimska eru erfið viðureignar. Þar fer eins um staðreyndir og rök, eins og vatnið, sem skvett er á gæs.
Á Alþingi situr fólk, sem er sannfært um, að BNA veiti okkur framtíðaröryggi á öllum sviðum og skrifa sumir þeirra fjálglega um þennan barnaskap sinn í fjölmiðla landsins.
Klofin þjóð
BNA er klofin þjóð.
Þar takast á tvær andstæðar fylkingar, annars vegar mikillar íhaldssemi og heimóttarskapur, þar sem þröngsýni, þekkingarleysi og sjálfsdýrkun ráða för, og, hins vegar, frjálslyndrar, mannúðlegrar og ábyrgrar alþjóðahyggju, þar sem þekking, víðsýni og tillitssemi við aðra sitja í fyrirrúmi.
Þessi klofningur kemur víða fram, t.a.m. í afstöðu til réttar einstaklinga, frá 18 ára aldri, til vopnaburðar, til réttar kvenna til fóstureyðingar, til afstöðu þeirra, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og réttar þeirra til réttlætis og velferðar svo og til afstöðunnar til alþjóðasamvinnu.
Donald Trump
„America first“ var slagorð Trumps, sem fyrri fylkingin studdi og var tilbúin til að ráðast á og rústa sínu eigin þjóðþingi, Capitol, fyrir, og heimta í leiðinni, að varaforsetinn yrði hengdur.
Það segir sína sögu um ástandið í BNA, að fávís, sjálfumglaður ribbaldi, eins og Donald Trump, skyldi vera kosinn forseti landsins.
Trump taldi, að hagsmunir BNA ættu að ganga fyrir öll, að loftslagsváin og umhverfispilling væri tilbúningur, fake news, enda sagði hann BNA frá Parísarsamkomulagi þjóða heims og leyfði stórfelld ný loftlags- og náttúruspjöll í sínu eigin land, jafnframt því sem hann velti upp þeirri hugmynd, að gott kynni að vera, að drekka klórblöndu við COVID.
Góðvinir Trumps
Trump taldi Pútin og Kim Jong-un góða menn og merka, enda naut hann ótæpilegs stuðnings þess fyrrnefnda í kosningabaráttunni 2016, þar sem ekkert var til sparað af áróðri og ósannindum á netinu, til að tryggja Trump brautargengi.
Varð þar til djúp gagnkvæm virðing, nánast bræðralag. Hefði Trump vart staðið gegn árásarstríði Pútíns í Úkraínu.
Vel fór líka á með Trump og Bolsonaro í Brasilíu, sem leyfði stóraukinn ágang á „lungu jarðar“, regnskógana í Amazon.
Setur NATO í uppnám
Sumarið 2018 mætti Trump á NATO-fund í Brussel, þar sem hann hótaði öðrum aðildarþjóðum, að, ef þær settu ekki þá fjármuni í varnarmál, sem stefnt var á, myndi hann „do his own thing“.
Aðspurður, hvað þetta þýddi, hvort BNA myndu ekki verja önnur NATO-lönd gegn mögulegri árás Rússa, ef ekki væri greitt, svaraði Trump: „That´s exactly what it means“.
Trump gaf líka til kynna, að það orkaði tvímælis, hvort verja ætti smáþjóð, eins og „tiny Montenegro“, sem þá var nýr NATO-meðlimur.
Öryggisráðgjafi Trump, John Bolton, sem var með honum á ráð-stefnunni, segir í bók sinni „The Room Where it Happened“, að hann hafi verið með lífið í lúkunum, „I had my heart in my throat“, að Trump myndi segja BNA úr NATO á þessum fundi.
Í viðtali við The Washington Post bætti hann við, að hann væri sannfærður um, að Trump hefði sagt BNA úr NATO, hefði hann verið endurkosinn.
Hvað með „tiny Iceland“?
Sem stendur ræður fylkingin, sem við getum treyst, för í BNA. En hversu lengi verður það? Aftur verður kosið 2024. Hverjum veita Bandaríkamenn þá völdin? Donald Trump, eða einhverjum hans líka?
Ef Rússum eða Kínverjum skildi þóknast að hertaka eyjuna litlu, „tiny Iceland“, norður í Dumbshafi, til að tryggja tökin á Norðurslóðum, hvað skyldi þá Trump, eða annar slíkur, gera, ef BNA væri þá enn í NATO?
Evrópa verður að standa á eigin fótum
Við getum ekki treyst á BNA með varnir, frelsi og öryggi Evrópu. Heldur ekki á Tyrki, sem búa yfir öðrum fjölmennasta her NATO-ríkjanna.
ESB-löndin 27 mynda kjarna Evrópuþjóða. ESB býr yfir gífurlegum efnahagsstyrk, sem nú verður að færa yfir í varnar- og hernaðarstyrk, í framtíðinni verður hvorttveggja að koma til, og verður Ísland að gerast fullur þátttakandi í þessu samstarfi evrópskra systra- og bræðraþjóða okkar.
Annað væri bláeygur barnaskapur og ábyrgðarleysi.
Eftirmáli:
Þessi grein var skrifuð og birt í Fréttablaðinu góða og sáluga 15. júní 2022, en á greinilega enn erindi við landsmenn, inn í umræðuna, ekki sízt við forsætisætisráðherra og ríkisstjórn, sem veðja á, að BNA muni tryggja sjálfstæði, öryggi og velferð landsmanna, um ókominn tíma, þó að allt sé að rætast af vondum væntingum og spádómum, sem greint var og skrifað var um fyrir hart nær þremur árum, og liggur nú fyrir í magnaðri mynd.