Spænska borgin Cartagena er sú sólríkasta í Evrópu. Þetta kemur fram í umfjöllun ferðavefs DailyMail þar sem tekinn var saman topp tíu listi. Það þarf ekki að koma neinum Íslendingi á óvart að spænskar borgir einoka nánast listann en átta slíkar eru á listanum og þar af sitja spænskar borgir í fimm efstu sætunum. Að auki eru ítalska borgin Catania, sem er á Sikiley, og franska hafnarborgin Marseille á listanum.
Flestar spænsku borgirnar eru Íslendingum góðkunnar en til að mynda er Alicante í 2. sæti listans en það er einn vinsælasti áfangastaður Frónbúa á Spáni. Í efsta sæti listans situr hins vegar spænska hafnarborgin Cartagena í Murcia-héraði. Borgin er skammt suður af Íslendinganýlendunni Torrevieja og þarf því kannski ekki að koma að óvart að þar er sólríkt með afbrigðum.
Borgin er auk þess afar falleg, þar drýpur sagan af hverju strái og verðlagt afar hagstætt. Vel heimsóknarinnar virði!