Athygli mína vakti nýverið í þætti í Ríkisútvarpinu að þáttarstjórnendur ræddu um Jesúm Krist sem goðsagnaveru, töldu hann aldrei hafa verið til. Ég var í meira lagi undrandi að heyra háskólagengna menn halda öðru eins fram. Sagnfræðingum ber nefnilega saman um að Jesús frá Nasaret hafi verið uppi þó samtímaheimildir skorti, en svo er farið með flesta nafntogaða menn úr fornöld — heimildirnar eru yngri. Einhver kynni þá að nefna að lítið mark sé guðspjöllunum takandi þó mikil séu að vöxtum, þau séu rituð af fylgjendum Krists og mikil innbyrðis vensl milli þeirra.
Gott og vel. Ekki þætti það góð latína ef sagnfræðingur legði allt traust sitt á eina heimild. „Cave ab homine unius libri“ segir Tómas Akvínas í Summa theologiae, sem myndi útleggjast sem svo að ættum að varast „einnar bókar manninn“. Í sagnfræðinni er gjarnan litið svo á að beri tveimur óskyldum heimildum saman sé það merki um sannleiksgildi frásagnar. Og um Jesúm Krist er ekki eingöngu fjallað í guðspjöllunum heldur líka í Antiquitates Judaicae sem sagnaritarinn Flavíus Jósefus (gr. Ἰώσηπος) skráði á fyrstu öld. Þar segir að Jesús hafi verið krossfestur af Pílatusi, að ráði hinna fremstu gyðinga, og birst lærisveinum sínum á þriðja degi.
Frá sjónarhóli sagnfræðinnar þarf ekki að efast um að Jesús Kristur hafi verið á meðal vor en þegar spurt er hvort hann hafi risið upp frá dauðum veitir sagnfræðin okkur vitaskuld engin svör. Upprisan verður ekki sönnuð með aðferðum sagnfræðinnar enda ekkert hliðstætt til í mannlegu lífi sem hægt væri að nota til samanburðar. Hvað sem því líður er upprisan kjarni kristninnar og það sem greindi hana frá gyðingdómi. Páll postuli orðaði það raunar svo í fyrra bréfi sínu til Korintumanna að væri Kristur ekki upprisinn þá væri „ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar“.
Meðal þess sem sagnfræðingar deila ekki um er að Kristur hafi verið negldur á kross, sem var ekki einasta leið til að auka á þjáningu hins dauðadæmda heldur líka til að smána hann sem mest. Þetta var aftökuaðferð sem hinir harðsvíruðustu og um leið auvirðilegustu glæpamenn voru beittir. Guðir fornaldar voru líkastir því sem við þekkjum sem ofurhetjur úr teiknimyndabókum, breyskir himnagarpar sem hirtu mannfólkið ótt og títt. Nú var fram komin trú á syndlausan Guðs son sem þolað hafði fullkomna niðurlægingu af hálfu manna, um leið tekið á sig syndir þeirra og risið upp frá dauðum. Hér var eitthvað alveg nýtt á ferð — í grundvallaratriðum ólíkt öllum öðrum átrúnaði. Sagnfræðingurinn Tom Holland orðar það svo í hinni víðfrægu bók sinni um byltingu kristninnar, Dominion, sem út kom 2019 að þessi hugmynd hafi í huga fornaldarmanna verið allt í senn „hneykslanleg, afkáraleg, ruddaleg“.
Fyrir hálfum mánuði varð mér það á hér á þessum vettvangi að fella ósanngjarna dóma um íslensku þjóðkirkjuna, telja hana skorta þá dulúð og ljóðrænu sem þyrfti svo færast mætti nær skilningi á guðdómnum sem sé yfirnáttúrulegur og verði því ekki skilinn eftir veraldlegum mælikvörðum nútímavísinda.
Ágætur gamalreyndur þjóðkirkjuprestur benti mér á að liturgía og sálmahefð þjóðkirkjunnar væri innblásin af andlegum leyndardómum lúterskrar hefðar. Hann sagði mér frá því að þegar hann hitti fyrir syrgjendur yrði sér ljóst hversu máttug bænin væri: „áhrifarík, vonar, elskar, róar, setur líf í skorður, ljós í myrkri, minnir á að lífið heldur áfram, tengir fólk saman og við Guð, sem var, er og verður“ eins og hann orðaði það og við aðstæður sem þessar fengi hið dulræna og ljóðræna raunhlítt inntak — hagnýtt gildi.
Mér koma líka til hugar í þessu sambandi ótal útleggingar á ritningartextunum. Hallgrímur Pétursson yrkir:
Guðs míns ástar birtu bjarta
bæði fæ ég að reyna og sjá,
hryggðarmerkið sorgar svarta
sálu minni hverfur þá.
Fórnardauðinn verður hverju mannsbarni ljós í einföldum ljóðlínum, þó meira en hálft fjórða árhundrað sé liðið frá því að ort var. Og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi gerir okkur krossfestinguna sömuleiðis ljóslifandi:
Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Svörin er öll að finna í okkar íslenska menningarheimi — ljóðrænum og dularfullum í senn.
Franski heimspekingurinn Edgar Morin leiðir að því rök í bók sinni Amour, poésie, sagesse að sérhvert tungumál sé tvískipt; hið rökræna og skilgreinandi annars vegar og táknrænt og goðsagnakennt hins vegar. Sigurður Pálsson skáld benti á í þessu sambandi að í prósa leyndist þráður en í póesíu væri mynd. Mannkynið þyrfti hvort tveggja til að öðlast skilning á tilveru sinni.
Í 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir: „Hin evangeliska og lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“ Í sjálfum grundvallarlögum okkar er því kveðið skýrt á um stuðning ríkisins við kirkjuna — hann er skilyrtur við að kirkjan sé evangelisk og lútersk. Áðurnefndur þjóðkirkjuprestur benti mér á að þetta bæri afdráttarlaust að túlka svo að þjóðkirkjan hefði það hlutverk að varðveita og rækta evangeliskan og lúterskan sið í landinu sem væri rótgróinn og hans sæjust merki víðsvegar: þjóðfáninn væri með krossmerki, Alþingi hæfi störf sín að hausti með kirkjugöngu, bæn og lofgjörð með Guði, þjóðsöngurinn væri bænasálmur og dagatalið sannkristið og boðaði Jesúm Krist krossfestan og upprisinn. Þá væri messað hvern sunnudag og fólk boðið velkomið til að reyna á leyndardóma trúarinnar. Þar væri beðið fyrir landi og þjóð.
Hvernig sem á það er litið er íslensk menning og íslenskt þjóðfélag í eðli sínu kristið. Um aldir var „lífsvonin eina“ samtvinnuð „krossinum rauðum“ eins og Jón Helgason orti og bætti við: „yfirtak langt bak við ömurleik hungurs og sorgar / ómuðu sætlega strengleikar himneskrar borgar“.