Vladimir Pútín, forseti Rússlands, tilkynnti í gær, flestum að óvörum, um vopnahlé í tilefni páska sem standa mun til miðnættis á annan í páskum. Þrátt fyrir að vera fullir tortryggni tilkynntu Úkraínumenn um að vopnahléið yrði virt en tíðindi morgunsins benda þó til þess að Rússar séu enn að gera árásir á víglínunni.
CNN birti í morgun umfjöllun um hver tilgangur Pútín gæti verið með vopnahléinu. Ályktun miðilsins er sú að tilgangurinn sé sá að gefa Donald Trump og Bandaríkjamönnum undir fótinn með meintan friðarvilja Rússa og ýta undir þann meinta áróður að það séu Úkraínumenn sem séu ekki tilbúnir að semja um frið.
Eins og fjallað hefur verið um virðist Trump á mörkum þess að vera að missa þolinmæðina varðandi þá yfirlýstu stefnu að hann ætlaði að ljúka stríðinu hratt og örugglega og því líklegt að vopnahlé Pútíns sé hugsað til þess að halda Bandaríkjaforseta við efnið um sinn.
Það er nefnilega meira en að segja það fyrir Úkraínumenn að leggja skyndilega niður vopn. Sumar herdeildir eru mögulega í miðjum bardögum og líklegt er að upplýsingaóreiða muni leiða af sér mistök sem Pútín, og reyndar Úkraínumenn sömu leiðis, mun nýta sér til þess að benda á hversu svikull mótaðilinn er.
Greinandi CNN er á því að meiri líkur séu á því að vopnahlé Pútíns sé skaðlegt varðandi möguleg stríðslok heldur en að um jákvætt skref sé að ræða.