„Þá var svona gelgjan að byrja. Það kannski hefði verið öðruvísi ef að ég hefði verið stelpa eða eitthvað sem að hefði haft gaman af því að leika með henni eða þannig. Mér þótti vænt um hana og allt það, en ég svona farinn að pæla í öðrum hlutum: Guns n Roses og hjólabrettum,“ segir Ólafur Egilsson leikstjóri og leikari aðspurður um þegar yngri systir hans, Ellen Erla fæddist.
Ólafur er nýjasti gestur Kiddu Svarfdal í Fullorðins, þar sem hann talar meðal annars um samband sitt og eiginkonunnar Ester Taliu Casey, ferilinn og fíkn systur sinnar.
„Ég er ekki bindindismaður. Það er nú kannski erfitt að fullyrða það algjörlega, en það ekki alkóhólismi í hvorugri minni fjölskyldu. Ég veit að langafi minn Guðmundur var drykkfelldur maður. Og bræður ömmu Margrétar Erlu Guðmundsdóttur, verslunarkonu sem rak barnafataverslunina Bangsi. Og mér mikil fyrirmynd. Og svo ein af mínum ömmum og öfum sem er á lífi í dag, hún hefur sagt mér sögur af því.“
Aðspurður segir Ólafur systur sína vera að takast á við sitt verkefni.
„Er að lifa með sínum fíknisjúkdómi og það auðvitað er bara barátta sem gengur vel suma daga og og verr aðra daga. En það hefur aldrei fallið neinn skuggi á það að mér þykir óskaplega vænt um hana og elska hana og og allt það, en þetta getur verið flókið. Þetta er sjúkdómur sem leggst á fleiri en bara þann sem er haldinn fíkninni og það er þetta að upplifa þetta magnleysi að geta ekki stigið inn í og bjargað fólki eins mikið og mann langar til. Og það fær mann auðvitað til þess að þurfa að takast á við sína eigin stjórnsemi og bara hvernig maður er að lifa sínu eigin lífi og hvernig maður þarf að sætta sig við það að geta ekki stigið inn í líf annarra og tekið af þeim völdin og látið fólk gera það sem best er að gera að manns eigin mati, heldur þurfa að vera auðmjúkur bara og gefast upp fyrir því og treysta örlögunum og forsjóninni fyrir því að hlutirnir fari eins og þeir eigi að fara.“
Talið berst að sýningunni Níu Líf sem Ólafur leikstýrði og skrifaði handrit að um ævi og feril tónlistarmannsins Bubba Morthens.
„Ég hitti mann í Vesturbæjarlauginni, er mikill sundmaður, reyni að fara daglega í sund. Og það er maður í búningsklefanum sem segir: „Heyrðu, þú varst að gera sýningu um hann Bubba, ég er að fara í kvöld.“ Ég segi bara góða skemmtun. „Já ég veit allt um það, ég er ekki að fara í fyrsta skipti, ég er að fara í níunda skipti. Maður er náttúrulega með hann með sér.“ Svo sýnir hann mér að hann er andlitið á Bubba tattúverað á öxlina.“
Ólafur segir að það sem honum hafi fundist vænst um sýninguna sé að þó hún sé um Bubba Morthens, þá er hún ekki bara um Bubba Morthens.
„Hún er um að komast af og að mæta erfiðum aðstæðum og hún er um að mæta sjálfum sér og um að faðma þær breytingar sem þarf að gera á sjálfum sér og viðhorfi til tilverunnar til þess að hlutirnir, til þess að sólin fari að skína. Það er það er bara svona saga af manneskju sem að er ekkert ósvipuð þér eða mér af því að við erum í rauninni öll svo lík. Og svo er auðvitað músíkin hans Bubba algjörlega frábær. Frábær rammi utan um þetta og hans lífshlaup og hans frásagnir og það sem hann hefur upplifað og lent í. Held ég að svona geri þetta svolítið skýrari dæmisögu um það hvernig maður getur mætt hlutunum með kærleika og ljósi og verið svolítill winner í sínu eigin lífi.“
Ólafur segir að það að vera sigurvegari felist ekki í að gefa út átta hundruð lög eins og Bubbi, það felist í dálítið öðrum hlutum. Hann segir sýninguna hafa verið algjörlega frábært verkefni og það hafi verið frábært líka að hafa Ester eiginkonu sína með sér, en hún lék hlutverk Grétu, mömmu Bubba, „sem var hans sól og miðja í tilverunni. Og svo svo náttúrulega gekk sýningin mjög lengi. Það var COVID og það voru menn að forfallast og við héldum alltaf áfram og ég stökk inn í þó nokkuð margar sýningar. Ég lék sáttaBubba sem Valur Freyr lék og fékk að enda sýninguna, lokasýninguna og syngja um ástina. Til Esterar sem var þá í hlutverki Hrafnhildar hans Bubba. Þetta var náttúrulega alveg stórfurðulegt að standa á sviði fyrir framan fimm hundruð og fimmtíu manns klæddur eins og Bubbi Morthens og og syngja Um hvað það er gott að elska konu eins og þig. Og það er konan mín að þykjast vera önnur kona. Þetta verður að minnsta kosti ekki íburðarmeiri forleikur, held ég.“
Ólafur og eiginkona hans, leikkonan Esther Talia Casey, hafa verið saman frá unglingsaldri.
„Við erum orðin kærustupar bara fimmtán, sextán. Ég hafði bara mína hentisemi og kom og fór þegar mér sýndist og og skreið inn um gluggann hjá henni á Laufásveginum og einhvern tímann þá er ég að príla upp á þakið og inn um gluggann. Þá kemur móðir hennar, tengdamóðir mín, Guðrún Theodóra, í gluggann á sínu svefnherbergi. „Óli minn. Viltu ekki bara fara inn um dyrnar? Við erum búin að vera saman lengi. Auðvitað með hléum og eins og gengur og gerist. En við einhvern veginn rötuðum alltaf aftur til hvort annars og og erum óskaplega mikið ástfangin og eigum tvö börn í dag og og og búum á Grettisgötu í húsi foreldra minna.“
Segir Ólafur að þegar foreldrar hans, leikarahjónin Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson, hafi viljað minnka við sig hafi Ólafur og Esther verið að leita sér að stærra.
„Aftur heim þar sem við kysstumst fyrsta kossinum í í heimkeyrslunni. Og ég skar í tréð E plús Ó. Við létum grafa það inn í giftingarhringinn okkar.“
Ólafur segir þau hafa kynnst í Austurbæjarskóla, og ástarævintýri þeirra hafi verið sætt, en ljótt líka og alls konar eins og gangi hjá fólki.
„Við erum óskaplega ástfangin og voða lukkuleg með hvort annað. Við vorum fimmtán og ég er fjörutíu og átta ára gamall í dag, þannig að…Þetta eru þrjátíu og þrjú ár.“