Hector Bellerin, fyrrum leikmaður Arsenal, segir að það sé ekki bara dans á rósum að vera atvinnumaður í fótbolta.
Bellerin var gríðarlega efnilegur leikmaður á sínum tíma og einbeitti sér aðeins að fótbolta á yngri árum en hann er í dag þrítugur og leikur með Real Betis.
Bellerin varar unga leikmenn við því að þeir muni ekki læra mikið á lífið ef þeir hlusta aðeins á sitt félag eða þá einbeita sér algjörlega að fótboltanum.
,,Að mínu mati vilja flest félög gefa þér öll tólin til þess að verða góður fótboltamaður,“ sagði Bellerin.
,,Þessi félög eru hins vegar ekki að gefa þér tólin til þess að vera góður borgari, manneskja, eiginmaður eða faðir. Við einbeitum okkur alveg að fótboltanum.“
,,Fótboltamenn eiga peninga og eru fyrirmyndir og fótboltinn sjálfur er einhvern veginn að vernda okkur á ákveðinn hátt. Þeir leyfa okkur ekki að vera sú manneskja sem við viljum vera.“