Sólveig Anna Jónsdóttir mætti á dögunum í hlaðvarpið Spjallið með Frosta Logasyni og þar gagnrýndi hún hreyfingu íslenskra femínista sem mismunar konum eftir stétt.
„Hofgyðja hins íslenska meginstraums femínisma, mest woke kona á öllu landinu, Sóley Tómasdóttir. Þegar við vorum í einni hörðustu kjaradeilu síðustu áratuga, þar sem Eflingarkonur voru í verkföllum inni á hótelunum til þess að berjast fyrir hærri launum fyrir þernurnar – sem eru náttúrulega mestmegins konur – þá skrifar Stefán Ólafsson, sérfræðingur Eflingar og fyrrverandi prófessor, grein þar sem hann hvetur femínista til að standa með Eflingu í þessari baráttu.
Viðbrögð Sóleyjar Tómasdóttur og svona herkveðningin til femínistanna er bara: Nei, nei, nei, nei, nei, nei, alls ekki gera það. Sólveig er vond. Hún hefur gerst sek um karllega átakasækni og eitthvað svona fleira sem ég hefði gert ljótt.“
Sóley hafi skrifað þetta í pistli sem var fjallað um í fjölmiðlum. Þar hvatti hún femínista til að standa hvorki með Eflingu né Sólveigu Önnu. Og skipti þá engu að baráttan snerist ekki um persónuna Sólveigu Önnu Jónsdóttur heldur um baráttu láglaunakvenna.
„Meginstraumsfemínistar hafa ekki staðið með okkur heldur hafa þær þvert á móti verið tilbúnar til þess að ráðast gegn baráttunni okkar.“
Önnur dæmi sem Sólveig nefnir eru Drífa Snædal, sem á þessum tíma var forseti Alþýðusambandsins (ASÍ), og Halla Gunnarsdóttir sem í dag er formaður VR en á þessum tíma var hún framkvæmdastjóri ASÍ. Þær hafi beitt sér gegn því að Sólveig gæti setið áfram sem formaður Eflingar.
„Þrátt fyrir að þessi stórkostlega mikli og raunverulegi efnahagslegi árangur hefði náðst í þeim kjarasamningum sem Eflingar-konur, með mig í forystu sem formann samninganefndanna, hefðu náð.“
Sólveig kemur með enn eitt dæmið en tekur fram að hún sé ekki með neina hefndaróra en það sé þó virði í því að tala um þetta.
„Hversu mikill vilji það var til þess að láta eins og við værum ekki til.“
Árið 2023 hafi komið út vefrit á vegum ASÍ sem hét vinnan og kemur út á verkalýðsdaginn, 1. maí. Þar var í engu minnst á Eflingu og þeirra baráttu.
„Við vorum bara ósýnileg.“
Sjá einnig: Sakar forystu Eflingar um valdníðslu og skoðanakúgun
Sólveig segist ekki vita fyrir víst hvers vegna þessar áberandi konur í íslenskum femínista hafi verið svona á móti henni. Líklega því hún hafi leyft sér að vera ósammála. Sólveig sé vissulega kona, en hún sé ekki rétta týpan af konu.
„Ég held í alvöru að ég sé ekki rétta tegundin af konu fyrir þær. Þeim finnst eitthvað defekt við mig. Og svo held ég að þetta sé líka vegna þess að ég var oft ósammála þeim um hitt og þetta og af því að ég trúi bara á frjáls og opin skoðanaskipti, þá bara kem ég því áleiðis, það er það að vera í svona.. high stakes pólitík bara snýst um það. Ég held að það hafi líka verið illa séð. Og eflaust bara ýmislegt fleira.“
Sólveig útskýrir að hún kalli sig ekki lengur femínista því hún telur að hreyfingin hafi misst sjónar á markmiði sínu og sé farin að velja og hafna hvaða konur eigi rétt á baráttunni. Það séu ekki konurnar í Eflingu.
„Mín sýn er sú, og þær manneskjur sem munu slaufa mér fyrir að vera að tala um þetta hér við þig þær eru hvort sem er löngu búnar að slaufa mér – þannig bara whatever. Mín sýn er sú, og það er ástæðan fyrir að ég vil ekki lengur kalla mig femínista, er að eitt sinn þá var femínisminn og baráttan fyrir efnahagslegu réttlæti samofin. Þannig upplifði ég femínismann.“
Rauðsokkurnar og fleiri öflugar hreyfingar hafi einbeitt sér að efnahagslegum hagsmunum kvenna. Að kona gæti lifað sjálfstætt án þess að þurfa að reiða sig á tekjur karlmanns.
„Þetta er mikilvæg barátta,“ segir Sólveig. En í dag sé það svo að í Eflingu er stór hópur kvenna sem er að vinna ómissandi störf fyrir samfélag sitt.
„Og það er enginn áhugi á að lyfta þessum konum upp. Þá hlýtur maður að fara að spyrja sig hvernig stendur á því. Hvernig stendur á því að þær eru ósýnilegar og svona óhreinu börnin hennar Evu sem enginn vill sjá eða heyra af. Getur það verið að það sé bara búið að taka baráttuviljann og útdeila honum einhvern veginn bara til menntaðra millistéttarkvenna sem að séu rétta týpan af konum, með réttan bakgrunn, með rétta menntun, tjá sig með réttum hætti, þekkir rétta fólkið, kunna réttu orðin og þetta sé bara orðið bundið við það. Þannig upplifi ég það.“