fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

Þórður segir mjög mikilvægt að íslenska þjóðin sigri áróðursstríð útgerðarinnar – „Nú þarf að anda í kviðinn“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 18. apríl 2025 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nú þarf að anda í kviðinn, standa af sér hræðsluáróðurinn og klára málið. Í eitt skipti fyrir öll,“ skrifar Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, í grein um fyrirhugaða hækkun veiðigjalda.

Þórður rekur að á dögunum birtust niðurstöður tveggja kannana, annars vegar frá Gallup og hins vegar frá Maskínu. Samkvæmt báðum könnunum er mikill meirihluti landsmanna hlynntur því að veiðigjöld taki mið af raunverulegu aflaverðmæti og að útgerðin megi vel við því að greiða hærri veiðigjöld.

Gríðarlegt áróðursstríð

Þórður segir að viðbrögð útgerðarinnar við fyrirhugaðri hækkun veiðigjalda hafi varla farið fram hjá nokkrum manni.

„Í gangi er gríðarlegt áróðursstríð vegna þeirra sjálfsögðu og sanngjörnu ákvörðunar réttkjörinna stjórnvalda að leiðrétta veiðigjöld þannig að þau taki mið af markaðsvirði en ekki verði sem útgerðir ákveði sjálfar þegar þær selja eigin vinnslum afla. Það er enda ekki eðlilegt að einn atvinnuvegur fái einfaldlega að ákveða sjálfur það andlag sem gjöld hans í ríkissjóð ráðast af, sérstaklega þegar um er að ræða rekstur sem byggir á nýtingu á þjóðareign sem umræddar útgerðir fá afnot af, en eiga ekki.“

Birtingarmyndir áróðursins séu margvíslegar og kosti greinilega fúlgur fjár. Þórður talar um rándýrar auglýsingar þar sem venjulegu fólki og jafnvel heilu sveitarfélögunum er teflt fram „sem skildi fyrir eigendur stórútgerðar.“

Hagsmunagæslusamtök stórútgerða hafi gefið umsögn um frumvarp um hækkun veiðigjalda sem sé heilar 69 blaðsíður að lengd án fylgigagna. Af þeirri umsókn megi skýrt ráða að útgerðin líti ekki á sjávarauðlindina sem þjóðareign og þar með sé leiðrétting veiðigjalda brot gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Með öðrum orðum birtist sú afstaða útgerðarinnar í umsögninni að það sé hún sem á sjávarauðlindina.

„Þessu svipar til þess að leigjandi íbúðar myndi halda því fram að gengið væri á stjórnarskrárvarinn eignarrétt sinn ef leigusalinn, sem ætti íbúðina, myndi ákveða að hækka leiguna.“

Áróðurinn beinist svo líka að því að sjávarútvegurinn sé ekki að skila nægum arði til að standa undir frekari greiðslu veiðigjalda. Afkoman beri þess engin merki að þar sé umframarður. Þórður bendir á að þetta sé galin fullyrðing. Framlegð útgerða landsins, tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði, nam 93,8 milljörðum árið 2023. Miðað við þá tölu myndi hækkun veiðigjalda þýða 84,2 milljarðar sem sé enn mun hærri framlegð en tíðkist almennt í íslensku atvinnulífi.

Hluta hagnaðarins hafi eigendur útgerðarinnar greitt út í arð. Samtök félaga í sjávarútvegi haldi því fram að arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði sé lægri hjá útgerðinni en í öðrum greinum. Þórður segir þetta villandi framsetningu. Arðgreiðsluhlutfallið sé bara lægra þar sem hagnaðurinn er svo gríðarlegur að jafnvel þó aðeins brot af honum sé greiddur út í arð sé það samt miklu hærri fjárhæð en eigendur flestra annarra fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu fá. Þessar arðgreiðslur hafi eigendur útgerða meðal annars notað til að kaupa sig inn í flesta anga íslensks viðskiptalífs og það sem er ekki greitt út í arð safnast upp sem eigið fé.

Rangt gefið of lengi

Þórður segir að hækkun veiðigjalda sé leiðrétting sem miði að því að eigandi auðlindarinnar, þjóðin, fái réttláta hlutdeild í arðinum. Veiðigjaldið eins og það er í dag dugar varla, eða bara alls ekki, fyrir þeim kostnaði sem ríkið leggur út vegna þjónustu við sjávarútveg.

Frumvarpið sé vel undirbúið og vel undirbyggt en mögulega þurfi að aðlaga það við þinglega meðferð málsins til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á litlar eða meðalstórar útgerðir sem hafa ekki tök á að standa undir frekari breytingum á veiðigjöldum.

„Það þýðir ekki að hér séu komnir til valda stjórnmálamenn sem hati sjávarútveg eða skilji ekki mikilvægi hans fyrir þjóðarbúið. Þvert á móti þá er öllum ljóst hversu mikilvæg sú atvinnugrein er Íslandi og hversu mikil verðmæti þeir sem treyst hefur verið fyrir takmarkaðri nýtingu þjóðarauðlindarinnar hafa búið til úr þeim tækifærum sem kvótakerfið hefur fært þeim.

Tölurnar hér að ofan tala sínu máli. Það hefur verið rangt gefið þegar kemur að skiptingu á hagnaði af nýtingu þjóðarauðlindar í allt of langan tíma. Viðbúið var að þeir sem hafi hagnast umfram það sem eðlilegt er af slíkri skiptingu muni beita öllum tiltækum tólum og tækjum til að vinna gegn breytingum í þágu þjóðar, en mjög mikilvægt er að vera óhrædd og að sjá í gegnum þann áróður.

Takist það mun samfélagið í heild vinna.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Samherjamálið: Félagið ArcticNam sektað vegna brota gegn sjómönnum

Samherjamálið: Félagið ArcticNam sektað vegna brota gegn sjómönnum
Fréttir
Í gær

Sólveig Anna hjólar í Sóleyju Tómasdóttur og útskýrir hvers vegna hún vill ekki lengur kalla sig femínista – „Þannig upplifi ég það“

Sólveig Anna hjólar í Sóleyju Tómasdóttur og útskýrir hvers vegna hún vill ekki lengur kalla sig femínista – „Þannig upplifi ég það“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hrottaleg nauðgun á annan í jólum

Hrottaleg nauðgun á annan í jólum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsnet hvetur starfsfólk til að tilkynna um lögbrot og ámælisverða háttsemi

Landsnet hvetur starfsfólk til að tilkynna um lögbrot og ámælisverða háttsemi