Robert Lewandowski hefur tjáð sig eftir móttökurnar sem hann fékk í leik Dortmund og Barcelona í Meistaradeildinni í vikunni.
Barcelona heimsótti Dortmund og tapaði 3-1 en fyrri leiknum lauk með 4-0 sigri spænska liðsins sem fer áfram í undanúrslit.
Lewandowski er að sjálfsögðu fyrrum leikmaður Dortmund en hann yfirgaf félagið fyrir Bayern Munchen og samdi síðar við Barcelona.
Pólverjinn fékk ekki góðar móttökur á sínum gamla heimavelli en hann hefur nú svarað fyrir sig og segir að sumir aðilar þurfi að átta sig á því af hverju hann kvaddi á sínum tíma.
,,Ég skil stuðningsmennina en þeir ættu líka að skilja mig. Ég hef margoft sýnt hversu mikið ég virði Dortmund,“ sagði Lewandowski.
,,Ég hugsa bara jákvætt um minn tíma hjá Dortmund og þeir verða hluti af mínu hjarta að eilífu. Það var frábært að snúa aftur.“